Evrópusambandið klýfur ríkisstjórnina

Pistlar
Share

Ríkisstjórn hins mesta meirihluta á Alþingi er harla máttlítil vegna innri ágreinings um veigamikil mál. Nefna má sem dæmi ágreining um þessi mál: stóriðju og virkjun fallvatna eða jarðhita, eignarhald á orkulindum, gagnrýni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á kvótakerfið í sjávarútvegi, stefnuna í loftslagsmálum, aðgerðir í efnahagsmálum og nú síðast um Evrópusambandið.

Formaður Samfylkingarinnar hefur ítrekað á síðustu dögum lagt áherslu á það að stjórnarsáttmálinn komi ekki í veg fyrir að sótt verði um aðild að ESB. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 þann 20. apríl sagði utanríkisráðherra að ekkert væri útilokað ef fyrir lægi meirihlutavilji á Alþingi. Með þessu er ráðherrann að leggja áherslu á að stjórnarsáttmálinn sjálfur sé enginn hindrun.

Ég fæ ekki séð annað en að verið sé að senda Sjálfstæðisflokknum þau skilaboð að ríkisstjórnarsamstarfið muni ekki stöðva málið. Að auki segir formaður Samfylkingarinnar í áðurnefndu viðtali að þingmenn verði að íhuga alvarlega aðild að Evrópusambandinu ætli þeir sé ekki að vera úr takt við almenning.

Haarde viðskila við þjóðina?

Orðrétt segir utanríkisráðherra í tilefni af skoðanakönnun Fréttablaðsins um undirbúning að aðildarviðræðum að ESB að hann líti svo á að niðurstaða könnunarinnar „ sé áskorun til þingmanna um að taka þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar, þannig að þeir verði nú ekki viðskila við þjóðina í landinu“. Hver skyldi nú eiga þessi skilaboð öðrum fremur?
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt það alveg ljóst að ríkisstjórnin muni ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili.

Á mánudaginn innti ég formann Sjálfstæðisflokksins eftir afstöðu hans sem oddvita ríkisstjórnarinnar í fyrirspurnartíma á Alþingi. Svör hans vor skýr: Það verður ekki sótt um. Ef það ætti að gerast þyrfti að semja nýjan stjórnarsáttmála og Sjálfstæðisflokkurinn að skipta um skoðun í málinu og hvorugt er meiningin.

Samkvæmt þessu jafngildir aðildarumsókn í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn stjórnarslitum. Hver er að verða viðskila við hvern?

Athugasemdir