Samgöngur og atvinna eru stóru málin

Pistlar
Share

Í vikunni hafa þingmenn Norðvesturkjördæmis farið um kjördæmið og hitt sveitarstjórnarmenn að máli. Í þinginu er svonefnd kjördæmavika og engir þingfundir en ætlast er til þess að þingmenn verji tímanum í kjördæmi sínu. Þingmannahópurinn hélt þrjá fundi með sveitarstjórnarmönnunum, einn í hverju hinna gömlu kjördæma, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Að auki hef ég haldið fundi bæði með flokksmönnum og opna fundi og verða þeir orðnir fimm talsins þegar kjördæmavikan verður á enda.

Allir eru fundirnir gagnlegir fyrir þingmenn og gefa gott yfirlit yfir þau mál sem helst brenna á kjósendum. Segja má að stóru drættirnir í áherslunum séu samgöngumál í víðum skilningu og atvinnumál. Þessi mál ber hæst nánast á hverjum fundi. Vissulega eru önnur mál nefnd eins og slæleg frammistaða ríkisins í fjárveitingum til eyðingar á ref og mink og síðan staðbundin viðfangsefni.

Það vakti athygli mína að heilbrigðismál og öldrunarþjónusta voru sjaldan tekin upp og er það líklega til marks um það að heilbrigðisþjónustan er almennt góð í kjördæminu. Vissulega eru hér og hvar takmarkaðar fjárveitingar til reksturs stofnananna og þau mál eru til umfjöllunar í fjárlaganefnd, en miðað við þessa fundi ríkir nokkuð góður friður um heilbrigðismálin.

Samgöngumálin voru hvað mest rætt og gagnrýnd. Skortur á gsm sambandi er víða og netsamböndum er ábótavant, auk þess að kröfur vaxa hratt til getu netsins til gagnflutninga bæði hvað varðar magn og hraða. Í fjarskiptamálunum eru stjórnvöld greinilega langt á eftir óskum og þörfum íbúanna.

Þá eru vegamálin ekki síður ofarlega á baugi. Það fer ekki á milli mála að fjárveitingar til þeirra hafa ekki vaxið í takt við auknar kröfur vegfarenda til veganna og umferðaraukninguna. Þetta á ekki bara við um landsbyggðina heldur er mikill þungi á höfuðborgarsvæðinu fyrir ýmiss konar nýjum umferðarmannvirkjum.Framlög til stofnvega og jarðganga þurfa augljóslega að aukast umtalsvert til þess að mæta þess kröfum.

Þá er umferð vaxandi um tengivegi landsins m.a. vegna breyttrar búsetu og atvinnusóknar. Fólk í sveitum býr gjarnan áfram á jörð sinni en sækir vinnu í næsta þéttbýli og þá eru æ fleiri íbúðar höfuðborgarsvæðinsins sem eiga tvö heimili, annað í höfuðborginni og hitt utan þess í sveit og dvelja þar um helgar. Þetta á svo sem við um fleiri þéttbýli, en þessi breyting kallar á vaxandi umferð um tengivegina. Allt þetta leiðir til þess að verja verður meira fé til uppbyggingar og viðhalds þeirra.

Atvinnumálin eru hitt stóra málið, sérstaklega í Norðvesturkjördæmi þar sem landbúnaður og sjávarútvegur eru helstu atvinnugreinarnar. Í báðum greinunum fækkar störfum frekar en hitt og það veldur samdrætti ef ekki verða til störf í öðrum greinum til mótvægis. Þá er það áhyggjuefni hvað tekjurnar dragast aftur úr meðaltekjum á landsvísu og séstaklega hvað þær eru að verða lágar í samanburði við höfuðborgarsvæðið.

Á Norðurlandi vestra voru meðaltekjur í fyrra um 250 þús. kr. á mánuði en ríflega 350 þúr. kr. á mánuði á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun stuðlar að því að fólk flytji frá svæðunum með lægri launin enda ráða lífskjörin ansi miklu um búsetuval fólks. Ætli það sé ekki ástæða til að skoða þróunina og skipulagið í atvinnugreinunum, sérstaklega í sjávarútvegi þar sem æ stærri hluti heildartekna greinarinnar fara til þess að standa undir skuldum og vöxtum og minna fer til launagreiðslna.

Athugasemdir