"Þá var kátt í bönkunum"

Pistlar
Share

Þetta er yfirskrift á pistli sem alþingismaðurinn og stjórnarandstæðingurinn Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði á heimasíðu sína fyrir rúmu ári síðan, 29. júní 2006. Tilefnið voru aðgerðir þáverandi ríkisstjórnar til þess að slá á verðbólguna. Liður í þeim aðgerðum var að lækka hámarkslán Íbúðalánsjóðs úr 90% í 80% af kaupverði íbúðar og einnig lækkun hámarksláns um 1 milljón króna niður í 17 mkr. Lánin voru svo hækkuð aftur til fyrra horfs skömmu fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Nú í dag ákvað ríkisstjórnin að lækka aftur lán Íbúðalánsjóðs í 80%, en hámarks fjárhæð hvers láns verður áfram 18 mkr. Félagsmálaráðherrann sem undirritar reglugerðina og segir nauðsynlegt að lækka lánshlutfallið til þess að slá á verðbólguna heitir Jóhanna Sigurðardóttir.

Til þess að gera grein fyrir því hvernig Jóhanna Sigurðardóttir leit á þessar aðgerðir í fyrra skal vitnað í pistil hennar, sem getið var um að ofan.

Hann hefst á þessari málsgrein:

"Linnulaus áróður bankanna s.l. 2-3 ár, gegn Íbúðarlánasjóði er að bera árangur. Það staðfesta svokallaðar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það er reyndar með ólíkindum að ríkisstjórnin telji það mikilvægt til að slá á verðbólguna að lækka lánshlutfall úr 90% í 80% og lækka hámarkslánin um 1 milljón. Bankarnir eru þeir einu sem græða á þessari aðgerð, enda trúi ég því að bankastjórar og eigendur bankanna hafi opnað kampavínsflösku og tekið bakföll af hlátri yfir því hvernig þeir eru búnir að plata stjórnvöld og hafa að fíflum. Púkanum á fjósbitanum er skemmt. Áfanga á leið þeirra til að koma Íbúðarlánasjóði fyrir kattarnef er náð. Það grátlega er að þessi aðgerð mun bitna harðast á tekjulágu fólki, fyrstu íbúðarkaupendum sem eru að kaupa ódýrasta húsnæðið, svo og íbúðarkaupendum á landsbyggðinni þar sem húsnæðisverð er lægra og 90% lánin nýtast vel".

Þetta er líka í pistlinum:
"Furðurleg er því sú þráhyggja margra stjórnmálamanna og hagspekinga að benda sífellt á lánveitingar Íbúðalánasjóðs sem helsta verðbólguhvatann þegar blóraböggullullinn er fyrst og fremst bankarnir og eyðslulán þeirra, svo og aðgerðarleysi sjálfrar ríkisstjórnarinnar við stjórn efnahagsmála".

Pistillinn endar á þessum orðum:
" Þessi aðgerð er því illa ígrunduð og mun ekki hafa tilætluð áhrif til að slá á verðbólguna, en aftur á móti bitna harðast á þeim sem síst skyldi. Sú spurning er æpandi hvers vegna ríkisstjórnin og Seðlabanki beina ekki spjótum sínum í meira mæli að bönkunum í stað þess að leggja Íbúðalánasjóð sífellt í einelti".

Nú er spurningin : hvað hefur breyst síðan í fyrra?

Athugasemdir