Málatilbúnaður í rúst.

Pistlar
Share

Eftir dóm Hæstaréttar í Baugsmálinu svonefnda er málatilbúnaður ákæruvaldsins í rúst. Af 40 ákæruatriðum eru aðeins 8 tæk fyrir dóm, hinum öllum vísað frá. Þar með eru í raun meginákærurnar fallnar. Hæstiréttur segir berum orðum að ýmist sé verknaðurinn óljós sem ákært er fyrir og því geti sakborningur átt erfitt um varnir eða ekki verði séð að lýstur verknaður sé refsiverður.

Það má segja að rétturinn hafi með þessu lagt dóm á það efni sem ákæruvaldið lagði fram. Ætli það að leggja fram nýjar ákærur verður að lýsa öðrum verknaði eða færa rök fyrir því að lög hafi verið brotin með því sem lýst er í upphaflegri ákæru. Þetta er fyrir mér ekki spurning um formsatriði, sem ákæruvaldið geti í rólegheitum lagað eftir forskrift réttarins heldur um grundvöll málsins.

Svo finnst mér það ólíklegt að hægt sé að snitta til ákærur þar til dómur vill taka þær fyrir. Ef það er svo þá er hægt að leggja fram ákæru um sama efnið ítrekað þrátt fyrir frávísun í hvert sinn. Það hljóta að vera mörk á því, annað er ekki eðlilegt. Niðurstaða mín er að ákæruvaldið er í afar þröngri stöðu til þess að endurútgefa ákærurnar sem vísað var frá dómi.

Það eru eiginlega allir í vanda eftir þessi úrslit. Segjum sem svo að ákærðu séu sekir um alvarleg brot á lögum eins og ákæruvaldið telur. Þá gætu sekir menn sloppið við sakfellingu vegna afleitrar frammistöðu ákæruvaldsins. Ef þeir eru á hinn bóginn saklausir, þá hafa þeir verið nánast í einelti embættisins í 3 ár og óvíst um hvenær því lýkur. Hvort tveggja er aðgerlega óvíðunandi.

Framganga dómsmálaráðherra eftir að dómur Hæstaréttar lá fyrir er óviðunandi. Á heimasíðu sinni stendur eftirfarandi:
"Réttarkerfið hefur ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Lögheimildir eru til þess, að ákæruvaldið taki mið af því, sem fram hefur komið hjá hæstarétti við frekari ákvarðanir um framhald málsins".

Þetta verður ekki misskilið. Hann er að vísa til þeirra ákæruatriða sem vísað var frá dómi og segir að réttarkerfið hafi ekki sagt sitt síðasta orð í málinu. Þarna er hann að fullyrða um væntanleg viðbrögð Ríkislögreglustjóraembættisins, embættis sem heyrir undir ráðherrann. Það er ekki við hæfi og ráðherrann verður að draga þessi ummæli til baka eða útskýra þau nánar, og þá á þann veg að ekki sé um inngrip af hans hálfu inn í starf ákæruvaldsins. Ef hið síðara verður niðurstaða ráðherrans er það mun skár, en eftir sem áður verður að telja framgöngu hans afar óheppilega.

Ég tel að Framsóknarflokkurinn geti ekki borið ábyrgð á þeim starfsháttum, að ráðherra hafi afskipti af störfum ákæruvaldsins, og koma verður því skýrt til skila að flokkurinn ætlar ekki að líða það og lætur ekki draga sig inn slíkt athæfi. Það verður að vera algerlega ótvírætt að ákæruvaldið starfar óháð afskiptum stjórnmálamanna. Fyrir það sjónarmið stendur Framsóknarflokkurinn og á ekki að kvika frá því.

Björn Bjarnason hefur líklega gert Sjálfstæðisflokknum óleik með skrifum sínum. Ég minni á að Baugsfeðgar halda því fram að þeir sæti pólitískum ofsóknum og vissulega er hlutur sumra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í málatilbúnaðinum eða aðdraganda málsins verulega umhugsunarverður eins og viðskiptaráðherra hefur bent á.

Það þýðir samt ekki að taka eigi undir ásakanir feðganna, ég vil ekki trúa þeim og treysti væntanlegri forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að kveða þær niður.

Athugasemdir