Aukið forræði efnahagsmála heim í hérað

Pistlar
Share

Nýlega kom út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðastofnunar um hagvöxt á einstökum landshlutum á árunum 1998 – 2005. Hún leiðir í ljós að hagvextinum er mjög misskipt eftir landsvæðum. Á höfuðborgarsvæðinu varð hagvöxturinn 53% en á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum varð hann neikvæður, 3% á Vestfjörðum og 9% á Norðurlandi vestra.

Sláandi er að utan höfuðborgarsvæðisins verður einhver umtalsverður hagvöxtur þar sem áhrifa stóriðjuframkvæmda gætir á þessu 8 ára tímabili, 51% á Austurlandi og 29% á Vesturlandi. Þar fyrir utan er hagvöxturinn aðeins á bilinu 12-19% á Norðurlandi eystra, Suðurnesjum og Suðurlandi. Það er langtum minna en á höfuðborgarsvæðinu og staðfestir að flest landssvæði á landsbyggðinni eru að dragast aftur úr því bæði í atvinnutækifærum og lífskjörum.

Í ljósi þessarar þróunar atvinnumála síðustu 8 árin verður fyrirhugaður samdráttur í þorskveiðum enn alvarlegri en ella. Harður skellur í atvinnumálum fyrir sjávarbyggðir landsins eins og dregið er fram í ýmsum skýrslum. Sú nýjasta er frá sveitarfélögum á Norðurlandi vestra og þar er niðurstaðan að skerðing veiðiheimildanna hafi veruleg og víðtæk áhrif bæði á sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar.

Lokaorð skýrslunnar eru að skerðing veiðiheimildanna muni enn auka á þann svæðisbundna vanda sem Norðurland vestra hefur glímt við búsetuþróun, fækkun íbúa, fábreytni atvinnulífs og neikvæðan hagvöxt.

Þróun atvinnumála ræður stöðu byggðanna. Mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað verða máttlitlar ef ekki eru þar aðgerðir í atvinnumálum. Í ályktunum og umræðum frá þingum sveitarstjórnarmannanna á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum eru ábendingar um stefnubreytingu í sjávarútvegs- og orkumálum sem myndu skipta sköpum ef fram næði að ganga.

Norðlendingar vilja nýta orkuna sem framleidd er í Blönduvirkjun til atvinnuuppbyggingar heima í héraði, en hún er nú seld út af svæðinu. Auðvitað er það eðlilegt að auðlindir séu nýttar á þann hátt að þær verði íbúum svæðisins til gagns á þann hátt að a.m.k. hluti af afrakstri auðlindarinnar og atvinnu sem af nýtingunni leiðir verði þar. Til dæmis er eðlilegt að sú orka sem mun fást úr fyrirhuguðum virkjunum í neðri hluta Þjórsár verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi og að hluti af tekjunum af allri raforkuframleiðslunni í Þjórsá renni heim í hérað.

Svipaðar raddir mátti heyra hjá Vestfirðingunum. Fiskimiðin undan fjórðungnum eru með þeim ríkustu í heiminum. Það sem veitt er árlega á þeim miðum af þorski og öðrum fisktegundum er líklega meira en Færeyingar fá af sínum miðum og geta þó Færeyingar boðið 40 þúsund manns upp á velferðarþjóðfélag sem vantar ekki mikið upp á að sé að fullu sjálfstætt.

Þess vegna þarf ástandið ekki að vera eins og það er fyrir vestan eða norðan. Ef forræði auðlindanna og afraksturinn af nýtingunni er meira í heima í héraði verður líka hagvöxturinn og atvinnuþróunin jákvæð.

Besta mótvægisaðgerðin væri að færa aukið forræði mála heim í hérað og draga úr miðstýringunni. Flóknara er það ekki.

Athugasemdir