Almenningur greiðir fyrir skort á samkeppni

Pistlar
Share

Í síðustu viku kom út skýrsla um samkeppni í almennri bankaþjónustu á Norðurlöndum. Að skýrslunni standa samkeppnisyfirvöld landanna. Margt er athyglisvert í skýrslunni hvað Ísland varðar, þótt ekki verði sagt að það komi verulega á óvart, en megin niðurstaðan er að skortur er á samkeppni í greininni sem leiðir til þess að neytendur borga meira fyrir þjónustuna en ella væri.

Orðrétt segir í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins: "Frá samkeppnissjónarmiði virðast afkomutölur í greininni benda til þess að bankar gætu boðið neytendum verulega betri kjör og samt skilað hagnaði. Með öðrum orðum gæti aukin samkeppni bankla komið neytendum til góða með betri þjónustu á lægra verði." Þetta undirstrikar Samkeppniseftirlitið með því að benda á að vaxtamunur á Íslandi er meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Þetta eru sömu niðurstöður og er að finna í skýrslu Norræna ráðherraráðsins, sem kom út fyrr á þessu ári og einnig í skýrslu Neytendasamtakanna frá síðasta ári, þar sem borinn var saman húsnæðislánamarkaðurinn á Íslandi og 9 öðrum Evrópulöndum. Raunvextir á Íslandi eru samkvæmt þeirri skýrslu að jafnaði 2 til tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum. Ísland er dýrast um það þarf ekki að efast. Ef við yfirfærum þenna vaxtamun á allar skuldir íslensku heimilanna þá munar frá 20 til 50 milljörðum króna á hverju ári.

Stóra pólitíska verkefnið um þessar mundir er að lækka þennan kostnað almennings. Samkeppniseftirlitið bendir á aðgerðir sem eiga að leiða til aukinnar samkeppni og það verður að taka þær alvarlega. Hitt er athugunarefni, sem bent er á í skýrslunni, að viðskiptavinirnir eru tregir til þess að hreyfa sig milli banka. Það dregur úr virkni markaðarins og vinnur gegn jákvæðum áhrifum samkeppninnar. Þetta atriði virðist þó líka eiga við á Norðurlöndunum svo ekki er trúlegt að það skýri muninn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum.

Þrennt vekur sérstaka athygli þegar skoðað er hvað einkennir íslenska markaðinn frá hinum. Samþjöppun hér á landi er með því mesta sem gerist. Fjórir stærstu bankarnir eru með 93% markaðshlutdeild miðað við heildareign í efnahagsreikningi 2004. Hlutur þeirra óx á 10 árum úr 85% í 93% og var aðeins í Noregi meiri samþjöppun , en þar hafa 4 stærstu bankarnir þó aðeins 71% hlutdeild.

Annað atriðið er að á Íslandi er enginn erlendur banki starfandi, en á hinum Norðurlöndunum er markaðshlutdeild erlendra banka nokkur og allt upp í 30% í Danmörku. Í Svíþjóð eru erlendir bankar með 12% hlutdeild í húsnæðislánum og 14% hlutdeild í viðskiptum fyrirtækja. Erlend samkeppni virðist skipta máli.

Þriðja atriðið sem ég hnýt um er að í öllum löndunum að Íslandi undanskildu eiga opinberir aðilar hlut í einhverjum bönkum. Aðeins á Íslandi hefur bankakerfið verið algerlega einkavætt. Nordea bankinn er með 19% markaðshlutdeild í Danmörku. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins kemur fram að sænska ríkið á 20% í bankanum. Föroya banki er stærstur í Færeyjum með 45% markaðshlutdeild og er algerlega í opinberri eigu. Í Finnlandi hefir fyrrnefndur Nordea 61% markaðshlutdeild og Sampo group 11%, en finnska ríkið á 14% í honum. DnB Nor er stærstur í Noregi með 38% hlutdeild. Norska ríkið á 34% í honum. Hlutdeil Nordea í markaðnum í Noregi er 14% og 16% Í Svíþjóð.

Óhjákvæmilegt er að velta því fyrir sér að hve miklu leyti unnt er að treysta á markaðlögmálin á svo litlum markaði sem er hér á landi. Fjármálastarfsemin er ekki eina svið viðskiptalífsins sem sýnir sterk einkenni fákeppni og jafnvel einokunartilhneygingu. Það má nefna verslun með bensín og olíuvörur, flutningastarfsemi, vátryggingar, fjarskipti og lyfjaverslun svo fátt eitt sé nefnt. Kannski er það óraunhæft að ætla að ætla að reka markaðshagkerfi í 300 þúsund manna þjóðfélagi með sama árangri og er á milljóna manna markaði. Ég held að það sé fyllilega tímabært að meta árangurinn af einkavæðingu undanfarinna ára og leita svara við hvort hún muni skila þeim árangri almenningi til hagsbóta sem að var stefnt.

Einkavæðing og markaðsvæðing er ekki takmark í sjálfu sér heldur verður slík stefna að þjóna almannahag. Ef það gerist ekki hljóta menn að spyrja um tilgang stefnunnar.

Athugasemdir