Ríkisráðgjöfin

Pistlar
Share

Fyrir nokkrum árum var Þjóðhagsstofnun lögð niður. Rökin voru þau að liðnir væru þeir tímar að ein ríkisstofnun færi með mat á efnahagsástandi og tillögur um aðgerðir til þess að ná settu markmiði ríkisstjórnarinnar. Í stað Þjóðhagsstofnunar kæmu greiningardeildir viðskiptabankanna, hver með sitt mat og greiningu á efnahagslífinu og svo efnahagsskrifstofa Fjármálaráðuneytisins að auki.

Það yrði því úr nógu að velja og álit margra óskyldra aðila hlyti að verða betra en eitt ríkisálit. Svo var því bætt við að efnahagsmál væru jú að sumu leyti matskennd hugvísindi og byggð á ófullkomnum upplýsingum. Það væri ekki til einn algildur sannleikur, heldur mat á veruleikanum byggt á ófullkomnum upplýsingum.
Einmitt við slíkar aðstæður væri algerlega nauðsynlegt að leggja niður ríkisráðgjöfina og byggja þess í stað á áliti og skoðanaskiptum margra aðila. Það væri farsælla til lengri tíma.

Þannig hefur þetta verið síðan. En þegar kemur að sjónum, lífríkinu þar og fiskistofnunum, þá eiga landsmenn ennþá sína Þjóðhagsstofnun, nema hvað þar heitir hún Hafrannsóknarstofnun. Þá er ríkisráðgjöfin enn við líði. Satt að segja er þekking á hafinu og fiskistofnunum ekki nærri eins mikil og á efnahagslífi landsmanna, enda viðfangsefnið miklu flóknara, viðameira og erfiðara að nálgast. Það sést best á því að ríkisstofnunin treystir sér ekki til að spá fyrir um stærð fiskistofna nema eitt ár fram í tímann. Samt láta menn eins og aðeins einn sannleikur sé til um mat á fiskistofnunum.

Áberandi er hversu erfitt vísindamenn utan ríkisstofnunarinnar eiga uppdráttar og lítinn aðgang að fjármagni. Það er beinlínis lagst gegn vísindastarfsemi á þessu sviði sem ekki er innan ríkisstofnunarinnar.
Er ekki kominn tími til þess að stuðla að framförum sem ávallt fylgja starfi margra vísindamanna , áliti þeirra hvers og eins og skoðanaskiptum eða voru það kannski mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma?

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.

Athugasemdir