Stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Pistlar
Share

Utandagskrárumræða á Alþingi– 8. maí 2008.
framsöguræða KHG:

Stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Mikilvægt er að stefna ríkisstjórnar á hverjum tíma í heilbrigðismálum liggi fyrir með skýrum og afdráttarlausum hætti. Nokkuð vantar upp á að svo sé um þessar mundir. Það kemur fram hjá fyrrverandi forstjóra Landsspítalans í nýlegu blaðaviðtali. Hann segir að stefna stjórnvalda sé nokkuð óljós og spyr sérstaklega hvað felist í áformum um frekari einkarekstur.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands bendir á í nýlegri grein að íslenska heilbrigðiskerfið sé í eðli sínu félagslegt og að skv. könnun sem hann gerði árið 2006 sé almenn sátt um að hið opinbera skipuleggi heilbrigðisþjónustuna, greiði að mestu fyrir hana og starfræki helstu rekstrareiningar. En áform ríkisstjórnarinnar eru um aukinn einkarekstur sem Rúnar telur að færi heilbrigðisþjónustuna frá kjörmynd félagslegs heilbrigðiskerfis.

Kostnaður við heilbrgðisþjónusta var liðlega 117 milljarðar króna á síðasta ári og OECD telur að hann muni verða orðinn um 200 milljarða króna árið 2050 ef ekkert verður að gert. Fyrir aldarfjórðungi var kostnaðurinn aðeins þriðjungur þess sem nú er. Til þess að þjóðin geti búið áfram við heilbrigðisþjónustu sem er í fremstu röð í heiminum verður að bregðast við þessum horfum. Spurningin er hverju á að breyta og hvernig?

Fjármögnun þjónustunnar er þannig að hið opinbera greiðir um 83% útgjaldanna en einstaklingar um 17%.
Fyrsta spurningin til heilbrigðisráðherra er þessi: Mun hið opinbera halda áfram að greiða sinn hlut með almennum sköttum eða eru áform um breytingar á fjármögnun ríkisins á sínum hlut?
Í öðru lagi. Hvaða breytingar hyggst ríkisstjórnin gera á þjónustugjöldum sjúklinganna? Þau eru slíkur frumskógur sundurlausra og misvísandi ákvarðana undanfarinna áratuga að óskiljanlegt er. Kostnaðarhlutur er breytilegur eftir sjúkdómum, læknismeðferð, líkamshluta, aldri og hvar þjónusta er veitt svo nokkuð sé nefnt.

Ég tel að skynsamlegt væri að halda skiptingu kostnaðarins milli ríkisins og einstaklinga sem næst óbreyttum á komandi árum, en velti upp þeirri hugmynd að hlutur sjúklinganna verði greiddur af sérstakri sjúkratryggingu sem allir landsmenn 18 ára og eldri greiði til. Iðgjaldið gæti verið sem svarar 2,5 – 3% af launum.

Í þriðja lagi minni ég á að hið opinbera hefur víða takmarkað greiðsluþátttöku ríkissjóðs. Ég spyr ráðherra hvort til standi að gera tryggingarverndina víðtækari en nú er og láta hana ná til sálfræðiþjónustu og allra líkamshluta, svo sem munnhols og einnig til hjálpartækja fyrir sjón og heyrn, svo nefnd séu nokkur dæmi?

Skipulag þjónustunnar skiptir miklu máli og eðlilegt er að stjórnvöld hugi að því. Í skýrslu sérfræðinga Tryggingarstofnunar ríkisins frá 2005, réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingum á Íslandi, er bent á erlenda rannsókn sem dregur fram að óþarfar ákvarðanir í heilbrigðiskerfinu svo sem ónauðsynlegar rannsóknir, meðferð eða lyf, geti numið allt að 30% af heilbrigðisútgjöldum. Víst er að miklir möguleikar eru til þess að spara háar fjárhæðir með endurbótum á kerfinu sjálfu án þess að skerða sjálfa þjónustuna.

Ég vil vísa til margvíslegra tillagna um breytingar á núverandi skipulagi, sem fram koma í skýrslu nefndar um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðiskerfisins frá því í mars 2006. Nefndin var undir forystu Jónínu Bjartmars, fyrrv. alþingismanns og ráðherra, starfaði í rúm tvö ár og skilaði ítarlegri skýrslu, sem nefnd var: hver gerir hvað í heilbrigðisþjónustunni. Einhverra hluta vegna hefur þessi skýrsla legið í láginni í pólitískri umræðu um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi og er það miður því nefndin lagði upp í hendurnar á stjórnmálamönnum kjörið tækifæri til vandaðrar umræðu og stefnumörkunar á þessu sviði. Ég spyr ráðherra hvernig hann hyggist vinna úr tillögum nefndarinnar?

Ég vil benda á eina tillögu nefndarinnar sem ráðherra ætti að íhuga alvarlega. Þá að stofna þverfaglega nefnd, stjórnvöldum til ráðgjafar, sem meti beiðnir um kaup á nýjum verkum eða nýjum aðferðum í heilbrigðisþjónustu m.t.t. gagnreyndrar þekkingar, hagkvæmni, notagildis og ábata samfélagsins.

Að lokum vil ég árétta að óumflýjanlegt er af fjárhagsástæðum að vinna að endurbótum á heilbrigðiskerfinu en breytingar sem ráðist verður í verða að falla að viðhorfum almennings um félagslegt heilbrigðiskerfi.

Athugasemdir