Gegn verðbólgu

Pistlar
Share

Aðgerðir Seðlabanka Íslands, sem kynntar voru í dag, miða greinilega að því að halda aftur af verðbólgunni. Hún var 6,8% í síðasta mánuði og eftir fallið á gengi krónunnar blasir við að verðbólgan mun enn færast í aukana. Greiningardeildir bankanna spá 8-9% verðbólgu á þessu ári og að hún verði há langt fram á næsta ár. Gangi það eftir munu skuldir heimilanna líklega hækka um 100 milljarða króna á árinu sem jafngildir um 1/6 hluta allra launatekna landsmanna. Þetta er gjaldið sem skuldsett heimili þurfa að greiða fyrir verðbólguna, bara á þessu ári.

Svipaða sögu má segja af fyrirtækjum landsins. Útlán innlánsstofnanna til fyrirtækja hafa aukist um 30 – 40 % á hverju ári frá 2004. Það má segja að verkefnið í efnahagsmálum sé fyrst og fremst að koma sem mest í veg fyrir verðbólguhækkunina sem að öðru jöfnu leiðir af gengislækkun krónunnar og að ná verðbólgunni sem fyrst niður í verðbólgumarkmiðið 2,5%. Því fyrr sem það tekst þeim mun betra fyrir alla.

Hækkun stýrivaxta Seðlabankans var nauðvörn og ekkert annað sem bankinn gat gert í þessari stöðu. Ætlunin er að öllum líkindum að stuðla að hækkun krónunnar og koma þannig sem mest í veg fyrir verðlagshækkanir á næstunni. Til lengri tíma á svo stýrivaxtahækkunin að draga úr eftirspurninni sem er forsenda þess að verðbólgan náist niður. Þetta eru góð og gild markmið.

Efnahagsvandinn er að sjálfsögðu margvíslegur og flókinn. Þó eru örfá atriði sem hafa mest að segja. Viðskiptahallinn hefur verið gífurlegur og endurspeglar bæði mikla fjárfestingu í landinu og ekki síður einkaneyslu. Umtalsverður hluti hallans er fjármagnaður með erlendu lánsfé. Annað atriði eru ríkisfjármálin. Útgjöldin á síðasta ári jukust um 10% að raungildi milli ára, en til samanburðar aðeins um 0,5% árið áður. Í þriðja lagi vil ég nefna ítrekuð ummæli forráðamanna ríkisstjórnarinnar um almenna skattalækkun sem virkar eins og olía á eftirspurnareld sem logar vel fyrir. Loks er veruleg verðhækkun á erlendum vörum , einkum olíu, bensíni og aðföngum til matvöruframleiðslu og fátt sem við getum við því gert.

Það verður að draga úr einkaneyslunni ef takast á að ná verðbólgunni niður. Það er ekki eðlilegt ástand að útlán innlánsstofnana til innlendra aðila hafi aukist um 23,5% að raungildi á 12 mánuðum, frá janúar 2007 til janúar 2008. Takist það þá verða verðlagsáhrif af gengislækkun síðar, sem kann að verða varanleg, mun minni en ella. Ríkisstjórnin verður að fara að vinna með Seðlabankanum og á að beita ríkisfjármálunum til þess að lækka verðbólguna.

Víst er að baráttan gegn verðbólgunni er mikilvægust um þessar mundir og rétt að líta á öll úrræði sem að gagni mega verða. Eitt gamalt ráð var mikið í umræðunni fyrir hartnær tuttugu árum, niðurfærsluleiðin, sem Einar Oddur Kristjánsson talaði mikið fyrir og upp úr henni spratt þjóðarsáttinn árið 1990 sem lagði verðbólguna að velli um margra ára skeið. Kannski er þess virði að líta á þá leið aftur.

Athugasemdir