Landsfundur Sjálfstæðismanna um helgina var um margt athyglisverður, eins og gefur að skilja þegar stærsti flokkurinn þjóðarinnar á í hlut. Það þótti mér vont að heyra að ráðherrar flokksins höfðu ekki þrek til þess að verja fjárlagafrumvarp sitt og viku sér undan gagnrýni með því að vísa á heilbrigðisráðherrann, þegar rætt var um svonefndan bensínstyrk öryrkja.
Ekki benda á mig, þeir hafa kannski verið að æfa lögreglukórinn svo vitnað sé í Bubba Morteins, þegar frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn. En það er önnur saga, að ég skil vel að gagnrýni sé sett fram á einstaka liði frumvarpsins og ekkert við það að athuga. Stjórnarflokkarnir eiga að taka höndum saman um að lagfæra þetta atriði á þann hátt að öryrkjar geti vel við unað.
En stóru tíðindin eru að Davíð Oddsson hætti sem formaður flokksins og kosin var ný forysta. Davíð er eftirminnilegur stjórnmálamaður sem náði miklum árangri. Hann var til dæmis lengur forsætisráðherra en nokkur annar, það er mikið afrek. En hann beitti líka aðferðum sem mér eru ekki að skapi og gekk að mínu mati lengra en nokkur annar stjórnmálamaður í hörðum persónulegum ávirðingum á annað fólk.
Nægir að nefna nokkur nærtæk dæmi. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bar á mann í viðskiptalífinu að hafa reynt að bera á sig fé. Ítrekað bar hann á eigendur Fréttablaðsins og Stöðvar 2 að nota fjölmiðlana til þess að koma á sig höggi og flytja áróður í eigin þágu. Þar með lágu starfsmenn þessara fjölmiðla, allir með tölu, undir þeim ásökunum þáverandi forsætisráðherra að vera ekki fréttamenn heldur viljalaus verkfæri annarra.
Forseta Íslands sakaði hann um að ganga gegn þinginu og reka erindi eigenda umræddra fyrirtækja, þegar forsetinn synjaði fjölmiðlalögunum um staðfestingu og vísaði löggjöfinni til almennings. Þá hélt hann því fram að forsetinn væri vanhæfur í málinu vegna starfs dóttur sinnar. Og nú síðast sakaði hann formann Samfylkingarinnar og suma þingmenn flokksins um að líta á flokk sinn fremur sem dótturfélag auðhrings en stjórnmálaflokk.
Í öllum tilvikum eru þetta mjög harðar ávirðingar á persónu og starfsheiður þeirra sem í hlut eiga. Þær eru meiðandi, lítt eða ekkert rökstuddar, lýsa lítilsvirðingu á þeim sem ummælin beinast gegn og minna á aðferðir sem notaðar eru til skoðanakúgunar. Svona starfsaðferðir eiga ekki að líðast í íslenskum stjórnmálum. Það er vel hægt að deila við andstæðinga sína án þess að beita þessum meðulum.
Þegar sem mest gekk á í fjölmiðlamálinu sumarið 2004 birtist í DV afar athyglisvert viðtal við Eirík Tómasson, lagaprófessor. Þar sagði Eiríkur að það hefði komið í ljós að kosningar á fjögurra ára fresti nægðu ekki til þess að veita valdhöfunum nægilegt aðhald. Það sé áhyggjuefni hvernig lýðræðið virki á Íslandi og þar vísar hann til þess að honum finnist að valdið hafi þjappast saman á undanförnum árum.
Eiríkur Tómasson segir tvennt skipta máli í lýðræðisríkinu. Annars vegar að það sé styrk stjórn á landsmálunum og hins vegar að fram fari lýðræðisleg umræða í samfélaginu, umfjöllun um mál, þar sem menn geti tjáð sig og myndað sér skoðanir með frjálsum hætti.
Ég er algerlega sammála Eiríki Tómasyni og held að Framsóknarmenn gerðu margt verra á næstunni, en að hafa forystu um að færa stjórnmálaumræðuna af götustrákaplaninu yfir í lýðræðislega umræðu. Við skulum velja frelsið og hafna hinu.
Athugasemdir