Sameinuðu þjóðirnar gefa kvótakerfinu rauða spjaldið

Pistlar
Share

Þetta er að verða mikil þrautaganga fyrir þá sem bera í bætifláka fyrir kvótakerfið. Þjóðin hefur lengst af verið lítið um það gefið. Í síðustu könnun Gallup /Capacent ( 2007) um afstöðu til kerfisins voru aðeins 15% svarenda ánægðir með kerfið en 72% óánægðir. Um 13% svarenda virtust ekki taka afstöðu. Ef aðeins eru teknir þeir sem tóku afstöðu voru 83% óánægðir með kvótakerfið. Þetta eru nánast sömu tölur og voru í könnun sem fyrirtækið gerði 1998. Það eru um fimm óánægðir fyrir hvern einn ánægðan. Þetta verður að teljast mikil falleinkunn sem íslenska þjóðin gefur „besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi“ ár eftir ár.

„Enn aukast vandræði okkar kerling“ er lagt í munn Bjarnar í Mörk, sem frægastur varð fyrir þá dáð að standa að baki Kára Sölmundarsyni. Líklega hefur ráðherrum þótt sem þeir væru í svipuðum sporum á dögunum þegar við bættist að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafði komist að þeirri niðurstöðu að sjálf kvótaúthlutunin, grundvöllur kerfisins, fæli í sér mismunun sem gengi gegn 26. grein mannréttindasáttmálans og færi gegn ákvæði 1. greinar laganna um stjórn fiskveiða um þjóðareign á nytjastofnunum. Meira að segja voru úrslitin innan nefndarinnar ekki ósvipuð og afstaða íslensku þjóðarinnar, 12 nefndarmenn af 18 standa að álitinu eða 67%.

Fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherrans voru eins og tekin beint upp úr Njálu. Þrátt fyrir alla eldana sem skíðloga kringum kvótakerfið ætlar hann ekki að breyta því heldur standa með því þar til hver sjávarbær er brunninn til ösku. Þegar farið var að Njáli og lagður eldur að bænum var Bergþóru boðin grið. „Ung var ég gefin Njáli“ svaraði hún og fór hvergi. Ungur gaf ráðherrann sig á vald kvótakerfinu og hann ætlar að standa með því í eldinum af sjávarþorpunum rétt eins og Bergþóra stóð með Njáli forðum, Það má svo sem segja að þetta beri vott um staðfestu, en er lítil huggun harmi gegn þegar staðið er yfir brunarústunum.

Mannréttindasamningur Sameinuðu þjóðanna heitir reyndar réttu nafni alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hann var samþykktur samhljóða á Alþingi sem ályktun árið 1979 og ríkisstjórninni heimilað að fullgilda hann í framhaldinu. Í því felst að bæði ríkisstjórn og Alþingi hafa lýst yfir stuðningi við efnisatriði samningsins og heitið að vinna að því uppfylla ákvæði hans. Í 2. grein samningsins er skýrt kveðið á um skyldur ríkisins til þess að ábyrgjast öllum þegnum sínum þau réttindi sem í honum eru og að gera nauðsynlegar ráðstafanir með lögum eða öðrum ráðstöfnunum til þess að réttindunum sé framfylgt. Ríkið ábyrgist líka að hver maður sem brotið hefur verið á fái raunhæfar úrbætur eða að hver maður sem krefst slíkra úrbóta fái rétt sinn ákveðin af lögbæru yfirvaldi ( svo sem löggjafarvaldi eða dómsvaldi).

Þótt samningurinn hafi ekki verið lögfestur þá eru þær skyldur sem stjórnvöld hafa undirgengist í fullu gildi. Ráðherrar eru þannig bundnir af ákvæðum samningsins og t.d. ber þeim að beita sér fyrir því að hver maður sem brotið hefur verið á fái bót sinna mála og einnig að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum. Það er þeirra skuldbinding.

Ráðherrarnir kunna að vera ósammála áliti Mannréttindanefndarinnar í einstökum málum sem einstaklingar skjóta til nefndarinnar en þeim ber eftir sem áður að virða álitið og vinna að því að framfylgja því . Ella kunna þeir að baka sér ábyrgð fyrir vanefndir á skyldum sínum og jafnvel vera bótaskyldir gagnvart þeim einstaklingum sem líða fyrir athafnaleysi stjórnvalda.

Mannréttindanefndin er sá aðili sem samkomulag eru um kveði upp úr með það hvort brotið sé gegn ákvæðum samningsins eða ekki. Það hafa þjóðirnar samþykkt sem hafa fullgilt samninginn. Íslensk stjórnvöld og reyndar Alþingi líka eiga ekki annan kost en að una úrskurði nefndarinnar, virða hann og beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til þess að mæta álitinu.

Það er að sönnu svo að Mannréttindanefndin er ekki dómstóll og samningurinn hefur ekki lagagildi og þannig séð er álit nefndarinnar ekki dómur og bindandi eins og á við um Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstólinn í Strassborg. En skuldbindingar eru í samningum sem stjórnvöld hafa tekist á hendur. Auk þess eru dómstólar hér á landi farnir að taka mið af áliti nefndarinnar og um það eru dæmi við túlkun á mannréttindagrein stjórnarskrárinnar, enda er hún í raun tekin upp úr mannréttindasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta nýja álit mun því hafa áhrif fyrir íslenskum dómstólum framvegis og geta leitt til annarrar niðurstöðu en áður í sambærilegum málum.

Loks má benda á að Íslendingar hafa hingað til kappkostað að breyta landslögum til samræmis við ábendingar og athugasemdir Mannréttindanefndarinnar á undanförnum áratugum. Ef svo brigði við að þessu sinni að ríkisstjórnin berði hausinn við steininn og þverskallaðist við að breyta kvótakerfinu til samræmis við álit nefndarinnar þá er ég hræddur um að utanríkisráðherra geti hætt þegar í stað öllum tilraunum til þess að fá kosningu í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Það hvarflar ekki að mér að ríki sem virðir ekki álit mannréttindanefndarinnar verði valið til setu í öryggisráðinu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gengið í lið með íslensku þjóðinni og eru búnar að gefa kvótakerfinu rauða spjaldið.

Athugasemdir