Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarnar vikur um það hvort Íslendingar eigi að stíga skrefið til fulls og ganga inn í Evrópusambandið. Kveikjan að umræðunni er greinilega ójafnvægið sem er í efnahagsmálum landsmanna og birtist einkum í háum vöxtum og gengi krónunnar sem hefur sveiflast verulega, er ýmist mjög hátt eða fellur skyndilega mjög hratt. Rétt eins og nú er að gerast og var reyndar fyrirséð og vísa ég þar til skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í fyrra, en þar var einmitt sagt að gengið myndi líklega falla um 25%.
En þarna finnst mér vera rangt svar við vandamálum dagsins. Aðild að Evrópusambandinu leysir ekki efnahagsvandann í dag af þeirri einföldu ástæðu að Íslendingar þurfa að koma á jafnvægi áður en þeir verða samþykktir inn í ESB. Fjölmiðlaumræðan er einhvers konar veruleikaflóttaumræða þar sem lukkuriddarar keppast um að bjóða almenningi hókus-pókus lausnir, þar sem vandinn á að hverfa eins og dögg fyrir sólu með því að ganga inn í ESB og í framhaldinu henda íslensku krónunni og taka upp evru.
Þetta er svona „eitthvað annað“ syndróm sem langminnugir kannast vel við úr umræðunni um Kárahnjúkavirkjun og atvinnumál á Austurlandi. Þá átti ekki að reisa álver og virkjun heldur eitthvað annað. Nú er ESB og evran í hlutverkinu „eitthvað annað“. Það er full ástæða til þess að vara við þessum málflutningi. Það liggur algerlega fyrir hvað ESB lausnin leiddi af sér ef henni væri beitt á núverandi ástand , eins og umræðan er í raun byggð á. Í stað þess að gengið lækkaði eins og það er að gera þessa dagana með þeim afleiðingum sem Íslendingar þekkja, myndu fyrirtæki verða gjaldþrota og atvinnuleysi yrði umtalsvert. Það er ESB valkosturinn vegna þess að Íslendingar hefðu ekki möguleika á gengislækkunarleiðinni með því að hafa annan gjaldmiðil, hvort sem hann væri evra eða einhver annar.
En að efnahagsvandanum slepptum er það spurningin, hvort Íslendingar eigi að ganga inn í Evrópusambandið. Svar Frjálslynda flokksins er skýrt og ótvírætt, nei. Aðild kemur ekki til greina meðan reglur sambandis eru óbreyttar í fiskveiðimálum. Afstaða okkar er að Íslendingar eigi að fara með fullt forræði á auðlindinni, ákvarða magn sem veiða má, stjórna veiðunum og fara með samninga við erlend ríki um veiðar úr fiskistofnum við Ísland.
Með ESB aðild færast allir þessir þættir frá íslendingum til ESB, einkum ráðherraráðs þess og framkvæmdastjórn, auk þess sem veiðar erlendra skipa verða heimilaðar upp að 12 mílum. Íslenska kvótakerfið skapar svo sérstök vandamál til viðbótar og það er vandséð hvernig hægt verði að tryggja íslenska hagsmuni innan ESB án þess að gerbylta kvótakerfinu.
Fyrir réttu ári kom út skýrsla Evrópunefndar um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Fulltrúi Frjálslynda flokksins, Brynjar Sigurðsson, gerði þar grein fyrir afstöðu flokksins í sérstakri bókun. Lokaorð hennar draga saman afstöðu flokksins í stuttu máli: „Frjálslyndi flokkurinn telur almennt að íslensku þjóðinni hafi farnast vel sem sjálfstæðri þjóð utan ESB. Varlega eigi því að fara í aðildarumsókn, sem er ekki tímabær að óbreyttu“.
En þá er sagt, að við þurfum að sækja um aðild að ESB til þess að vita hvað við fáum og sjá svo til hvort okkur líki niðurstaðan. Því er til að svara að þessi afstaða lýsir alvarlegri pólitískri tvöfeldni, einhvers konar dr. Jekyll og mr. Hyde ástandi. Það er út í hött að sækja um aðild án þess að vilja ganga inn. Það er líka út í hött að tala um að leggja fyrir þjóðina samningsniðurstöðu sem annar samningsaðilinn,þ.e. okkar eigin samningamenn myndu svo leggja til að yrði felldur. Svona tal á ekki að líðast í pólitískri umræðu.
Að lokum, kann að vera spurt hvort Frjálslyndi flokkurinn vilji að sótt verði um aðild að ESB ef fyndist viðundandi lausn á fiskveiðimálunum og kannski almennar sagt, að tryggt yrði að forræði á auðlindum landsmanna yrði áfram í þeirra höndum vegna þess að það þarf líka að huga að orkuauðlindunum. Svar við því liggur ekki fyrir með beinum hætti, að öðru leyti en því að þá myndi flokkurinn endurmeta afstöðu sína í því ljósi og rétt er að minna á að flokkurinn telur að Íslendingar eigi að taka þátt í evrópskri samvinnu eftir því sem frekast er unnt og að alþjóðlegt samstarf skapar ný tækifæri og möguleika til uppbyggingar heima og að heiman.
Athugasemdir