Fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs

Pistlar
Share

Umræða á Alþingi utan dagskrár þriðjudaginn 9. október 2007.

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna frétta sem bárust fyrir nokkrum dögum um 200 þús. kr. styrk sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs leggur til við félagsmálaráðherra að verði boðinn atvinnulausu fólki í þeim tilgangi að fá það til að flytja búferlum frá sinni heimabyggð og þangað sem vinna er í boði. Ég geri sérstaka athugasemd við að ætlunin sé að bera fé á fólk til að flytja sig í stað þess að stjórnarflokkarnir axli ábyrgðina sem fylgir því að vera við stjórnvölinn og sinna atvinnumálum um land allt en ekki bara á útvöldum svæðum.

Fólk á rétt á að velja sér búsetu og hinu opinbera ber að virða þann rétt í orði og verki. Segja má að við eðlilega aðstæður í þjóðfélaginu þar sem jafnvægi ríkir geti verið rétt að aðstoða fólk við að flytjast búferlum vegna atvinnusóknar enda mundi þá ekki halla á einhver landsvæði umfram önnur, en því fer fjarri að svo sé um þessar mundir.

Undanfarin ár hefur æ meira hallað á mörg byggðarlög á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið, hvort sem litið er til launa, fjölbreytni starfa, nýsköpunar í atvinnulífinu eða grunngerðar samfélagsins. Sérstaklega hefur vatnað undan sjávarbyggðum landsins þar sem starfsöryggi launafólks er með öllu óviðunandi vegna hinna ógeðfelldu vankanta kvótakerfisins. Þessar hugmyndir um sérstakan hvata til að örva fólks til flutnings af landsbyggðinni — eins og það var orðað, því að um það snýst málið — eru eins og löðrungur framan í fólk sem á heima þar og vill eiga heima þar. Það er verið að segja því undir rós að ríkið vilji að fólkið pilli sér suður og hætti að vera stjórnvöldum til ama og leiðinda á hinum og þessum útkjálkanum. Þetta er ekki það sem fólkið vill.

Fyrir helgina var kynnt rannsókn sem Fjölmenningarsetrið á Ísafirði vann í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um afstöðu fiskvinnslufólks á norðanverðum Vestfjörðum. Þar kom fram að margir höfðu áhyggjur af því að fá ekki vinnu í sinni heimabyggð. Sérstaklega voru það konurnar sem höfðu áhyggjur af þessu. Í einu dagblaðanna var á föstudaginn var viðtal við fiskvinnslukonu á Flateyri af því tilefni að vinnsla var þar að hefjast á nýjan leik í plássinu eftir rúma tvo mánuði. Konan upplýsti að hún hefði ekki þorað að fara á atvinnuleysisbætur ef ske kynni að hún þyrfti að fara eitthvað annað í vinnu. Fólk vill vinnu þar sem það býr, það er niðurstaðan.

Fram undan er langvarandi mikill niðurskurður í þorskveiðum með tilheyrandi samdrætti um sjávarsíðuna til viðbótar erfiðleikunum þar undanfarin ár. Greiningardeild Landsbankans segir í nýjustu hagspá sinni að skilin milli vinnumarkaðar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni muni enn aukast á næstu árum. Þar segir að í fyrsta lagi sé útlit fyrir að stærstu fjárfestingar næstu ára, hvort sem er í íbúðabyggingum, stóriðju eða opinberum framkvæmdum, verði bundnari við höfuðborgarsvæðið en verið hefur. Í öðru lagi muni afleiðinga kvótaskerðingar og frekari hagræðingar í sjávarútvegi og fiskvinnslu fyrst og fremst gæta á landsbyggðinni.

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva spáir því að störfum í fiskvinnslu muni fækka um 500 á árinu 2008 og að hátt í 1.000 manns muni sagt upp störfum á næstu tólf mánuðum, þúsundir muni flytjast af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið á næstu árum ef ekki verði við brugðist. Þetta er kannski afar heppilegt í ljósi þess sem fram kemur í fyrrnefndri hagspá Landsbankans um íbúðabyggingar næstu ára. Þar segir að útlit sé fyrir að framboð nýrra íbúða muni aukast enn á árunum 2008 og 2009 og að a.m.k. 20 þúsund nýja íbúa þurfi inn á svæðið til að fylla þær íbúðir. Það þarf ekki að stafa ofan í menn hvað flutningsstyrkur þýðir við þessar aðstæður. Það er bein aðför að byggð í landinu og fyrst og fremst til þess að efla borgríkið.

Félagsmálaráðherrann má taka eftir því að konur munu sérstaklega verða fyrir barðinu á þessari þróun. Áformin um flutningsstyrkinn sýna, eins og hagspá Landsbankans lýsir vel, önnur áform en stjórnin vill vera láta. Þau sýna skeytingarleysi og virðingarleysi fyrir fólki, vilja þess, búsetu, tilfinningum og fjölskylduböndum. (Forseti hringir.) Kannski sýna þau fyrst og fremst lítilsvirðingu fyrir Íslendingum sem þjóð.

Athugasemdir