Launastefna í ógöngum.

Pistlar
Share

Það er fyllsta ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun launa um þessar mundir. Verðbólgan er verulega umfram 2,5% og þenslan er slík í þjóðfélaginu að ekki má mikið út af bera til þess að verðbólgan rjúki upp úr öllu valdi. Á verðbólgunni tapa flestir, skuldugir launþegar þola hana líklega verst. Launahækkanir hafa mikil áhrif á verðbólguna, ef þær eru umfram það sem innistæða er fyrir. Á þessu ári má ætla að heildarlaunin verði um 600 milljarðar króna, þannig að hvert prósentustig sem laun hækka yfir línuna kostar launagreiðendur um 6 milljarða króna.

Til þess að stuðla að lágum kauphækkunum þessi árin, meðan þenslan er sem mest vegna stóriðjunnar, hafa skattar verið lækkaðir og það kemur launþeganum til góða sem kauphækkun. Það má að vísu deila um það hversu réttlátlega skattalækkuninni er dreift, ég tel að það hefði átt að gera meira til tekjujöfnunar en raun varð, en engu að síður stuðlar skattalækkunin að lægri kauphækkun en ella hefði verið og það leiðir til lægri verðbólgu.

Þetta hefur enn sem komið er gengið þokkalega, en þrennt er að mínu mati að gera ríkisstjórninni erfitt fyrir. Í fyrsta lagi er veruleg óánægja hjá þeim sem einkum sækja tekjur sínar til ríkisins í formi eftirlauna eða bóta. Það endurspeglar vaxandi óánægju með þyngri skattbyrði á lágar tekjur en áður var. Þessu er hægt að bregðast við með tilfærslu milli tekjuhópa gegnum skattheimtu ríkisins frá hátekjuhópum til tekjulægri án þess að setja þrýsting á verðlag.

Í öðru lagi virðast samningar ríkisins vera umfram almenna kjarasamninga, sérstaklega eru samningarnir við BHM nefndir í úrskurði kjaranefndar og að auki hafa afmarkaðir hópar innan embættismannakerfisins sótt sér umframhækkun. Það verður ekki betur séð en að ráðherrar hafi blessað það launaskrið og beri ábyrgð á því. Það leiðir svo til úrskurða Kjaradóms og kjaranefndar um hækkun til handa æðstu embættismönnum ríkisins, svo sem alþingismönnum, ráðherrum og dómurum.

Í þriðja lagi eru svo samningar Reykjavíkurborgar við ófaglærða starfsmenn á leikskólum og reyndar við ýmsa hópa, þar með taldir hluti af hæst launuðu starfsmönnum borgarinnar. Þeir samningar eru líka um kauphækkun umfram almennu kjarasamningana. Þessir samningar leiða af sér nýja kjarabaráttu hjá sömu stéttum í öðrum sveitarfélögum og líka hjá leikskólakennurum, sem sumir hverjir eru orðnir lægra launaðir en ófaglærðir og munu aldrei una slíku og frekar segja upp störfum.

Launaspírallinn verður þá kominn í fullan gang, enda hefur borgarstjórninn í Reykjavík nú þegar viðurkennt að það verði að hækka laun leikskólakennara í kjölfarið á samningunum við ófaglærða og ég sé ekki hvernig skriðan verði stöðvuð þegar hún verður komin af stað.

Að venju hefur verkalýðshreyfingin einblínt á hækkun launa alþingismanna og krafist þess að hún verði tekin aftur. Það er sjálfsagt að taka vel í það, engin ástæða er til þess að launabreytingar þeirra verði meiri en almennt gerist. Það er svo önnur saga hver laun alþingismanna eiga að vera og mér finnst vera býsna mikill tvískinningur um það mál frá mönnum sem eru flestir mun hærra launaðir sjálfir.

En sú aðgerð mun ekki firra menn ábyrgð á því að takast á við hætturnar í efnahagslífinu og þá sérstaklega verðbólguna. Fjármálaráðherrann ber ábyrgð á launastefnu ríkisins og verður að standa sig í starfinu. Sá vandi sem hann hefur búið til hverfur ekki þótt úrskurði Kjaradóms verði breytt. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur með stuðningi allrar borgarstjórnar kannski búið til stærsta vandann og getur ekki hlaupið frá honum. Sá vandi hverfur heldur ekki þótt úrskurði Kjaradóms verði breytt.

Ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og verkalýðshreyfingin verða að ná samkomulagi um leiðina út úr þeim ógöngum sem launastefnan er komin í. Leiðin þarf að tryggja bættan hag láglaunafólks, stöðugleika í efnahagslífinu og lága verðbólgu. Ef það tekst vinna allir.

Athugasemdir