"við rannsókn bárust böndin að erlendum ríkisborgara"

Pistlar
Share

Í dag hafa fjölmiðlar sagt frá því að kona í Vestmannaeyjum hafi kært nauðgun til lögreglunar. Frásögnin hefur verið með sama sniði í þeim flestum, sem dæmi segir á Mbl.is:

"Við rannsókn málsins bárust böndin að erlendum ríkisborgara og var hann handtekinn að kvöldi sama dags af lögreglunni á Selfossi, að beiðni lögreglunnar í Vestmannaeyjum, en maðurinn hafði farið frá Vestmannaeyjum með Herjólfi síðdegis í gær".

Aðrir fjölmiðlar sem hafa verið með sambærilega frásögn af atburðinum eru Vísir.is, fréttastofa Stöðvar 2 og Útvarpið, nánar tiltekið hljóðvarpið. Aðeins fréttastofa Sjónvarps RÚV hafði fréttina öðruvísi á þann veg að ekki var getið um þjóðerni þess sem grunaður er um verknaðinn.

Og það er einmitt atriði í frásögn fjölmiðlanna sem ég hnýt um og vil strax taka fram að ég tel að þeir séu alla jafna ágætlega vandaðir. Hvaða tilgangi þjónar það að tilgreina að hinn grunaði er erlendur ríkisborgari? Nauðgun er glæpur og ber að taka hart á brotamönnum, um það er ekki deilt. En ég átta mig ekki á því hvers vegna það er sérstaklega tilgreint að böndin hafi við rannsókn málsins borist að erlendum ríkisborgara.

Mér er ekki kunnugt um að erlendir ríkisborgarar séu líklegri til nauðgunar en innlendir og sé þess vegna ekki að það upplýsi lesendur nokkuð um málið að meintur brotamaður er erlendur ríkisborgari. Þjóðernið er einfaldlega málinu óviðkomandi og vegna þessarar fréttar er rétt að minna á ákvæðið í stjórnarskrá okkar um bann við hvers konar mismunun eftir þjóðerni.

Með áherslunni á erlent þjóðerni er verið að draga úr alvöru málsins, vitandi eða óafvitandi, og leiða athygli lesandans frá því að Íslendingar eru ekki síður sekir um slíka glæpi. Það liggur sá undirtónn í fréttinni með því að tengja saman nauðgun og útlendinga.
Það minnir dálítið á fréttaflutning sem stundum var við lýði fyrir mörgum árum, þegar var verið að segja frá afbroti á tilgreindum stað, að tekið var fram að viðkomandi væri aðkomumaður.

Slíkur fréttaflutningur er að mínu mati ámælisverður og viðkomandi fréttastofum ekki til sóma og að sama skapi fær Sjónvarpið hrós fyrir að flytja fréttina án þess að hafa nein orð um þjóðerni hins grunaða.

Kannski er það skýring, sem fram kemur á Mbl.is að svona sé sagt frá málinu á Lögregluvefnum. En þá verða fréttamiðlarnir sem taka fréttina upp að vinna málið sjálfstætt og lagfæra auðljósa fingurbrjóta. Þeir verða að bera ábyrgð á fréttinni. Hins vegar er hlutur Lögregluvefjarins afleitur og lítt til sóma,

nema fram komi staðfestar upplýsingar sem sýna að erlendir ríkisborgarar séu hættulegri en innlendir að þessu leyti. Mér er ekki kunnugt um að slíkt sé tilfellið og svona í ljósi síðustu atburða er ekki annað að sjá en að Íslendingar séu engir eftirbátar annarra þjóða í stórvægilegum afbrotum, því miður.

Athugasemdir