No minister, það vantar víst peninga

Pistlar
Share

Forsætisráðherrann fullyrti á Alþingi í síðustu viku að það stæði ekki á fjármagni til þess að hrinda í framkvæmd tillögum Vestfjarðanefndarinnar. Það kom mér á óvart því að bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ og nefndarmaður í Vestfjarðanefndinni hafði fyrir nokkru sagt í fjölmiðlum að ekki hefði tekist að hrinda tillögunum í framkvæmd á þeim tíma sem nefndin lagði til, aðeins 18,8 störf urðu til árið 2007 í stað 28. Eftir yfirlýsingu forsætisráðherrans sagðist bæjarstjórinn vera sammála ráðherranum, yes minister.

Nú bar svo til að ég sat fund með þingmönnum Norðvesturkjördæmis í dag og þar kom formaður Vestfjarðanefndarinnar og gerði grein fyrir stöðu mála. Lagði hann fram greinargott yfirlit þar sem skilmerkilega er rakin staða hverrar tillögu, er þær eru alls 37 og eiga að búa til 85 störf. Viti menn, stendur ekki svart á hvítu við 6 tillögur að fjármagn skorti. Þetta kemur fram í minnisblaðinu:

1. Efling starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða. Vantar fjármagn til þess að ráða í eitt stöðugildi af þremur.
2. Vöktun fuglalífs. Átti að vera eitt stöðugildi, en ráðið í 0,75 starfshlutfall þar sem fjármagn nægir ekki.
3. Vöktun gróðurs. Eitt stöðugildi en biðstaða þar sem fjármagn nægir ekki.
4. Gróðurkortagerð á Vestfjörðum. Tvö stöðugildi, en ráðið í lægra starfshlutfall þar sem fjármagn nægir ekki.
5. Þjóðtrúarstofa á Hólmavík. Tvö stöðugildi, en fjármagn vantar til þess að ráða í seinna stöðugildið.
6. Minjavörður Vestfjarða. Eitt stöðugildi, en ráðið í 0,8 þar sem fjármagn nægir ekki í fulla stöðu.

Að auki vil ég nefna svonefnda Látrabjargsstofu. Við hana átti að ráða sérfræðing á þessu ári. Umhverfisstofnun hefur upplýst í nýlegu bréfi til þróunarseturs Vestur- Barðastrandarsýslu að staðan verði ekki auglýst fyrr en fjármunir hafi verið tryggðir og að Vestfjarðanefndin hafi forgangsraðað fjármunum sem úr var að spila þannig að ráða sérfræðing í friðlandið á Hornströndum og þannig ákveðið að láta Látrabjargsstofu bíða.

Samtals vantar fjármagn til þess að uppfylla ráðningar í 7 tillögum sem áttu að koma til framkvæmda á þessu ári. No, minister, það vantar víst peninga.

Athugasemdir