Dómsmálaráðherra dregur í land – bláa höndin sígur.

Greinar
Share

Í gær gagnrýndi ég dómsmálaráðherra fyrir viðbrögð hans við dómi Hæstaréttar í svonefndu Baugsmáli, þar sem 32 ákæruliðum af 40 var vísað frá dómi. Ráðherrann skrifaði á heimasíðu sína:
"Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá Hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins".

Gagnrýni mín var sú að þessi ummæli væru til þess fallin að hafa áhrif á störf undirmanns ráðherrans, Ríkislögreglustjórans. Það væri algerlega út í hött, ákæruvaldið verður að starfa óháð, sérstaklega óháð pólitískum aðilum. Ennfremur sagði ég að Framsóknarflokkurinn gæti ekki borið ábyrgð á slíkum starfsháttum ráðherra. Af því leiðir að ekki kemur til greina að bera ábyrgð á ráðherranum sjálfum.

Þetta voru hörð viðbrögð, en það var líka fyllsta ástæða til þess. Ummæli ráðherrans voru helst til þess fallin að lýsa bláu höndinni, þekktu hugtaki í íslenskri stjórnmálaumræðu. Ég vænti þess að það sé samstaða um það, meðal framsóknarmanna sem annarra, að ráða niðurlögum slíkra pólitískra starfshátta hvar og hvenær sem þeir birtast.

Þessi hörðu viðbrögð höfðu líka tilætluð áhrif. Umræðan á Alþingi í gær dró fram algera samstöðu þingmanna um sjálfstæði ákæruvaldsins og einnig samstöðu um að ráðherra eða aðrir stjórnmálamenn ættu ekki að reyna að hafa áhrif á það. Ráðherrann sjálfur kepptist við að útskýra ummæli sín á þann veg. Hann sór af sér í raun allan skyldleika við bláu höndina eða vilja til þess að vinna með þeim hætti.

Það er gott. Auk þess liggur það fyrir óumdeilt að Ríkislögreglustjóraembættið á að vera algerlega faglegt og óháð í störfum sínum. Alþingismenn voru líka að senda embættinu skýr skilaboð um það. Eins og ég hef áður rakið á heimasíðunni þarf það embætti að skýra ósamræmi í efnistökum sínum milli stórra og umdeildra mála í þjóðfélaginu. Mikilvægt er að það verði gert og að embætti Ríkislögreglustjóra auki tiltrú sína meðal almennings.

Ummæli ráðherrans gátu ekki átt við annað en þau ákæruatriði sem Hæstiréttur dæmi úr leik, þess vegna var alvarlegt að æðsti maður dómsmálaráðuneytisins lét þau falla. Hann hefur pólitíska valdið. Það hefur enga þýðingu að segja að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð um kæruatriði sem rétturinn hefur lagt fyrir héraðsdóm að taka fyrir og dæma um. Það liggur í augum uppi og þarf ekki að hafa orð á því.

Ég er því ekki í neinum vafa um meiningu ráðherrans, hann var að segja að málinu væri ekki lokið gagnvart hinum frávísuðu atriðum. Hvernig gat ráðherrann fullyrt slíkt, nema að hann beitti eða hefði beitt áhrifum sínum? Hann ákvað hins vegar í gær að skýra ummæli sín á annan veg eins og kunnugt er. Það þýðir einfaldlega í mínum huga að ráðherrann dró í land.

Ég ætla ekki að deila við hann héðan af um það hvernig á að skilja ummæli hans, eðlilegt er að hann fái að ráða því. En eftir stendur að honum og öðrum er ljóst að Framsóknarflokkurinn eða þingmenn á Alþingi yfirhöfuð vilja ekki bera ábyrgð á bláu höndinni. Það er mikilvæg niðurstaða eftir daginn.

Athugasemdir