60 milljarða króna eftirgjöfin!

Pistlar
Share

Í þessari viku verður endanleg afgreitt sem lög frumvarp frá fjármálaráðherra um breytingu á lögum um tekjuskatt sem fellur niður allar hugsanlega skattgreiðslur af 336 milljarða króna hagnaði af sölu hlutabréfa á árinu 2006. Sá skattur er 18% og getur numið um 60 milljörðum króna. Söluhagnaðurinn hefur verið talinn fram í reikningum fyrirtækjanna en beitt ákvæði laganna sem heimilar frestun á skattgreiðslum um tvenn áramót. Fresturinn rennur út um næstu áramót, í árslok 2008 og að öllu óbreyttu verða fyrirtækin að greiða skattinn við álagningu næsta árs.

Vissulega gæti frestaður hagnaður lækkað ef tap hefur verið á rekstri fyrirtækjanna, sem eiga frestaða hagnaðinn, árin 2007 og 2008. En í ljósi þess að einkum fjármálafyritæki og eignarhaldsfélög eiga í hlut er það ekki líklegt. Almennt var hagnaður á síðasta ári og enn sem komið er af þessu ári er myljandi hagnaður af t.d. viðskiptabönkunum. Þannig að ég tel líklegast að skattskuldbindingin vegna frestaða söluhagnaðar árisins 2006 sé um 60 milljarðar króna. Frumvarpið gefur alla þessa skuldbindingu eftir með einu pennastriki.

Samtök fjármálafyrirtækja vita alveg hvað felst í frumvarpinu. Þau segja í umsögn sinni um frumvarpið til efnahags- og skattanefndar Alþingis „ að lögfesting frumvarpsins mundi hafa jákvæð áhrif á eigið fé sérstaklega smærri fyrirtækja, svo sem sparisjóða“. Það er vegna þess að hvert fyrirtæki sem frestaði því að greiða skattinn af söluhagnaðinum hefur talið hagnaðinn fram í ársreikningi sínum, gert grein fyrir reiknaða ógreidda skattinum og fært hann sem skuld í efnahagsreikningi. Samþykkt frumvarpsins fellur skuldbindinguna niður og því hækkar eigið fé fyrirtækisins sem henni nemur.

Ætla má að samanlög áhrif vegna þessa eina árs, 2006, séu þau að eigið fé fyrirtækjanna hækki um allt að 60 milljarða króna. Samtök fjármálafyrirtækja liggja ekki á gleði sinni yfir þessum glaðningi og ljúka umsögn sinni með þeim orðum að það sé mjög mikilvægt við núverandi aðstæður að styrkja eigið fé fjármálafyrirtækja. Fyrr má nú gagn gera, segi ég nú bara.

Mótbárur eru af tvennum toga. Annars vegar að þessi skattagjöf sé nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að peningarnir verði fluttir úr landi og hins vegar að skatturinn hefði aldrei verið greiddur hvort sem er. Lítum á þessi rök. Varðandi fyrri rökin þá eiga þau ekki við af þeirri ástæðu að umræddur hagnaður var talinn fram hér á landi og því verður ekki breytt eftir á. Sá sem telur fram tekjur af rekstri hér lendis gerir þar með ráð fyrir að greiða skatt eftir því sem lög kveða á um. Það er hægt að flytja gróðann úr landi þótt skatturinn verði felldur niður.

Hefur einhver lofað skattyfirvöldum því að flytja peningana ekki úr landi ef skatturinn yrði felldur niður? Það væri gaman að sjá þær yfirlýsingar frá fjármálafyrirtækjunum. Auðvitað eru engar slíkar yfirlýsingar til og auðvitað eru þetta falsrök því í hvers konar kviksyndi væri fjármálaráðherra búinn að koma sér í ef hann léti undan slíkum hótunum?

Þá eru það hin rökin. Þar er bent á að hægt sé að færa frestaða hagnaðinn á aðra fjárfestingu og komast þannig hjá því að greiða skattinn. Það er rétt að vissu marki, en aðeins að vissu marki. Vegna þess að hagnaðurinn hverfur ekki heldur hvílir á nýju fjárfestingunni og hún afskrifast mjög hratt og þá vaknar hagnaðurinn aftur og kemur fram af fullum þunga með verðtryggingu í tekjum fyrirtækisins. Fresturinn verður aðeins gálgafrestur og að lokum fær ríkið sitt. Í stað þess að fella skattaskuldbindingarnar niður er eðlilegast að fella bara niður möguleikann til þess að fresta því að greiða skatt af hagnaðinum. Þá fær ríkið örugglega sitt. Þessi nauðhyggjurök eru hrein og klár vitleysa og stjórnarliðum til skammar.

Þessir 60 milljarðar króna skattaniðurfelling snertir bara eitt ár, 2006. En málið er miklu stærra. Samanlagður söluhagnaður áranna 2001 – 2006 er um 630 milljarða króna. Það ætti að gefa ríkinu rúmlega 110 milljarða króna í tekjuskatt, peningar sem aldrei koma í kassann héðan af eftir að stjórnarliðar verða búnir að gefa þá eftir með samþykkt frumvarpsins. Þá vantar hagnaðinn af sölu hlutabréfa fyrir síðasta ár og svo þetta ár. Hvað verða þær fjárhæðir háar? Og loks er með frumvarpinu lögunum breytt á þann veg að um ókomin ár verður ekki greiddur neinn skattur af hagnaði af sölu hlutabréfa. Og þá er verkið fullkomnað.

Þetta óhæfuverk get ég ekki stutt. Fjármálafyrirtækin og eignarhaldsfélög landsins eru í eigu fólks sem lifir og hrærist í íslensku þjóðfélagi, nýtur góðs af velferðarkerfinu og á hér gott líf í landi þar sem lífskjör eru með því allra besta í heiminum. Umræddir einstaklingar eiga að taka þátt í því að kosta velferðarkerfið með okkur hinum , skattgreiðendum þessa lands. Það gengur ekki að ala upp í til þess að gera fámennum hópi það viðhorf að sjálfsagt sé að þeir séu hinir útvöldu, sem þurfi ekkert á sig að leggja, taki bara út og leggi ekkert inn í „þjóðarbankann“. Svona lagasetning gerir sitt til þess að brjóta niður innviði þjóðfélagsins.

Athugasemdir