Það sem almenningur er að hugsa

Greinar
Share

Síðastliðinn föstudag er athyglisvert viðtal við Hildi Dungal, forstjóra Útlendingastofnunar í Viðskiptablaðinu. Ég vil hvetja lesendur til þess að ná sér í blaðið og lesa viðtalið. Fyrirsögn viðtalsins er : Ásakanir um rasisma gera illt verra. Hildur fer yfir viðfangsefni stofnunarinnar og lýsir skoðunum sínum á málefnum útlendinga.

Hún telur að gera verði stofnunina miðlæga innan stjórnsýslunnar þannig að allt er varðar umsóknir frá útlendingum og afgreiðslu þeirra fari gegnum hana. Í dag eru margar stofnanir sem koma að málum, eins og skatturinn, þjóðskrá og fleiri sem getur leitt til þess að útlendingar geta fundið leið til þess að virka í samfélaginu án þess að hafa fullgilt dvalarleyfi.

Fram kemur í viðtalinu nokkuð sem ekki hefur farið hátt í umræðunni að undanförnu, að nokkur hundruð flóttamenn hafa sótt um dvalarleyfi síðustu ár, en enginn fengið. Þetta þarf að upplýsa betur og skýra hver er stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu og réttindum flóttamanna og hvers vegna enginn hefur fengið dvalarleyfi.

Ég er hissa á því að engin þeirra, sem hefur blandað sér í umræðuna síðustu vikur og keppst við að úthrópa Frjálslynda flokkinn eða einstaka talsmenn hans sem rasista eða setja fyrirvara við stefnu flokksins, skuli hafa tekið upp hanskann fyrir flóttamenn og talað fyrir því að Íslendingar taki þátt í þeim eðlilegum skyldum alþjóðasamfélagsins að taka við flóttamönnum og skapa þeim lífvænlega framtíð. Það er ekki stórmannlegt hjá einni allra ríkustu þjóð veraldar að smokra sér undan ábyrgð, ef það er raunin.

Er það virkilega svo að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að koma sér undan því að leggja flóttamönnum heimsins lið og ætla öðrum þjóðum að axla alla ábyrgðina af velferð þeirra ? Og er samstaða um þá stefnu í íslenskum stjórnmálum? Kannski þarf Frjálslyndi flokkurinn að vekja athygli á málefnum flóttamanna.

Sérstaklega vil ég benda á svör Hildar Dungal við spurningunni um það hvað henni finnist um umræðuna um innflytjendamál og þann farveg sem Frjálslyndi flokkurinn beindi henni í á síðasta ári. Hildur svarar orðrétt: "Margt af því sem Frjálslyndi flokkurinn hefur sagt er bara það sem almenningur er að hugsa. Ég er alltaf frekar á móti því að þegar fólk lýsir skoðunum sínum á þessum málum að því sé mætt með því að stimpla þær rasisma eða fordóma. Þá er verið að ýta umræðunni undir yfirborðið. Fullt af fólki er sammála þessu. Ef þú stimplar allt það fólk sem rasista eða sem fordómafulla þá klárast aldrei umræðan. Oft er hægt að mæta þessum með góðum rökum sem eru oftast heppilegri en notkun svona stimpla. Eða að það sé sannleikskorn í því sem haldið er fram og þá verður það ekki leyst með því að kalla það fordóma."

Þessi skynsamlegu orð ættu menn að hafa til umhugsunar og vonandi fara ekki ónefndir þingmenn Framsóknarflokksins að saka Hildi Dungal um það að daðra við rasisma.

Athugasemdir