Var ráðherrann þá vanhæfur og sagði hann ekki satt?

Pistlar
Share

Merkileg blaðaskrif voru í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Á föstudaginn gerði Björn Bjarnason dómsmálaráðaherra athugasemd við grein mína sem birtist daginn áður í blaðinu. Taldi Björn fráleitt af mér að halda því fram í greininni að ráðherrann hefði sent gömul gögn um hlerun á símum nokkurra Íslendinga úr ráðuneytinu til Þjóðskjalasafnsins í því skyni að koma í veg fyrir að upplýst verði hvað er að finna í skjölunum.

Var lýsing Björns á þann veg að hann hefði ekki séð þessi gögn, en þau hefði verið í ráðuneytinu í áratugi og geymd í lokaðri hirslu, sem hefði verið í vörslu ráðuneytisstjórans. Hefði ráðuneytisstjórinn vakið máls á því við ráðherrann að eðlilegt væri að flytja skjölin í Þjóðskjalasafnið, enda væru þau eldri en 30 ára. Að sögn Björns hefði hann ekki gert athugasemd við það.

Daginn eftir, á laugardaginn, birtist í Morgunblaðinu stutt grein frá Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni, þar sem hann gerði athugasemdir við atvikalýsingu dómsmálaráðherrans. Segir Ragnar að ráðherrann fari ekki með rétt mál og rekur bréfaskrifti sín við ráðuneytið. Kemur þar fram að Ragnar skrifaði 22. maí og óskaði eftir að þessum gögnum. Beiðninni var synjað með bréfi ráðuneytisins 31. maí og öðru bréfi Ragnars er svarað á sama veg þann 9. júní. Í þriðja bréfi sínu, þann 30. júní, ítrekaði Ragna enn erindi sitt og fór nú fram á að dómsmálaráðherra viki sæti við meðferð málsins vegna vanhæfis, sem stafa "af tengslum hans við frumkvöðul hlerananna" eins og segir í grein Ragnars.

Þessi bréfi er svarað 25. júlí og er undirritað af embættismanni og Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra og er því ekki annað að ráða af því en að Björn Bjarnason hafi orðið við kröfu lögmannsins um að víkja í málinu vegna vanhæfis. Nú er því borið við að gögnin séu ekki lengur í ráðuneytinu og bent á að hafa samband við Þjóðskjalasafnið. Ragnar upplýsir að gögnin hafi verið flutt úr ráðuneytinu þann 5. júlí og hafi því verið í ráðuneytinu þegar hann fór fram á að fá aðgang að þeim.

Niðurstaða Ragnars Aðalsteinssonar er sú að ráðherrann hafi gripið til þess að ráðs að koma gögnunum undan þegar hann sá að ekki varð lengur neitað Ragnari um aðgang að þeim og að ráðherrann segi ekki satt þegar hann lýsir málavöxtunum í Morgunblaðinu á föstudaginn. Í stuttu máli þá staðfestir Ragnar Aðalsteinsson allt það sem ég sagði í grein minni.

Nú eru liðnir þrír dagar síðan athugasemd Ragnars birtist í Morgunblaðinu og enn þegir dómsmálaráðherrann. Var það þá svo að ráðherrann var vanhæfur í málinu allan tímann ?

Athugasemdir