Fallið mikla eftir veginum breiða

Pistlar
Share

Það verður mörgum hált á vegferðinni eftir hinum breiða vegi, sem máltækið segir að liggi til glötunar fremur en aðrir vegir. Síðustu vikur hefur örtröðin verið eftir veginum frá Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hf. til Reykjavík Energy Invest. Málið hefur verið kynnt þjóðinni sem fórnfúst framfarastarf nokkurra valinkunnra sómamanna þjóðinni til heilla. Þeir hafa lagt það á sig að búa til fyrirtæki sem hefur afl til útrásar á erlenda grundu og getur sótt þangað mikinn fjárhagslegan gróða og flutt svo heim til Íslands.

En svo fara að koma aðra upplýsingar og þá birtist smátt og smátt önnur mynd, a.m.k. í bland við glansmyndina sem máluð hefur verið. Menn sem eru ráðnir til þess að vinna í almannaþágu virðast nóta aðstöðu sína til þess að skara eld að eigin köku og útvalinna vina sinna og svo eru orkufyrirtækin íslensku, í almannaeigu, að einhverju marki spilapeningarnir í fjárhættuspilinu. Líklega er ekki allar upplýsingar komnar fram ennþá og ég efa það ekki að rétt er að gefa sér nokkurn tíma til þess að taka saman staðreyndirnar og átta sig á þeim til fullnustu.

En þetta vil ég draga fram að svo stöddu:

1. Ef öll áform ganga eftir verður 48,5% hlutafjár í Hitaveita Suðurnesja hf í eigu fyrirtækis sem er aðeins að 35,5% í Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem að aðrir opinberir aðilar eigi hverfandi hlut til viðbótar. Að auki hefur verið kynnt að til standi að kljúfa fyrirtækið og setja virkjanir HS í sér hlutafélag sem verði að meirihluta til í eigu REI. Ef það gerist ,verða innlendar virkjanir og virkjunarréttindi komin í eigu félags sem að 2/3 hlutum til er í eigu einkaaðila. Er þá ekki búið að einkavæða?

2. Starfshættir stjórnenda og aðalleikenda í öllu þesu spilverki eru algerlega óviðunandi. Einhvers konar sjálfvalin blanda af kjörnum stjórnmálamönnum og stjórnendum makkar um opinberar eignir og stillir fulltrúum almennings í sveitarstjórnum upp við vegg gagnvart gerðum hlut. Lýðræðislegt umboð hefur tekið á sig mynd pólitísks ofbeldis og einkahagsmunir eru í fyrirrúmi.

3. Einkavinavæðingin gýs upp á yfirborðið. Þegar allt er á botninn hvolft þá er ekki annað að sjá en að útrásin snúist um peningalega hagsmuni valinna einstaklinga. Þröngur hópur ræður því að úthluta sér eða sínum jafngildi peningina með því að selja hlutabréf í REI á niðursettu verði. Forstjóri OR flytur sig tímabundið yfir í REI og fær að kaupa hluti fyrir 23 milljónir króna á gengi 1,3 og vilyrði fyrir kaupum á 100 milljónum kr. alls. Hlutir eru boðnir núna á genginu 2,7. Forstjórinn hefur því þegar hagnast um 24.8 mkr.Hann mun hafa hagnast nú þegar um 108 mkr. ef hann kaupir fyrir 100 mkr. Bjarni Ármannsson fær að kaupa fyrir 500 mkr. á þessu niðursetta verði og hefur því grætt um 538 mkr. Svo eru fleiri sem fá að maka krókinn á lága genginu.

Síðan kemur fram það mat formanns borgarráðs að verðmætið muni tvö- til þrefaldast á næstu tveimur árum þegar nýja fyrirtækið verður skráð á markaði. Það er að vísu mat en ekki veruleiki, en ég ætla að þeir sem eru viðloðandi málið hafi fulla trú á þessu mati fyrst þeir eru svo ákafir í að kaupa bréfin á núverandi gengi 2,7. Þá tvöfaldast enn hagnaðurinn hjá þeim sem nefndir eru að framan.

Þá koma svo að einstaklingar sem kippt hefur verið inn á síðustu dögum og fá að hagnast á hlutabréfakaupum. Þá tekur nú steininn úr. Mér finnst að oddvitar meirihlutans í borgarstjórninni hafi misst fótanna á hlaupum sínum eftir veginum breiða. Spurning er: hver verða pólitísk afdrif þeirra?

Athugasemdir