Ríkisstjórnin að fara á taugum?

Pistlar
Share

Þegar rýnt er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í fyrradag um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði kemur mest á óvart hversu erfitt er að sjá heilstæða efnahagsstefnu út úr þeim. Einhvern veginn virðast þetta vera meira og minna krampakenndar ákvarðanir til þess að bregðast ástandi sem ekki er komið upp en er ætlað til þess að friðþægja háværum hagsmunaaðilum.

Líklegasta afleiðing þessa nýjasta útspils ríkisstjórnarinnar á verðlagsþróun er að mun lengri tíma mun taka að ná tökum á verðbólgunni en annars væri með tilheyrandi kostnaði fyrir skuldug heimilin. Það er taugaveiklunarbragur á ríkisstjórninni.

Það sem mestu máli skiptir um þessar mundir er að ná jafnvægi í viðskipum við útlönd. Þjóðin getur ekki haldið áfram að eyða um efni fram gagnvart útlöndum og það á við um hið opinbera jafn sem fyrirtækin og heimilin. Þegar jafnvæginu er náð mun gengið hætta að veikjast og taka að styrkjast á nýjan leik. Þá verður náð tökum á verðbólgunni. Því fyrr sem þetta takmark næst þeim mun betra, sérstaklega fyrir skuldug heimilin. Aðgerðir sem seinka þessu ferli eru á kostnað heimilanna.

Ríkisstjórnin er að vinna gegn þessu með aðgerðum sem gera þrennt. Í fyrsta lagi dæla fjármagni út í viðskiptabankana sem mögulegt er að nota til að fjármagna áframhaldandi neyslu. Í öðru lagi með því að vinna gegn verðlækkun íbúðarhúsnæðis og í þriðja lagi stuðla aðgerðirnar að áframhaldandi byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Allar þrjár aðgerðirnar eru til þess fallnar að viðhalda þenslunni og þar með að vinna gegn því að ná fram stöðugleika.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tekið fram að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir efnahagssamdrátt og atvinnuleysi í kjölfar verðlækkunar á íbúðarhúsnæði. Víst er að rétt er að hafa augun á því að nauðsynlegur samdráttur í efnahagslífinu verði sem sársaukaminnstur. En ekki verður séð á þeim upplýsingum sem fyrir liggja að þær aðstæður séu framundan.

Í nýjasta hagvísi Seðlabanka Íslands er sérstaklega tekið fram að engin merki séu sjáanleg um minni vinnuaflseftirspurn. Bæði nýskráningar og endurskráningar starfsmanna hjá Vinnumálastofnun voru fleiri á fyrsta þriðjungi ársins en á sama tíma í fyrra. Í apríl voru 1717 skráðir atvinnulausir og hafði þeim fækkað um 159 frá því sem var ári fyrr. Meðalfjöldi atvinnulausra frá ársbyrjun er nú 1.642 og hefur fækkað um 16% frá fyrra ári. Fram kemur líka í Hagvísunum að nýskráningum bífreiða hefur fækkað verulega en að öðru leyti eru ekki skýr merki um að verulega hafi dregið úr þenslunni.

Í heildina er áframhaldandi vöxtur í eftirspurn, þótt hægt hafi á vextinum, hvað þá að komið sé að samdrætti. Það sést skýrast á því að hallinn á vöruviðskiptum við útlönd er mun meiri á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra, 28 milljarðar króna á móti 14 milljörðum króna.

Staðgreiðsluverð á íbúðarhúsnæði lækkaði í marsmánuði um 1,6% á höfuðborgarsvæðinu, en engu að síður var í sama mánuði staðan þannig að árshækkun íbúðarhúsnæðis á landinu öllu var um 14%. Það er ekki hægt að segja að neitt neyðarástand hafi skapast. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan mælingar sýndu að vöxtur í íbúðarfjárfestingu var hvorki meira né minna en 16%. Þá má minna á að raunverð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar hefur meira en tvöfaldast á einum áratug. Um það bil helmingurinn af verðbólgunni á rætur sínar í húsnæðiskostnaðinum og lækkun íbúðarverðs mun lækka verðbólguna.

Loks eru það rúsínan í pysluendanum ríkisvæðingin á íbúðalánaútrás viðskiptabankanna sem hófst fyruir fjórum árum. Það er satt að segja veruleg kaldhæðni í því tilboði ríkisins og það verður fróðlegt að sjá hvort viðskiptabankarnir kyngi þessum beiska bita. Þeir ætluðu sér að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef með því að ná til sín viðskiptavinum sjóðsins og greiða upp lán þeirra við sjóðinn. Á stuttum tíma voru greidd upp lán fyrir 185 milljarða króna. Íbúðalánssjóður gat ekki endurlánað þetta fé nema á lægri vöxtum en sjóðurinn þurfti að greiða af eigin lánum.. Fyrirsjáanlegt var Íbúðalánasjóður myndi tapa öllu sínu fé og yrði knésettur. Þetta mistókst , Íbúðalánasjóður hélt velli og nú á hann samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar að endurfjármagna lán viðskiptabankanna sem eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Eftir því sem ég kemst næst eru þetta um 500 milljarðar króna og ef reynt er að afmarka endurfjármögnunina einungis við þau lán sem raunverulega fóru til íbúðakaupa þá má ætla að um sé að ræða 200 – 300 milljarða króna. Ekkert kemur fram í yfrlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefur til kynna að endurfjármögnun Íbúðalánsjóðs eigi að takmarkast við einhverja fjárhæð svo það verður að ætla að öll þessi lán séu undir.

Ef þetta gengur eftir verða skyndilega nokkur hundruð milljarða króna í handbæru fé í viðskptabönkunum til ráðstöfunar í almenn útlán án nokkurra skilyrða. Hvernig á að vera hægt að vinna gegn þenslunni með svona efnahagsstjórn? Greinilegt er að ríkisstjórnin er ekki búin að hugsa aðgerðir sínar til enda. Þar eru margir lausir og ófrágengnir endar, sem bendir til þess að ákvörðunin nú hafi verið tekin í nokkurri taugaveiklun.

Athugasemdir