Lægri laun og stéttaskipting? 14. apríl 2007

Greinar
Share

Íslenska hagkerfið hefur vaxið síðustu ár í risaskrefum sem eiga ekki sinn líka í hinum vestræna heimi. Þetta hefur aðeins verið hægt með því að sækja til útlanda vinnuafl til að manna störfin sem hafa orðið til. Til landsins hafa komið um 20 þúsund manns síðustu tvö ár, aðallega frá nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins í Austur Evrópu. Eðlilega er spurt: hvaða áhrif hefur þetta á launaþróun á innlendum vinnumarkaði og hvað gerist þegar harðnar á dalnum og störfum fækkar? Er nærtækt að benda á nýja efnahagsspá Seðlabankans, þar sem fram kemur að á næstu árum muni 6000 manns missa vinnuna.

Í því samhengi er líka rétt að minna á að útlendingar sem hingað koma í þenslunni eru ekki bara vinnuafl sem við Íslendingar höfum við hendina þegar okkur hentar, heldur eru þeir fyrst og fremst fólk sem eiga sín réttindi eins og við hin. Þótt búast megi við að margir fari aftur úr landi þegar um hægist verða þeir örugglega líka fjölmargir sem munu kjósa að setjast hér að og leita eftir vinnu í samkeppni við þá sem fyrir eru. Að þessu þarf að hyggja strax.

Við mat á hugsanlegum áhrifum skiptir verulegu máli umfangið á innflutningnum. Til samanburðar vil ég nefna Bretland. Þangað hafa komið um 500 þúsund manns frá nýju ESB ríkjunum síðan vinnumarkaður þeirra opnaðist 2004. Það jafngildir því að til Íslands hefðu komið um 2500 manns en ekki 20.000. Á tveimur árum hafa komið að höfðatölu til 8 sinnum fleiri erlendir verkamenn en komu til Bretlands á þremur árum og er þá miðað við frá nýju ESB löndunum. Umfangið hér á landi sem átta sinnum meira.

Guardian greinir frá því í vefútgáfu sinni föstudaginn 30. mars að áhrifin af hinum mikla innflutningi vinnuafls frá löndunum 10 til Bretlands séu hugsanlega farin að þrýsta niður launum láglaunafólksins og stuðla að auknu atvinnuleysi ófaglærðra verkamanna. Greinir blaðið frá því að Tony Blair, forsætisráðherra, hafi verið greint frá þessum áhyggjum. Nefndur er sérstaklega Turner lávarður, sem var formaður svonefndar láglaunanefndar og að hann hafi sagt Blair frá því að nýjustu gögn gæfu þetta til kynna. Óttast er að af þessu leiði að erfiðlega muni ganga að hækka lágmarkslaunin, sem eru lögbundin í Bretlandi, en launamunur fer vaxandi í landinu. Rétt er að taka fram að ennþá hafa opinberir efnahagsaðilar ekki staðfest sambandið milli lækkandi launa og innflytjenda frá Austur Evrópu, en engu að síður hafa hátt settir menn það miklar áhyggjur af málinu út frá þeim gögnum sem fyrir liggja að forsætisráðherranum hefur verið formlega gert viðvart.

Í ljósi þess að umfangið hér á landi er átta sinnum meira er líklegt að vandinn verði að sama skapi meiri og að það muni koma fram mjög fljótt, sérstaklega ef efnahagsspá Seðlabankans reynist á rökum reyst og að störfum fækki um 6000 á skömmum tíma. Þessar aðstæður eru líklegar til þess að stuðla að lækkandi launum og þá helst hjá ófaglærðum, ef ályktað er út frá fyrirliggjandi upplýsingum frá Bretlandi.

Í skýrslu Þóru Helgadóttur, hagfræðings hjá Kaupþingi, sem birt var í janúar sl., kemur fram að erlent vinnuafl í Bretlandi og Svíþjóð þiggi lægri laun en innlent og að vísbendingar megi greina í þá veru að það sama sé að gerast hér á landi. Bendir hún m.a. á að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi launakostnaður lækkað í byggingariðnaði og mannvirkjagerð öfugt við þróunina í öðrum geirum atvinnulífsins.

Þetta séu einmitt þau störf sem erlent vinnuafl hafi að mestu fyllt. Þessi ábending Þóru vekur upp þá spurningu hvort íslenska þjóðfélagið sé að verða stéttskipt að því leyti að erlent vinnuafl sinni illa launuðum störfum og fái jafnvel lægri laun en íslenskir starfsmenn fyrir vinnu sína. Mun sú þróun halda áfram á næstu árum og andstæður skerpast, sérstaklega í versnandi efnahagsástandi?

Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að taka málefni erlendra starfsmanna til alvarlegrar umfjöllunar og athuga hvert stefnir að óbreyttu. Það er engum til góðs að koma í veg fyrir umræðuna með stóryrðum.

greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 14. apríl 2007.

Athugasemdir