Andstaða ríkisstjórnarinnar við tekjujöfnun

Pistlar
Share

Alþýðusamband Íslands hefur lagt til við stjórnvöld að tekinn verði upp sérstakur persónuafsláttur 20.000 kr. á mánuði til þeirra sem hafa 150 þúsund krónur í mánaðartekjur eða minna. Þeir launamenn sem hafa meiri tekjur fái minna en 20.000 kr. og viðbótin fari minnkandi með vaxandi tekjum þar til sérstaki persónuafslátturinn fellur niður við 300 þúsund króna mánaðartekjur. Þeir sem hafa hærri tekjur en 300 þúsund kr. fá engan viðbótarpersónuafslátt og munu því greiða sömu skatta og þeir gera nú. Það eru því aðeins fólk með lágar tekjur sem fær skattalækkun og kjör þess batna sem því nemur. Kjör hinna verða óbreytt ef tillögurnar ná fram að ganga.

Þetta eru, eins og ég hef vakið athygli á, nánast sömu tillögur og eru í frumvarpi þingmanna Frjálslynda flokksins sem liggur fyrir Alþingi og byggjast á stefnu okkar í skattamálum fyrir síðustu Alþingiskosningar. Við erum ánægðir með að Alþýðusambandið hefur tekið upp sömu stefnu og við styðjum samtökin eðlilega. Það eru hins vegar ekki allir jafnánægðir. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, sá ástæðu til þess að andmæla opinberlega tillögunum. Það er spurning sem hann verður að svara hvers vegna Samtök atvinnulífsins eru andvíg því að bæta kjör lágtekjufólks í gegnum skattakerfið og hvers vegna yfirhöfuð samtökin eru að skipta sér af erindi ASÍ til ríkisstjórnarinnar sem snýr á engan hátt að SA og ég veit ekki til þess að það sé hlutverk samtaka atvinnulífsins að hafa afskipti af því hvernig ríkið deilir sköttum niður á launamenn eftir tekjum þeirra.

Forsætisráðherra Geir Haarde tók í svipaðan streng og sagði tillögurnar kostnaðarsamar og illmögulegt að veita þennan auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk. Bar hann sérstaklega við þann galla sem hann sá á tillögunum að jaðarskattar þeirra sem væru með tekjur frá 150 þús. kr. á mánuði upp í 300 þúsund kr. gætu numið allt að 50%. Ríkisstjórnin er því að sögn forsætisráðherra ekki tilbúin að fallast á tillögurnar að svo stöddu.

Það kemur mér satt að segja á óvart að ríkisstjórnin skuli á þessu stigi taka svona illa í tekjujöfnun í gegnum skattkerfið þar sem lágtekjufólkið nýtur góðs af. Yfirlýsing forsætisráðherrans gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu hvers ærlegs jafnaðarmannaflokks og ég hafði ekki áttað mig á því að Samfylkingin færi í ríkisstjórn upp á þessi býti.

Mótbárur forsætisráðherrans valda vonbrigðum vegna þess að gefið er í skyn að kjör sumra versi við það að lágtekjufólk borgi minni skatta. Þeir sem Geir Haarde segir að muni greiða allt að 50% jaðarskatt eru alls ekki að borga meira í skatta skv. tillögunum heldur munu þeir borga minna. Kjör þeirra munu batna en ekki versna. Það er ekki málefnalegt, að mínu mati, af forsætisráðherra að etja hópum launamanna saman eins og hann er augljóslega að gera með ummælum sínum.

Mér finnst það ekki rök gegn bættum kjörum þess hóps sem hefur lægstu tekjurnar að sá hópur sem hefur eilítið hærri tekjur fái ekki eins miklar skattalækkun. Það hlýtur alltaf að vera svo ef það á að bæta kjörin í gegnum skattakerfið. En röksemdafærsla Geirs Haarde felur í sér þá skoðun eða afstöðu að allir eigi að fá sömu kjarabætur að minnsta kosti í krónutölu ef ekki hlutfallslega miðað við tekjur og ég skil sem svo að lýsi stefnu ríkisstjórnarinnar.

Þarna er ríkistjórnin á villugötum leidd áfram af mýrarljósi Samtaka atvinnulífsins um fúafen ójafnaðar og misskiptingar. Ég trúi því varla að þetta sé í alvöru stefna ríkistjórnarinnar og skora á stjórnarflokkana að leiðrétta stefnuna sem fyrst. Það eru kjarasamningar í húfi og það, sem er ef til vill enn mikilvægara, sátt við þjóðina um bætt kjör þeirra sem minnst hafa.

Athugasemdir