Engar umönnunarbætur greiddar

Pistlar
Share

Í Fréttablaðinu á föstudaginn var, þann 4. janúar, er frétt um raunir sjónskertrar og ósjálfbjarga ekkju. Dóttir hennar hefur annast móður sína, en hún fær ekki umönnunarbætur, sem ríkið greiðir þegar svona stendur á. Ástæðan er sú að greiðslan er takmörkuð við þá sem eiga sameiginlegt lögheimili. Lögin eru skýr og úrskurðarnefnd um almannatryggingar staðfesti synjun um greiðslu umönnunarbóta í þessu máli.

Vandinn sem við blasir í þessu máli er að ríkið veitir ekki ekkjunni viðunandi umönnun heima hjá sér svo hún býr við óviðunandi þjónustu þar til hún kemst á stofnun til dvalar og þjónustu. Þrautalendingin er þá að ættingjar hlaupa undir bagga með ríkinu.

Vissulega var það framför á sínum tíma þegar lögfestar voru umönnunarbætur í þessum tilvikum, en heimildin er takmörkuð og afar þröng. Þess vegna fá mun færri aldraðir og sjúkir umönnun í heimahúsi en nauðsyn krefur. Brýnt er að rýmka lagaákvæðið með hagsmuni þeirra í fyrirrúmi sem þjónustuna þurfa. Það mun stuðla að því að aldraðir geti verið lengur í heimahúsi en nú er, þeim mun vonandi líða betur og svo merkilegt sem það nú er, þá sparar ríkið umtalsverða fjárhæðir fyrir hvern þann mánuði sem dregst að aldraðir flytjist í hjúkrunarrými.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem þingmenn Frjálslynda flokksins lögðu fram, þar sem lagt er til að breyta lögunum og rýmka heimildir til þess að greiða umönnunarbætur og heimila greiðslur til þeirra sem eiga annað lögheimili en sá sem annast er um. Heimilt yrði skv. frumvarpinu að greiða öðrum en maka viðkomandi, svo sem ættingjum eða nákomnum vinum. Auk þess er lagt til að hækka greiðslurnar og samræma þær öðrum greiðsluflokki. Kostnaður ríkisins við mánaðarþjónustu yrði eftir sem áður aðeins fjórðungur kostnaðar við dvöl á hjúkrunarheimili. Löngu tímabært er að stíga næsta skref til þess að bæta þjónustuna við aldraða og sjúka í heimahúsum.

Athugasemdir