Áfram hægri Framsókn

Pistlar
Share

Þá er loksins lokið umfangsmiklu prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Það tók heilar 8 vikur í framkvæmd og félagsmönnum fjölgaði um 500 eða fjórðung í aðdraganda þess. Alls voru það 2.522 manns sem fengu send kjörgögn og það er allnokkuð þegar litið er til þess að í síðustu Alþingiskosningum fékk flokkurinn liðlega 4000 atkvæði. Tveir þriðju hlutar flokksmanna nýttu sér atkvæðisréttinn og sönnuðu þar með að það var rétt ákvörðun að viðhafa prófkjör. Um 1200 fleiri tóku þátt í prófkjörinu en hefðu komið að tvöföldu kjördæmisþingi.

Ég vil færa öllum þeim mínar bestu þakkir sem lögðu mér lið í kosningunum, þeir voru ófáir og þótt ekki hafði náðst sett markmið varð árangurinn engu að síður mjög góður. Þessi hópur er bæði öflugur og þrautseigur og er gott að eiga hann að. Liðlega 40% atkvæða í 1. sætið er gott hvernig sem á það er litið. Ég heyrði í dag í Silfri Egils að Gísli Marteinn Baldursson var að gera lítið úr þessum árangri, en það má rifja upp að hann fékk rúm 44% atkvæða í 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir ári síðan, þar sem hann tapaði fyrir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt Gísla Martein halda því fram að árangur hans hafi verið slakur.

Þau eru ófá prófkjörin sem hafa unnist að undanförnu á lægra atkvæðahlutfalli en 40% og til viðbótar má nefna að ég fékk um 200 fleiri atkvæði í fyrsta sætið en sigurvegarinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í kjördæminu fyrir skömmu þar sem þátttakan var sú sama eða um 1700 manns. Menn skyldu varast að gera lítið úr þeim pólitíska styrk sem þessi niðurstaða gefur. Hún þýðir að mikill stuðningur er við mín sjónarmið innan Framsóknarflokksins og reyndar ekki mikið minni en við þau sem urðu ofan á í prófkjörinu.

Í prófkjörinu var fyrst og fremst tekist á um pólitískar áherslur. Línur voru skýrar og niðurstaðan sömuleiðis skýr. Annars vegar áframhaldandi stefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili, sem leitt hefur til verstu úrslita fyrir Framsóknarflokkinn í sveitarstjórnarkosningum í 90 ára sögu flokksins og sömuleiðis minnsta fylgis við hann undanfarin tvö ár í skoðanakönnunum sem mælst hefur. Hins vegar hefðbundnar áherslur um manngildi ofar auðgildi með hófsamari stefnu í einkavæðingu og markaðsvæðingu en verið hefur, meiri áherslum á umhverfismál, atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni utan stóriðjusvæða, kjör og tekjujöfnun í þjóðfélaginu.

Annars vegar var kosið um stefnu sem leiðir til áframhaldandi stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, ef ríkisstjórnin heldur velli í komandi alþingiskosningum, hins vegar áherslur sem kalla eftir breyttri stjórnarstefnu með manngildið ofan auðgildi.
Niðurstaðan er skýr að því leyti að kosin er óbreytt vegferð flokksins og þeir sem dyggilega hafa fylgt henni eru valdir í möguleg þingsæti. Það er valin áfram hægri Framsókn. Það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að hlíta niðurstöðunni. Hinir sem fylgja sjónarmiðunum, sem ég hef talað fyrir innan flokksins, hljóta að virða úrslitin en líkast til halda sér til hlés.

Það er áhugavert að skoða frekar úrslitin og rýna í tölurnar. Það er sláandi að þriðjungur félagsmanna tekur ekki þátt í prófkjörinu. Spurningin er hver eru skilaboðin sem þessi hópur er að senda flokknum. Mér sýnist það nokkuð augljóst. Þessir félagsmenn vildu ekki kjósa. Þeir voru ýmist áhugalitlir um flokkinn eða beinlínis andsnúnir honum og kærðu sig ekkert um að hafa afskipti af vali á frambjóðendum. Skilaboðin eru mikið áhyggjuefni fyrir forystu flokksins. Ég varð töluvert var við þennan hóp, fékk þau svör að menn gætu hugsað sér að styðja mig, en ætluðu ekki að taka þátt í prófkjörinu vegna þess að þeir væru mjög óánægðir með flokkinn og búnir að gefa frá sér að styðja hann.

Annað er líka umhugsunarvert. Ef gert er ráð fyrir að allir þeir 500 sem gengu í flokkinn fyrir prófkjörið hafi kosið, þá hafa einungis um 1150 þeirra 2000 sem voru fyrir á félagaskrá kosið í prófkjörinu eða um 57%. Ríflega 42% flokksmannanna eða 850 manns kaus ekki miðað við þessa forsendu. Það er ekki hægt að lesa mikla traustyfirlýsingu við flokkinn úr svo dræmri þátttöku.

Það er líka fróðlegt að reyna að rýna í afstöðu þessa hóps, flokksmannanna 2000. Ef gert er ráð fyrir að atkvæði þeirra 500, sem gengu í flokkinn fyrir prófkjörið, hafi skipst jafnt milli þeirra sem kepptu að 1. sætinu og að sama hlutfall hafi kosið aðra frambjóðendur eða gert ógilt og var í heild, fæst að stærsti hópurinn er sá sem ekki kaus, um 850 manns. Efsti maður fær aðeins um 650 atkvæði af þessum 2000 eða ríflega 30%. Spyrja má hversu víðtækt pólitískt umboð þessi stuðningur gefur.

Staðreyndin, sem við búum við, er að flokkurinn stendur ákaflega illa og er með frá 6 – 8% fylgi í síðustu könnunum. Hann fékk innan við 12% fylgi á landsvísu í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor og þær kosningar gefa yfirleitt góða vísbendingu um það sem koma skal í Alþingiskosningunum á eftir.

Það er hverju orði sannara að við þurfum sterkari Framsókn eins og ég talaði fyrir í prófkjörsbaráttunni, en mér er til efs að það verði með því að stefna að áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn fjórða kjörtímabilið í röð. Einkavæðing Landsvirkjunar og sala RÚV eru ekki líkleg til þess að færa Framsóknarflokknum að nýju traust fyrri kjósenda sinna.

Athugasemdir