ESB umsókn – til hvers?

Pistlar
Share

Undanfarið ár hefur mikið verið rætt um það hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Umræðan hefur fyrst og fremst tengst erfiðleikum í efnahagsmálum hér á landi og borið þess merki. Komið er fram að aðild að ESB leysir ekki vandann í efnahagsmálum , heldur þvert á móti verður að koma á stöðugleika áður en Evrópusambandið samþykkir aðild.

Nú er hin pólitíska umræða að þróast þannig að sækja eigi um aðild til þess að megi komast að því hvað er í boði. Af hálfu þeirra sem lýsa þessu yfir er því gjarnan bætt við að þeir séu ekki endilega hlynntir aðild að Evrópusambandinu og muni jafnvel leggjast gegn þeim samningi sem kynni að nást milli Íslands og Evrópusambandsins.

Þetta er að mörgu leyti merkileg þróun í Evrópuumræðunni. Áfram er tillagan að sækja eigi um aðild að ESB, en ekki er lengur lýst yfir stuðningi við aðild. Stuðningsmenn kjósa að fela stuðning sinn á bak við vilja til könnunar. Gripið er til þess að segja að staðreyndirnar liggi ekki á borðinu og að þær fáist aðeins fram í viðræðum við Evrópusambandið.

En er eitthvað til í þessu? Að því leyti að ekki er vitað hvað verður í smáatriðum í ógerðum samningi. En að hinu leytinu til þá liggja helstu staðreyndir fyrir. Svo það er ofsagt að fara þurfi í viðræður til þess að fá að vita um megindrættina í aðildarsamningi.

Á síðasta kjörtímabili starfaði sérstök Evrópunefnd á vegum ríkisstjórnarinnar og í henni sátu fulltrúar allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Nefndin skilaði af sér viðamikilli skýrslu skömmu fyrir alþingiskosningarnar um álitaefni varðandi hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar er mikill fróðleikur fyrir áhugamenn um þetta viðfangsefni stjórnmálanna.

Össur Skarphéðinsson, núverandi Iðnaðarráðherra sat í nefndinni og 20. apríl síðastliðinn segir hann á heimasíðu sinni:“ Það þarf í sjálfu sér engar vangaveltur og litla vinnu til viðbótar um kosti og galla umsóknar. Öll gögn málsins liggja meira og minna fyrir, meðal annars af hendi þeirrar ágætu Evrópunefndar sem við Björn (Bjarnason) sátum báðir í“. Skýrar verður þetta varla, öll gögn málsins liggja fyrir og það þarf engu aðildarumsókn til þess að draga þau fram.

Ég er sammála Össuri um það að næsta skref er að skoða vegvísi að aðildarumsókn. Í því felst að ræða hver skilyrði Íslendinga eigi að vera fyrir aðild, hvað er það sem er ófrávíkjanlegt, hvað er umsemjanlegt og eftir hverju er verið að sækjast. Sérstaklega hvílir á þeim sem vilja sækja um að skýra afstöðu sína. Vilji til umsóknar felur í sér óhjákvæmilega vilja til aðildar.

Í fyrrnefndri skýrslu Evrópunefndarinnar er haft eftir sérfræðingum framkvæmdastjórnar ESB að þess sé ekki að vænta að Íslendingar geti haldið forræði sínu á 200 mílna efnahagslögsögunni og nýtingu fiskistofnanna og að ólíklegt sé að hægt að viðhalda takmörkunum á fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi. Vilja þeir sem tala fyrir aðildarumsókn ganga að þessum skilyrðum ESB eða ekki? Í skýrslu Evrópunefndarinnar kemur fram að staða íslensks landbúnaðar verði verri innan ESB en utan þess. Á að sækja um þrátt fyrir það?

Vitað er að Evrópusambandið stefnir í átt til meiri miðstýringar og minni áhrifa smáríkja meðal annars með því að afnema neitunarvald einstakra ríkja. Vilja menn aðild að þessu nýja Evrópusambandi? Næsta skref er ekki aðildarumsókn. Ákveða verður samningsmarkmið áður en ákveðið er hvort eigi að sækja um.

Athugasemdir