Samleið með velferð til framtíðar

Pistlar
Share

Frjálslyndi flokkurinn vann mikinn sigur í borgarstjórnarkosningunum fyrir tveimur árum og hlaut ríflega 10% atkvæða. Kjósendur í Reykjavík veittu frambjóðendum flokksins skýrt og ótvírætt umboð til þess að vinna að þeim málum sem F listinn setti fram. Ég er ekki í vafa um hiklaus stuðningur framboðsins við núverandi Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni hafði mikið að segja. Reykvíkingar eru stoltir af stöðu sveitarfélagsins sem höfuðborgar allrar þjóðarinnar en gera sér jafnframt grein fyrir því að skyldur við landsbyggðina fylgja höfuðborginni.

Í borginni eru allar helstu þjónustustofnanir landsmanna í stjórnsýslunni, öflugustu menntastofnanir og kjarninn í heilbrigðisþjónustunni svo nokkur dæmi séu nefnd til. Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni gerir það að verkum að öll þessi þjónusta í höfuðborginni er landsmönnum öllum vel aðgengileg. Verði flugvöllurinn færður mun leiða af því skerðingu á lífsnauðynlegri þjónustu við landsmenn utan höfuðborgarsvæðisins.

Stuðningur Reykvíkinga við F listann í síðustu borgarstjórnarkosningum staðfestir ríkan vilja Reykvíkinga til þess að vera höfuðborg þjóðarinnar en ekki eitthvert sveitarfélag sem telur sig ekki hafa neinar skyldur við hagsmuni fólks utan marka þess. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að um 2/3 Reykvíkinga vill hafa flugvöllinn þar sem hann er og ekki er sjáanleg nein breyting á þeirri afstöðu þrátt fyrir mikla umræðu um að flytja völlinn úr Vatnsmýrinni. Það er vegna þess að Reykvíkingar gera sér grein fyrir skyldum höfuðborgarinnar og líta á sig sem hluta af þjóðinni sem byggir landið allt.

Formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, vakti athygli á þesu nána samspili Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í grein sem birtist í Fréttablaðinu 21. júlí sl. Þar benti hann á að Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri og borgarfulltrúi F – listans hafi haft skilning á mikilvægi þess að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni og tryggt það í málefnasamningi þáverandi meirihluta að ekki verði hróflað við flugvellinum á þessu kjörtímabili.

Guðjón Arnar Kristjánsson vekur athygli á því að Ólafur F. Magnússon hafi verið fylginn sér í stefnumótun mála sem hann var kostinn út á og segir að það sé ljóst að þáverandi borgarstjóri líti á Reykjavík sem þjónustumiðstöð fyrir alla landsmenn og að borgin eigi að sinna því hlutverki af kostgæfni og segist vænta þess að um þetta hlutverk borgarinnar „eigum við samleið með velferð til framtíðar“.

Ég tek undir þessi sjónarmið formannsins, Frjálslyndi flokkurinn og frambjóðendur á F- listanum eiga samleið til framtíðar um málefnagrundvöll framboðsins. Hann sameinaði fólkið í einu framboði og meðan skoðanir þeirra eru óbreyttar um helstu málin eiga menn samleið. Klofningurinn á síðasta ári sundraði liðinu og veikti slagkraft framboðsins. Forysta flokksins hlýtur að vinna að því að þeir sem eru sammála um málefni nái saman á nýjan leik og yfirstígi þann ágreining sem varð til þess að leiðir skildu. Kjósendur veittu frambjóðendunum á F listanum umboð sitt til þess að vinna að framgangi mála og þeim ber skylda til þess að fara vel með það umboð og í samræmi við málflutning sinn fyrir kosningar.

Formaður Frjálslynda flokksins bendir á það í grein sinni að skoðanakannanir sýni „að margir í Frjálslynda flokknum styðji ekki F lista á meðan forystumaður listans, borgarstjóri, tekur ekki af skarið um hvar hann ætlar sinn gönguslóða til framtíðar“. Nú hefur Ólafur F. Magnússon svarað og tekið af skarið. Þar með hafa langflestir frambjóðendur á F listanum snúið saman bökum að nýju.

Það er fagnaðarefni og vonandi eflist bæði F listinn og Frjálslyndi flokkurinn í kjölfarið. Það er víst að flokkurinn hyggur á framboð að nýju í Reykjavík og hefur verið stofnað borgarmálafélag til þess að vinna að því. Ólafur F. Magnússon og aðrir nýir félagar í flokknum eru boðnir velkomnir til starfa.

Athugasemdir