Úlfar á ferð

Pistlar
Share

Viðskiptabankarnir hófu sókn inn á íbúðalánamarkaðinn fyrir rúmu ári. Það er ekki úr vegi að skoða afrek þeirra nú og spyrja hvað þeir hafa gert fyrir íslenska neytendur. Bankarnir sem hafa orðið heimsfrægir fyrir útrás sína, lofaðir fyrir fjármálasnilli og fara um með fullar hendur fjár sem logi yfir akur. Hver hefur ágóði íslenskra íbúðareigenda orðið af útrásinni?

Svarið er vonbrigði, þreföld vonbrigði. Í fyrsta lagi þá hefur hinn einkavæddi viðskiptabankaheimur ekki ástundað samkeppni sín á milli. Eiginlega þvert á móti, lánskjör þeirra lýsa leynt og ljóst samráði. Það ríkir nokkurs konar olíusamráðsástand á þessum markaði. Ekki það að menn þurfi að óttast að árvökul augu Ríkislögreglustjórans séu að halda vöku fyrir bankastjóraliðinu, það er að segja þeim sem láta svo lítið að búa hér á skerinu. Þetta samráð eru fyrstu vonbrigðin.

Bankarnir hafa hins vegar sameinast í atlögu að Íbúðalánasjóði, nokkurs konar tangarsókn í anda Napóleóns. Þegar sóknin rann út um þúfur heimtuðu þessi fánaberar samkeppnisþjóðfélagsins að Íbúðalánasjóður yrði lagður niður. Samkeppnin er ekki innbyrðis heldur bara við Íbúðalánasjóð.

Í öðru lagi hafa viðskiptabankarnir okrað á viðskiptavinum sínum. Það kemur fram í svari félagsmálaráðherra á Alþingi í vikunni. Aðeins um 20% þeirra sem tekið hafa lán hjá bönkunum síðasta árið fá 4,15% vexti eða lægra. Um 80% lántakendanna eru að greiða hærri vexti en Íbúðalánasjóður býður upp á. Gróft áætlað eru meðalvextir bankanna um 0,85% hærri en hjá Íbúðalánasjóði.

Leiðrétting 16/11: svar félagsmálaráðherra á aðeins við um dreifingu vaxta hjá Íbúðarlánasjóði. Þar eru ekki upplýsingar um vaxtadreifingu viðskiptabankanna. Hins vegar er líklegt að ályktunin í málsgreininni að ofan sé nærri lagi, að meðalvextir bankanna séu um 0,85% hærri en vextir Íbúðalánasjóðs. Ástæðan er sú að meginreglan er að bankarnir hafa boðið 5,10% vexti og síðan einhverjum hópi afslátt á vöxtunum niður í 4,15%. Afslátturinn er bundinn einstaklingunum og fylgir ekki þegar nýr eigandi að íbúð tekur við láninu, þá gilda 5,10% vextirnir, nema nýi eigandi nái sérsamningum. Annars þarf gamli eigandinn að greiða upp lánið og þá fellur til uppgreiðslugjaldið nýja. Að auki hafa bankarnir bætt við kostnaði sem Íbúðalánsjóður tekur ekki, svo sem uppgreiðslugjaldi, afsláttur á vöxtum er bundinn kvöðum um önnur viðskipti lántakandans og loks áskilja bankarnir sér rétt til að endurskoða vextina á fimm ára fresti. Þessi atriði öll þýða að meðalvextir á hverju láni þegar lánstíma er lokið verða hærri en upphaflegir vextir gefa til kynna. Reynt verður að afla sem bestra upplýsinga um vaxtadreifinguna hjá viðskiptabönkunum.

Þar sem útlán viðskiptabankanna til íbúðarhúsnæðis á þessum tíma eru um 300 milljarðar króna þýðir það um 2,5 milljarð króna á hverju ári sem lántakendur viðskiptabankanna greiða meira en þeir hefðu gert sem lántakendur í Íbúðalánasjóði. Þetta er samkeppnisleysisskatturinn, samráðsskatturinn, útrásarskatturinn sem rennur í gegnum bankana og endar sem arður til hluthafanna. Þetta okur eru önnur vonbrigðin.

Þriðju vonbrigðin eru að bankarnir hafa ekki getað bætt kjör okkar, þeir hafa ekki fært okkur heim erlend lánskjör. Þeir hafa bara fært heim erlent lánsfé og lánað það á íslenskum himinvöxtum en ekki á erlendum vöxtum. Íbúðalán á Norðurlöndum bera miklu lægri vexti en gerist hér á landi þegar verðtrygging lánsfjárins er tekin með í dæmið. Í Svíþjóð sá ég hjá bankanum SBAB að vextirnir eru frá 2,44% til 4,45% og engin verðtrygging. Hér á landi eru vextirnir 8,5 – 10,5% hjá hinum rómuðu útrásarsnillingum. Munurinn er 6%.

Husbanken í Noregi lánar á 2,3% breytilegum vöxtum eða 3,6% föstum vöxtum. Realkredit í Danmörku lánar til 30 ára á 3-4% vöxtum. Í Finnlandi er lánað á 4,54% vöxtum um þessar mundir. Hvergi er verðtrygging. Munurinn á þessum löndum og íslensku útrásarvíkingunum er mikill, 5 – 7%.

Viðskiptavinir íslensku viðskiptabankanna eru að greiða 15 – 21 milljarða króna meira í vexti á hverju ári af þessum 300 milljörðum króna, sem þeir hafa tekið að láni síðasta árið vegna íbúðarhúsnæðis, en þeir gerðu ef vextirnir væru á erlendu vaxtastigi. Það er hár skattur frá almenningi til hins samkeppnisvædda bankakerfis. Það er von að bankarnir græði sem aldrei fyrr. Þeir eru sem úlfar á ferð um harðfenni hins hömlulausa markaðsþjóðfélags, gráðugir, harðdrægir, miskunnarlausir.

Athugasemdir