Á toppinn

Pistlar
Share

Það er ekki ónýtt fyrir stjórnmálamann að komast á toppinn. Mér tókst það í gær, að vísu ekki á þann hátt sem stefnt er að, heldur varð ég fyrir því að bíllinn valt á Steingrímsfjarðarheiðinni. Krapi og vatnsagi á veginum varð til þess að hjólin misstu gripið og enga stjórn var hægt að hafa á bílnum. Hann rásaði og fór út af, stakk framendanum niður stjórnborðsmegin ,valt á toppinn og stöðvaðist þannig eftir stutt rennsli. Áður en ég vissi af sneri ég öfugt og hékk í bílbeltinu, án þess að fá á mig eina einustu skrámu. Vel gekk að losna og komast út.

Lítið annað var að gera en að tína saman sitt hafurtask út úr bílnum og bíða hjálpar. Fljótlega kom sjómaður sem var á leið til Þingeyrar og hann brást vel við, hringdi á aðstoð og beið með mér eftir lögreglunni. Eftir um hálftima bið komu slysavarnasveitarmenn undir forystu Hilmars Snorrasonar á leið til Reykjavíkur og biðu mér far suður sem ég þáði. Hannes Leifsson, lögreglumaður á Hólmavík tók að sér að sjá um bílinn og koma honum til byggða.

Ég vil þakka þessum mönnum öllum fyrir hjálpsemi og greiðvikni sem þeir sýndu. Margir hafa glatt mig með því að hafa samband í dag og ég get ekki stillt mig um að nefna sveitunga minn Einar K. Guðfinnsson. Þar hringdi maður með reynslu. En líklega er best að enda þessa frásögn með því að segja allt er gott sem endar vel.

En áfram verður stefnt á toppinn í stjórnmálunum og miðað við að toppa þar 12. maí.

Athugasemdir