Meirihlutinn féll á einkavæðingunni

Pistlar
Share

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur féll í gær vegna ágreinings um einkavæðingu orkuauðlindarinnar. Áform sjálfstæðismanna í borgarstjórninni og í bæjarstjórn Reykjanesbæjar voru orðin deginum ljósari. Annars vegar ætluðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og höfðu af lítillæti sínu tilkynnt það sem ákvörðun meirihlutans, að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest . Þá yrði það fyrirtæki að fullu í eigu einkaaðila.

Hins vegar sendi Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ frá sér fréttatilkynningu og upplýsti að ætlunin væri að skipta upp Hitaveitu Suðurnesja hf. í tvö hlutafélög. Virkjanir og þá væntanlega virkjunarréttindi í eigu Hitaveitunnar yrðu í öðru hlutafélaginu og það að öllu leyti í eigu Reykjavik Energy Invest, REI.

Þar með voru áformin skýr, virkjanir og tengd réttindi, sem nú eru í eigu Hitaveitu Suðurnesja hf. yrðu einkavædd að fullu.
Ég tók þetta mál upp á Alþingi í gærmorgun og vakti athygli á þessari stöðu málsins. Umræðurnar leiddu það mjög skýrt í ljós að enginn meirihluti er fyrir því á Alþingi að hefja einkavæðingu orkufyrirtækja í eigu hins opinbera . Næsta skref er að setja löggjöf um orkulindirnar og tryggja eignarhald þjóðarinnar á þeim sem nú eru í opinberri eigu og þjóðinni sanngjarnan hlut arðsins af nýtingu allra orkuauðlinda.

Fall meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur þýðir að einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja hf. er væntanlega úr sögunni í bili og gerir það að verkum að ráðrúm gefst á Alþingi til nauðsynlegrar lagasetningar.En þá verður hinn sýnilegi meirihluti líka að vinna sitt verk og láta ekki Sjálfstæðisflokkinn koma í veg fyrir lagasetningu. Einkavæðing orkulindanna getur farið fram að óbreyttum lögum.

Hitt á eftir að koma í ljós hvort gömlu minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur hafi keypt nýjan meirihluti því verði að viðhalda einkavinavæðingunni sem gaus upp í hinum fyrri meirihluta og varð til þess upphaflega að upp úr sauð. Einkavinavæðing getur líka fellt meirihluta.

Athugasemdir