Arnkötludal frestað en ný verkefni sett af stað

Pistlar
Share

Einkennileg röðun brýnna vegaframkvæmda birtist í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt til að fresta framkvæmdum við vegabætur á Vestfjörðum og Norðausturhorni landsins, annars vegar nýjum vegi um Arnkötludal og Tröllatunguheiði milli Strandasýslu og Reykhólasveitar og hins vegar nýjum vegi um svonefnda Hófaskarðsleið á Melrakkasléttu. Fjárveitingar samtals 500 mkr. eru færðar til um ár, frá 2007 til 2008, 200 mkr. af Arnkötludal og 300 mkr. af Hófaskarðsleið. Í báðum tilvikum seinkar framkvæmdum, ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Og í báðum tilvikum er um að nauðsynlegar vegabætur á landssvæðum þar sem byggð stendur höllum fæti.

Útboð átti að fara fram á þessu ári á framkvæmdum við Arnkötludal og framkvæmdum að ljúka á árinu 2008. Í sumar ákvað ríkisstjórnin að stöðva útboðið um ótiltekinn tíma og ekki er stefnt að því á árinu og líklega ekki fyrr en í febrúar –mars á næsta ári. Líklegt er að upphaf framkvæmda tefjist um a.m.k. hálft ár og teflir áformuðum verklokum í verulega tvísýnu. Það er til dæmis ekki víst að búið verða að gera bindandi verksamninga fyrir Alþingiskosningarnar að vori og hver veit hvað ný ríkisstjórn muni gera eftir kosningar. Nýleg reynsla er a.m.k. sú að framkvæmdum var snarlega frestað eftir kosningar þrátt fyrir samþykkt á Alþingi aðeins tveimur mánuðum fyrir þær.

Það má vissulega skilja það að dregið sé úr framkvæmdum í þensluástandi eins og var í sumar, en þessi frestun sem nú er lögð til verður ekki rökstudd með þeim rökum. Af þeirri einföldu ástæðu að hefja á nýjar framkvæmdir við verk á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi á næsta ári fyrir samtals 1 milljarð króna. Tvisvar sinnum hærri fjárhæð en verið er að fresta fyrir vestan og norðan.

Að auki er lagt til að verja 1.000 mkr. meira á þessu ári í nýsmíði á varðskipi og í uppbyggingu fjarskiptakerfisins en áður hafði verið ákveðið en dregið úr fjárveitingun að sama skapi á næsta ári. Þessi tilfærsla er athyglisverð þar sem gert er ráð fyrir að hagvöxtur dragist verulega saman á næsta ári en þensla einkennir þetta ár og frekar hefði mátt búast við tillögum um hið gagnstæða.Frestunin á Arnkötludal og Hófaskarðsleið verður ekki rökstudd með tilvísun í efnahagsástandið heldur virðist ástæðan fremur vera sú að skapa svigrúm fyrir nýjar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

Jafnvel þótt unnið yrði á næsta ári fyrir lægri upphæðir en lög verja til þessarra tveggja vega þá er engin ástæða til þess að breyta lögunum og færa fjárhæðir til. Ónotuð fjárveiting færist einfaldlega milli ára og verður til ráðstöfunar eins og ekkert hafi í skorist. Ríkisstjórnin sjálf hefur oft á undanförnum árum sótt um fjárveitingar að hausti til í fjáraukalögum þrátt fyrir að meginþungi útgjaldanna falli ekki til fyrr en árið eftir.

Ríkisstjórnin hefur sem sé oft frekað viljað hafa fjárveitingar í fjárlögum og aukafjárlögum fyrr en seinna. Spurningin sem vaknar er því sú: hvers vegna vill hún nú snúa blaðinu við og lækka fjárveitingar næsta árs til þessarra tveggja framkvæmda? Sú staðreynd að aflað er fjárheimilda fyrir nýjum framkvæmdum á sama tíma vekur tortryggni og efasemdir um að til standi að ráðast í framkvæmdirnar. Þetta ráðslag er óskynsamlegt og svigrúmið til framkvæmda á að nota til þess að vinna þau verk sem hafa áður verið ákveðin.

Athugasemdir