Mikið gengur á þessa dagana bæði í íslensku efnahagslífi og fjármálakerfi heimsins. Vandinn er greinilega ótrúlega mikill og síðustu daga hefur hver dagur fært okkar nýjar fréttir með áður óþekktum erfiðleikum. Við þessar aðstæður er mest um vert að halda ró sinni , gera það besta hverju sinni þar til heildarmyndin liggur fyrir. Ekki er víst að komin sé nægjanleg yfirsýn og vel má vera að fleiri ótíðindi berist áður en um hægist.
Það er ekki brýnasta viðfangsefnið að finna sökudólgana , það mun gefast tími til þess síðar að rannsaka atburðarrásina og þau mistök sem gerð hafa verið. Þó vil ég benda á að löggjöf hérlendis sem og staða og hlutverk eftirlitsstofnana er með svipuðum hætti og víða erlendis. Ég efa að það hefði fengið hljómgrunn fram til þessa , að heimila eftirlitsstofnunum að grípa fram fyrir hendurnar á einkafyrirtækjum hvað þá að taka ráðin af eigendunum. Engum datt í hug að það gæti gerst, sem hefur gerst.
Nú þarf að vinna úr stöðunni og takast á við erfiðleikana. Það þjónar engum að fegra myndina heldur verður að horfast í augu við allan vandann. Hann er gífurlegur, það þýðir ekki að neita því og kjaraskerðing er óumflýjanleg.
Lögin sem sett voru á Alþingi sl. mánudag drógu víglínuna og vörðu þjóðfélagið fyrir skuldbindingum fjármálafyrirtækjanna erlendis. Sú löggjöf var algerlega nauðsynleg. Þeir sem stóðu að henni og studdu hana sýndu með því að þeir vildu vinna að lausn og bera ábyrgð.
Það er mín skoðun að taka eigi á öllum vandanum nú fremur en að fresta honum og velta honum á herðar komandi kynslóða. Það ræðst auðvitað af því hversu stór skuldabagginn verður þegar upp verður staðið hvort það er að öllu leyti fær leið. Við erum sjálfstæð þjóð og eigum að miða aðgerðir okkar við að verja sjálfstæðið og taka fremur á okkur tímabundna skerðingu lífskjara en að fresta til langrar framtíðar greiðslu skulda með þeim hörðu skilmálum sem slíku fylgir.
Staðreyndin er að auðlindir þjóðarinnar eru ríkulegar og miklir möguleikar til aukinnar verðmætasköpunar. Við búum við traust velferðarþjóðfélag , gott atvinnuástand og að mestu leyti sterkar atvinnugreinar. Erfiðleikarnir í fjármálafyrirtækjunum breyta þessum staðreyndum ekki. Ró og yfirvegum eru bestu ráðin þessa dagana og styðjum við bakið á stjórnvöldum í verkum sínum.
Greinin birtist í 24 stundum í dag.
Athugasemdir