Neytendasamtökin: Í öllum tilvikum eru vextir hæstir á Íslandi.

Pistlar
Share

Í dag kom út skýrsla Neytendasamtakanna um húsnæðismarkaðinn á Íslandi og öðrum Evrópulöndum. Gerð var nákvæm athugun á helstu þáttum málsins, svo sem lánstíma, stimpilgjöld, lántökukostnað, vaxtaprósentur og vísitölubindingu. Auk Íslands voru þessi atriði skoðuð á Norðurlöndunum, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi, auk þeirra Írlandi, Bretland, Þýskaland, Holland og Austurríki.

Niðurstaðan er ótrúlega skýr. Í öllum tilvikum eru vextir hæstir á Íslandi, en vaxtakjörin eru sá þáttur sem mestu máli skiptir fyrir hinn almenna lántakenda.Hæstu vextir á Íslandi geta verið allt að fjórum sinnum hærri en í Danmörku. Ísland er líka eina landið sem hefur verðtryggingu.

Lánakjör og skilmálar eru til muna lakari á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Skiptir þar mestu máli að vextir eru mun hærri, lántökugjöld eru margfalt hærri og greiðslugjald hverrar afborgunar virðast vera í mörgum tilvikum allnokkru hærri á Íslandi en í hinum löndunum. Form uppgreiðslugjaldsins er mun stífara og óhentugra lántökum á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Á Íslandi eru 90-95% húsnæðislána með föstum vöxtum og þegar þau eru borin saman við hin 9 löndin kemur í ljós að hæstu raunvextir eru á Íslandi, að jafnaði 2-3,5 sinnum hærri en lægstu raunvextir m.v. fasta vexti í Bretlandi, Írlandi og Þýskalandi. Raunvextir á Íslandi eru 2-3,7 prósentum hærri en meðalraunvextir mælast í hinum löndunum níu.

Þegar skoðuð eru lán með breytilegum vöxtum er það sama upp á teningnum. Raunvextir eru langhæstir á Íslandi, frá 4,9% til 6,9% og eru 3,2 sinnum hærri en meðaltal hinna landanna níu. Lægstir eru raunvextirnir í Danmörku á bilinu 0,2% til 0,7% og sem dæmi eru þeir 1,6% til 2,5% í Noregi.

Munurinn á vöxtunum á Íslandi og Norðurlöndunum er frá 2 til 7 prósentustigum og þegar tekið er tillit til verðbólgu í löndunum, svonefndir raunvextir, er munurinn á Íslandi og hinum Evrópulöndunum frá 2 til 5 prósentustigum.

Þetta getur ekki skýrar verið.Íslenska bankakerfið stendur sig illa í því að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu á hagstæðu verði. Það hins vegar gengur lengst í því að okra á viðskiptavinunum og veitir þeim lökustu lánakjörin og skilmálana. Hvar er samkeppnin? Geta þessir ágætu viðskiptabankar bara staðið sig vel erlendis?

Munur upp á 7% kostar mikla peninga fyrir íslenska neytendur. Ef við tökum meðaltalið og segjum að vextirnir séu um 4,5% hærri á Íslandi en á Norðurlöndunum eru það 13,5 milljarðar króna á hverju ári af 300 milljarða króna húsnæðislánum viðskiptabankanna. Það er mikil kaupmáttaraukning fólgin í því að Íslendingar fái svipuð kjör og bjóðast í samanburðarlöndunum, líklega sambærileg og lækkun tekjuskatts um 2,5%. Vaxtaokrinu verður að linna.

Athugasemdir