Aukum kaupmáttinn með lækkun skatta

Pistlar
Share

Íbúaþróun tekur mjög mið af þeim lífskjörum sem fólki stendur til boða. Fólki fjölgaði á landsbyggðinni , einkum í sjávarbyggðunum, þegar það gat aflað sér mikilla tekna og bjó við meiri kaupmátt en til boða stóð á höfuðborgarsvæðinu. Skýrast var þetta á Vestfjörðum, en þar voru atvinnutekjur löngum þær hæstu á landinu og þá fjölgaði fólki jafnt og þétt.

Á þetta er bent í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðastofnunar, sem heitir hagvöxtur landshluta 1998 – 2004. Í skýrslunni kemur fram að fólk hneigist til þess að flytja frá stöðum þar sem tekjur vaxa lítið til þeirra staða þar sem uppgripin eru. Samræmið er nokkuð gott og eu bornar saman upplýsingar um hagvöxt á einstökum svæðum og íbúaþróun þar.

Þar kemur fram að langmest íbúafjölgun hafi verið á höfuðborgarsvæðinu á umræddu 6 ára tímabili eða heil 10% sem er með því allra mesta sem um getur í víðri veröld á aðeins 6 árum. Hagvöxtur á mann á svæðinu var líka alveg með ólíkindum á þessum 6 árum eða 27%. Að sama skapi kemur fram í skýrslunni að fólki fækkaði á landsssvæðum þar sem hagvöxtur var lítill sem enginn. Á Norðurlandi vestra fækkaði fólki um 6% og um 10% á Vestfjörðum á árunum 1998 – 2004.

Hagvöxtur á mann varð líka minnstur á þessum svæðum, enginn á Norðurlandi vestra og 5% á Vestfjörðum, hvort tveggja langt undir vextinum á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum sundur dró í lífskjörum eftir landshlutum, þau bötnuðu mun meira á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu og mest dró í sundur milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands vestra.

Í nærri tvo áratugi hefur verið stöðug þróun á þann veg að atvinnutekjur hafa vaxið meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess og munurinn fer vaxandi með árunum. Nú er svo komið að meðalatvinnutekjur í aðalstarfi er langhæstar á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru um 18% hærri en að meðaltali á landsbyggðinni. Mestur verður munurinn 27% milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands vestra og Suðurlands.

Afleiðingin er í samræmi við ábendingu Hagfræðistofnunar og Byggðastofnunar, fólki fjölgar á höfuðborgarsvæðinu og fækkar víðast hvar á landsbyggðinni. Fækkunin er því meiri sem munurinn á lífskjörunum eða tekjunum er meiri. Þessi þróun mun hald áfram meðan boðið er upp á betri lífskjör á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Verði mikill niðurskurður á þorskveiðum á næstu árum eins og Hafrannsóknarstofnun gerir kröfu um, munu tekjur fjölmargra við sjávarsíðuna lækka verulega og það þýðir aðeins eitt, miklir fólksflutningar frá þeim svæðum til höfuðborgarsvæðisins.

Óbrigðult ráð til þess að breyta þróuninni er að auka kaupmáttinn sérstaklega þar sem hann er lægstur og minnka þannig muninn á lífskjörum eftir svæðum. Það er hægt að gera með því að hækka launin eða fjölga störfum sem gefa af sér hærri laun. Þriðja leiðin sem hægt er að fara og sú skjótvirkasta er að auka kaupmáttinn í gegnum skattkerfið, t.d. með lækkun tekjuskatts. Nú þarf að bregðast skjótt við og Þess vegna legg ég til skattalækkunarleiðina strax.

Það er þekkt leið að hafa breytilegan skatt eftir lögheimilum. Álagningarhlutfall útsvars og fasteignaskatta er ákvarðað eftir sveitarfélögum og er mismunandi milli þeirra. Engu máli skiptir hvar teknanna er aflað, lögheimilið ræður því hver útsvarsprósentan er. Sama getur auðvitað átt við um tekjuskatt. Minna má á að sveitarstjórnarmenn, sérstaklega Sjálfstæðismenn í Reykjavík, hafa löngum lagt áherslu á að hafa skatta lægri en í nágrannabyggðunum, einmitt til þess að laða til sín fólk til búsetu.

Niðurstaðan er þessi: Það er hægt að hafa áhrif á búsetuval fólks með lækkun skatta og það hefur verið gert á sveitarstjórnarstiginu. Ríkisvaldið á að gera slíkt hið sama, sérstaklega við núverandi aðstæður.

Athugasemdir