Íbúðalánasjóður: Almenningi til hagsbóta

Pistlar
Share

Ríkið starfrækir Íbúðalánsjóð almenningi til hagsbóta. Á hverju ári leiðir tilvist sjóðsins til þess að almenningur fær milljarðatugi króna í vasann í beinhörðum peningum. Það er mikið í húfi ef kollvarpa á þessu kerfi. Um það er tekist um þessar mundir.
Viðskiptabankarnir vilja Íbúðalánsjóð feigan, þeir vilja yfirtaka að öllu leyti hlutverk sjóðsins.
En hvað þýðir það fyrir almenning, ef orðið verði við viðskiptabankanna. Hvað kostar einkavæðing húsnæðislánanna?
Þessar spurningar eru eðlilegar, vegna þess að einkavæðing á ekki að vera framkvæmd eins og trúarbrögð, heldur aðeins þegar almannahagsmunum er þannig betur borgið.
Það á að einkavæða íbúðalánin ef það leiðir til þess að almenningur fær betri þjónustu og lægri vexti, annars ekki. Það er mín afstaða í málinu.

þjónustan versnar
Fyrst skal skoðað hvort þjónustan muni batna við einkavæðingu húsnæðislána. Það má vera að á góðum markaðssvæðum myndist samkeppni milli bankanna sem leiði til betri þjónustu við viðskiptavinina er þeir fá nú hjá Íbúðalánasjóði. Það er ekki rétt að útiloka það, en mér finnst það ekki líklegt. Bankarnir bjóða nú lægra lánshlutfall en Íbúðalánsjóður bankarnir bjóða 80%, en Íbúðalánasjóður 90%. Tilboð bankanna gildir ekki alls staðar, á völdum svæðum er lánshlutfallið lægra svo sem 60% og til eru byggðarlög á landinu þar sem bankarnir vilja ekki lána til íbúðakaupa. Íbúðalánasjóður lánar alls staðar það sama og öllum sem uppfylla almenn skilyrði. Niðurstaðan verður að þjónustan muni versna hvað lán og lánshlutfall varðar. Þá er ótalið að aðrir þættir sem lúta að uppgreiðslu lána, skuldbreytingu, endurskoðun vaxta og vextina sjálfa eru allir óhagstæðari hjá viðskiptabönkunum.

kostnaður eykst
Kostnaður lántakanda mun aukast við einkavæðingu. Það að ríkið eigi og ábyrgist Íbúðalánasjóð sparar peninga. Af því leiðir að sjóðurinn fær sitt lánsfé á lægri vöxtum en ella, hann þarf ekki að borga skatta og hann þarf ekki að greiða arð til ríkissjóðs. Þennan mun má meta á a.m.k. 1% í útlánsvöxtum. Samt skal áréttað að Íbúðalánasjóður, sem er rekinn með lágmarksvaxtamun skilar hagnaði og hefur eigið fé hans vaxið jafnt og þétt og er nú um 14 milljarðar króna, auk 3 milljarða króna eignar í varasjóði sem er til þess að mæta hugsanlegum áföllum.

einkavæðingin skaðar
Tilvist Íbúðalánsjóðs leiðir að auki til samkeppni við viðskiptabankanna og þeir hafa lækkað vaxtastig sitt af þeim sökum. Ef Íbúðalánasjóður yrði sleginn af myndi vextir á húsnæðislánum hækka samstundis og ég spái því að hækkunin yrði a.m.k. 2%. Sú hækkun myndi síðan ganga yfir vaxtastig á öðrum viðskiptum en húsnæðislánum. Í heildina má áætla að kostnaður almennings af núverandi skuldum sínum myndi hækka um 20 – 30 milljarða króna á hverju ári. Það verður kostnaðurinn af einkavæðingu Íbúðalánsjóðs, fyrir utan lakari þjónustu við stór svæði á landsbyggðinni.

Niðurstaðan: lægri lán, hærri kostnaður og lakari þjónusta. Það er sama niðurstaða og kemur fram í skýrslu Neytendasamtakanna um húsnæðislánamarkaðinn á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum. Nóg finnst mér um gróða viðskiptabankanna á undanförnum árum þótt ekki sé þessu bætt við. Það er óþarfi að láta féfletta íslenskan almenning.
.

Kristinn H. Gunnarsson

pistillinn birtist í Mbl. í dag.

Athugasemdir