Hvalveiðar í atvinnuskyni

Pistlar
Share

Í dag voru að nýju leyfðar hvalveiðar í atvinnuskyni, eftir 20 ára hlé. Merk tímamót sem ástæða er til þess að vekja athygli á. Alþingi samþykkti ályktun í marmánuði 1999 um hvalveiðar. Þar var ályktað að hvalveiðar skyldu hefjast hið fyrsta og tekið fram að ályktun Alþingis frá 1983 stæði ekki í vegi fyrir þeim. En í þeirri ályktun samþykkti Alþingi að mótmæla ekki væntanlegu hvalveiðibanni sem samþykkt hafði verið á vettvangi alþjóðahvalveiðiráðsins.

Mér er þetta minnisstætt þar sem ég var þá formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis og tók upp á mína arma að ná samstöðu um að afgreiða þingmannatillögu um hvalveiðar sem Guðjón Guðmundsson og fleiri fluttu. Það tókst og ályktunin var samþykkt með 37 atkvæðum gegn aðeins 7. Þar með var mörkuð stefna Alþingis um að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni og sjávarútvegsráðherra falið að hrinda ályktuninni í framkvæmd þegar hann teldi rétt að láta til skarar skríða.

Að vísu tók það lengri tíma en við bjuggumst við þegar ályktunin var samþykkt en engu að síður hefur verið unnið að undirbúningi og því að vinna stefnunni fylgi á erlendum vettvangi og nú er loks ákvörðunin tekin. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra metur aðstæður svo að rétt sé að byrja núna og heimlar veiðar í atvinnuskyni á hrefnu og langreyði.

Farið er afar varlega og leyft að veiða aðeins 9 langreyði og 30 hrefnur. Þetta eru fá dýr miðað við metið veiðiþol stofnana. Vísindanefndir Alþjóðahvalveiðiráðsins og Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins hafa báðar samþykkt það mat að um 43.600 hrefnur séu á landgrunninu við Ísland og 25.800 langreyðar séu í miðju Norður Atlantshafinu. Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að veiðar úr þessum stofnum og hefur metið að veiðar á 400 hrefnum og 200 langreyðum samrýmist markmiðum um sjálfbæra nýtingu. Upphafsveiðar á langreyðinni nemur aðeins rúmum 4% af mögulegri árlegri veiði af langreyði og um 17% af hrefnunni.

Veiðarnar uppfylla skilyrði ályktunar Alþingis frá 1999 um það að vera á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar og undir eftirliti stjórnvalda. Niðurstaðan er skýr: Sjávarútvegsráðherra hefur skýrt og ótvírætt pólitískt umboð frá Alþingi til þess að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni. Um það þarf ekki að efast.

Athugasemdir