Valfrelsi flokksmanna verði virt.

Pistlar
Share

Ég hef mikil og jákvæð viðbrögð við síðasta pistli mínum. Það er greinilegt að margir framsóknarmenn í Reykjavík eru þeirrar skoðunar að þeir eigi að fá að velja sér forystu fyrir borgarstjórnarkosningarnar án afskipta forystumanna flokksins og sérstaklega forystumanna utan Reykjavíkur. Meðal þeirra sem hafa haft samband er kona ein í borginni og þakkaði mér fyrir góðan pistil. Hún sagðist vera ánægð með hann "vegna þess að það sem nefnt hefur verið ,,forysta flokksins" á ekkert með að hafa afskipti af því hvernig kjördæmin velja á lista og þaðan af síður hvernig valið er á framboðslista í einstökum sveitarfélögum. Mér finnst aðförin að okkur almennum flokksmönnum vera með eindæmum".

Menn mega ekki gleyma því að forysta hverju sinni á ekki flokk. Það eru félagsmennirnir sem eiga flokkinn. Í Framsóknarflokknum eru 10 þúsund manns. Mikilvægar ákvarðanir flokksins verða að endurspegla vilja þeirra. Val á forystusveit verður að fara fram með þeim hætti að félagsmennirnir hafi aðgang að valinu og séu óþvingaðir við það. Það verður að virða valfrelsi flokksmanna. Þetta gildir bæði við um sveitarstjórnarkosningar og Alþingiskosningar.

Björn Ingi Hrafnsson hefur safnaða saman opinberum stuðningsyfirlýsingum fyrir sínu framboði frá svo mörgum af forystumönnum flokksins í Reykjavík og á landsvísu að úr því verða skýr skilaboð til almennra flokksmanna um það að hann njóti velþóknunar þeirra sem með valdið fara og að hann eigi að kjósa til forystu.

Það er auðvitað ásetningur hans að hafa áhrif á kjósendur í prófkjörinu með þessum hætti. Þess vegna hefur hann safnað saman nákvæmlega þessum nöfnum. Þar með leggur hann minni áherslu á að vinna stuðning með skírskotun til eigin verðleika. Þeir sem vilja styðja annan frambjóðenda hljóta að velta því fyrir sér hvaða afleiðingar það hafi að ganga gegn svo skýrum vilja valdsins.

Þetta finnst mér óeðlilegt og gagnrýni það. Forystumenn í flokknum eiga að halda sér til hlés og gefa flokksmönnunum frið til þess að taka sína ákvörðun.Þeim er vel treystandi til þess að leysa þetta verkefni vel af hendi án sérstakrar leiðsagnar.

Verði þetta viðurkennd og samþykkt vinnubrögð í flokknum munu þau verða viðhöfð áfram við kosningar, t.d. fyrir næstu Alþingiskosningar. Þá mun varaþingmaðurinn í Reykjavík suður,Björn Ingi Hrafnsson, væntanlega leika sama leikinn og á þá að setja Jónínu Bjartmars til hliðar? Eða mun það þykja eðlilegt að hópur forystumanna flokksins úr ýmsum kjördæmum lýsi yfir stuðningi við einn frambjóðanda í þessu kjördæmi, annan í öðru kjördæmi og þann koll af kolli?

Það sér hver maður sem vill sjá að menn eru komnir á algerar villigötur í flokknum hvað varðar afskipti forystumanna flokksins af ákvörðun flokksmanna um frambjóðendur, ef þetta verður svona. Framsóknarkonan í Reykjavík, sem ég vitnaði til í upphafi ,segir allt sem segja þarf. Hún talar um aðför að flokksmönnum. Ég orða það þannig að virða beri valfrelsi flokksmanna. Það eru þeir sem eiga flokkinn.

Athugasemdir