sterkari framsókn – hvernig?

Pistlar
Share

Skoðanakannanir eru ekki uppörvandi fyrir okkur framsóknarmenn. Undanfarin tvö ár hefur fylgið farið stöðugt lækkandi og sveitarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor staðfestu í meginatriðum þessa þróun. Þar reyndist fylgið vera tæplega 12% í þeim sveitarfélögum sem flokkurinn bauð fram B lista . Fyrir fjórum árum var fylgið um 23%. Nýjasta Gallup könnum sýnir lægsta fylgi flokksins sem mælst hefur í á þeim bænum frá upphafi eða 8%.

Það er þó gleðiefni, a.m.k. í Norðvesturkjördæmi, að hvergi á landinu helst flokknum betur á fylgi sínu í síðustu Alþingiskosningum en einmitt þar. Framsóknarflokkurinn mælist þar með 16% fylgi, sem er um 75% af kjörfylginu í síðustu Alþingiskosningum. Reyndar er Norðvesturkjördæmið að verða sterkasta kjördæmi flokksins miðað við Gallup og fylgið mælist hvergi hærra um þessar mundir. Ekki verður ráðið af því að hin vestfirska rödd í þingflokki framsóknarmanna sé flokknum til óhagræðis, svo ég leyfi mér í allri hógværð að benda á það.

Það er deginum ljósara að við þurfum sterkari framsókn. Þjóðin þarf sterkari framsókn vegna þess að hófsöm og umbótasinnuð stefna frjálslyndra félagshyggjumanna er skynsamlegasta leiðin og flestum að skapi. Stefnan vinnur að breytingum, sem eru forsenda framfara, en gerir það með almannahagsmuni að leiðarljósi, fer gætilega og tryggir jöfnun lífskjara.

Spurningin er : hvernig? Hvað þarf að gera til þess að snúa stöðunni við og fara að sækja fram? Svörin, sem ég hef fengið á fjölmörgum fundum að undanförnu í kjördæminu og víðar, eru nokkuð samhljóða. Framsóknarflokkurinn þarf að sýna betur áherslur sínar í verki. Sterkari framsókn kemur með skýrari framsóknarstefnu. Stefnan er til og kjörfylgi flokksins undanfarna áratugi staðfestir að hún nýtur mikils fylgis. Aðalatriðið fyrir stjórnmálaflokk er að vera trúr stefnu sinni.

Margt hefur vel til tekist sem framsóknarmenn geta verið stoltir af. Þar má helst nefna atvinnumálin og verðmætaaukninguna í þjóðfélaginu undanfarinn áratug sem hefur bætt almenn lífskjör mikið. En dreifing verðmætanna hefur ekki orðið sem skyldi. Þar hefur hlutur aldraðra og öryrkja ekki batnað í samræmi við almenna þróun. Breytingar á skattheimtu á kjörtímabilinu hafa ekki að öllu leyti endurspeglað áherslur framsóknarmanna. Lækkun skattprósentunnar hefur bætt hag hátekjuhópanna meir en þeirra sem hafa lágar tekjur og lækkun skattleysismarkanna hefur fært skattheimtuna í ríkari mæli yfr í lægri tekjurnar. Hvort tveggja vinnur gegn jöfnuði í þjóðfélaginu.

Forsætisráðherra gat þess í stefnuræðu sinni á Alþingi í byrjun október að "kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings er nú um 60% meiri en hann var 1995" en svo birtast upplýsingar frá samtökum eldri borgara þar sem fram kemur að kaupmáttur ráðstöfunartekna ellilífeyrisþega, sem ekki býr einn, mun aðeins hækka um tæp 19% frá sama tíma fram á næsta ár.

Upplýsingar byggðar á opinberum gögnum sýna að skattbyrði lágtekjufólks, þeirra 20% framteljenda sem hafa lægstu tekjur, hefur vaxið frá 1994 um 14-15% en á sama tíma hefur skattbyrði 10% tekjuhæstu lækkað um rúm 3%. Þessar tölur eiga við um hjón og sambúðarfólk.

Það verður eitt af stærstu verkefnunum á næstunni að jafna lífskjörin og sjá til þess að ávinningurinn af árangursríkri atvinnustefnu skili sér til allra þjóðfélagshópa, þar með talið til elli- og örorkulífeyrisþega. Það er framsóknarstefnan.

Athugasemdir