Þjóðin víkur fyrir LÍÚ

Pistlar
Share

Formenn stjórnarflokkanna freista þess á lokadögum Alþingis að ná fram umdeildum breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Þess finnast vart dæmi síðustu hálfa öldina að tveir stjórnmálaflokkar reyni að breyta stjórnarskránni eftir eigin höfði og án samráðs og samkomulags við aðra stjórnmálaflokka. Ég veit aðeins um eitt dæmi þess að forsætisráðherra hafi flutt frumvarp til stjórnskipunarlaga í nafni ríkisstjórnar. Það var fyrir 12 árum, en þá var málið aðeins lagt fram til kynningar og var ekki tekið til umræðu í þinginu.

Þá eins og nú var tilefnið það sama, að kveða á um að auðlindir hafsins væru sameign þjóðarinnar. En þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur frumvarpanna tveggja sé sá sami, þá eru þau mjög ólík þegar að er gáð, bæði texti frumvarpsins og greinargerðin sem því fylgir. Það er mjög fróðlegt að draga fram muninn á málunum tveimur, vegna þess að það varpar ljósi á róttækar breytingar sem hafa orðið á afstöðu ríkisstjórnarinnar á þessum 12 árum. Fyrri ríkisstjórnin var samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og sat frá 1991 til 1995 og þá tók við núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem situr enn.

Í fyrra frumvarpinu er kveðið skýrt á um að nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til séu sameign þjóðarinnar og rökstuðningurinn er alveg ótvíræður. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að varðveita fullt forræði Íslendinga yfir auðlindinni og tekið fram að þrátt fyrir aflamarkskerfi hafi orðið fyrir valinu hafi aldrei staðið til að óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði einstakra aðila yfir auðlindinni myndaðist á grundvelli einkaeignarréttar. Forræði þjóðarinnar er í fyrirrúmi, en ekki eignarréttur útvegsmanna.

Öðru máli gegnir um frumvarpið sem nú er til meðferðar á Alþingi. Þar er orðalag frumvarpstexta frekar til þess fallið að draga úr forræði þjóðarinnar en þeim mun meiri áhersla lögð á eignarréttindi. Mat margra þeirra sem hafa verið beðnir um að gefa álit sitt á frumvarpinu er á þann veg að það muni styrkja eignarrétt útgerðarmanna að veiðiheimilunum og veikja ákvæði í gildandi lögum um stjórn fiskveiða, sem segir að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki óafturkallanlegt forræði viðkomandi yfir þeim.

Í greinargerð frumvarpsins er einmitt lögð sérstök áhersla á stöðu útvegsmanna og að ekki standi til að hagga við eignar- eða afnotarétti þeirra. Því til viðbótar fullyrðir forsætisráðherra í framsögu fyrir málinu að þegar í dag séu verulegar takmarkanir á möguleikum Alþingis til þess að breyta kerfinu. Með því er ráðherrann að leggja sitt af mörkum til þess að draga úr möguleikum á breytingum. Þá hefur því verið haldið fram, m.a. af öðrum ráðherra, að eignarrétturinn að veiðiheimildunum sé að óbreyttum lögum smám saman að færast til útvegsmanna og muni að lokum leiða til þess að þeir eignist réttindin.

Þetta er mjög alvarlegur málflutningur af hálfu ráðherra, þar sem það er þeirra hlutverk, öðrum fremur, að túlka og framkvæma lögin,en lýsir kannski vel þeirri breytingu sem er á frumvörpunum tveimur. Fyrir 12 árum var áherslan á forræði þjóðarinnar, en nú er hún á forræði útvegsmanna. Þá voru almannahagsmunir í fyrirrúmi, en nú eru það sérhagsmunir. Pólitísku áherslurnar hafa greinilega breyst. Þjóðin hefur vikið fyrir LÍÚ.

Greinin birtist í Blaðinu í dag.

Athugasemdir