Umbóta er þörf á starfsháttum Alþingis

Pistlar
Share

Það er ekki ofmælt að Alþingi má taka sig verulega á í eigin málum. Alþingismenn eru kosnir í almennri atkvæðagreiðslu til þess að fara með löggjafarvaldið. Ríkisstjórn er ekki kosin, enda ekki í framboði. Umboð alþingismanna er ótvírætt og að auki er sú venja hér á landi að ríkisstjórn verður ekki mynduð nema njóta stuðnings meirihluta á Alþingi. Í ljósi þeirrar venju má segja að umboð alþingismanna nái líka til þess, með óbeinum hætti þó, að mynda ríkisstjórn. Samspili löggjafarvalds og framkvæmdavalds er lýst með því að hér starfi þingbundin ríkisstjórn. Það undirstrikar einmitt undirtök Alþingis sem eiga að vera í samstarfinu og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu.

Fyrir 14 árum urðu miklar breytingar sem vörðuðu Alþingi. Deildaskipting þess var afnumin og það starfar í einni málstofu síðan. Auk þess var ákveðið að Alþingi sæti formlega allt árið, en áður var því slitið að vori og ekkert þing var fyrr en nýtt var sett að hausti. Ríkisstjórnin fór þann tíma bæði með framkvæmdavald og löggjafarvald í gegnum rúmt bráðabrigðalagavald, þingnefndir voru leystar upp og forsetar Alþingis misstu umboð sitt við þingslitin. Það var því ómögulegt að kalla saman þig eða einstakar þingnefndir þann tíma sem leið frá þingslitum til setningar nýs Alþingis að hausti.

Eftir breytinguna 1991 halda þingnefndir og forseti umboði sínu. Þingi er nú frestað með formlegum hætti, sem gefur ríkisstjórn bráðabirgðalagavald. En það verður að teljast mun þrengra en sú bráðabirgðalagaheimild sem gilti fyrir breytinguna 1991, en þó hefur greinilega sótt í það far að ríkisstjórnin vill rýmka heimildina. Þingnefndir geta haldið fundi að vild þótt þingi hafi verið frestað og fljótlegt er að kveðja saman þingfund. Dæmi er um hvort tveggja, að þingnefndir komi saman að sumarlagi og að Alþingi hafi verið hvatt saman og nærtækast er að minna á þinghaldið síðastliðið sumar í kjölfar þess að forseti Íslands neitaði að undirrita fjölmiðlalögin.

Stjórnarskrárbreytingin 1991 styrkti Alþingi og gaf möguleika á að efla sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu. Það hefur að vissu marki gerst. Starfsaðstaða alþingismanna er gerbreyst, þeir hafa nú vel búna skrifstofu hver um sig og þeir hafa aðgang að starfsfólki á nefndasviði, möguleikar til eigin gagnaöflunar eru ólíkt betri en áður var og einnig til að fylgjast með þróun erlendis. Mér er enn minnisstætt að þegar ég kom til þings vorið 1991 fékk ég að vísu sérherbergi en hvorki ritvél né tölvu. Blýanturinn var greinilega enn aðaltækið. Það var liðið nokkuð fram á veturinn næsta þegar fyrsta tölvan kom.

Síðustu árin finnst mér að stöðnun hafi orðið. Dregið hefur úr sjálfstæði þingsins og að sama skapi finnst mér að sé ríkisstjórnin orðin of ráðandi í þinghaldinu. Það er tímabært að taka næsta skref í þróun Alþingis. Þar þarf að huga að nokkrum atriðum.

Fyrst er það framgangur mála sem þingmenn bera fram. Þau eiga að koma til umræðu innan hæfilegs tíma. Í dag er bið, jafnvel mánuðum saman, eftir því að mál komist á dagskrá þingsins, og þá er ekki víst að þau verði tekin til umræðu. Þetta gengur ekki. Málin verða að koma fyrir, en það kann að vera nauðsynlegt að takmarka frekar ræðutíma þingmanna við 1. umræðu en nú er.

Alþingi verður að setja sér almennar og ákveðnar reglur um meðferð mála í þingnefnd sem tryggja að öll mál fái þinglega meðferð. Í því felst að mál verði sent til umsagnar og að umsagnaraðilar fái rúman tíma að að vinna að sinni umsögn. Að þeim tíma liðnum verði málið tekið til umræðu og ef þörf er á frekari upplýsingaöflunar innan nefnarinnar. Þessum þætti í starfi Alþingis er áfátt og stundum verulega áfátt. Sum mál eru ekki sent út til umsagnar fyrr en seint og um síðir og eru svo ekki tekin fyrir til umræðu og daga uppi í nefndinni. Þetta á einkum við um þingmannamál og sérstaklega um mál stjórnarandstæðinga.

Önnur mál fá hraðmeðferð og umsagnarfrestur er styttur, jafnvel niður í einn dag. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður eru umsögnum áfátt og stundum fremur til málamynda. Dæmi eru um að stórum frumvörpum, sem mikill ágreiningur er um, er hraðað í gegnum þingið á örfáum dögum. En reynslan segir okkur líka að þá er hættast við mistökum í lagasetningunni.

Þingleg meðferð mála á auðvitað að vera þannig að stjórnarfrumvörp eða önnur mál sem njóta meirihlutastuðnings eigi greiða leið gegnum þingið, en hún á líka að tryggja vandaða og sjálfstæða athugun málsins af hálfu þingsins. Það má gera með reglum um tímafresti sem verður að virða og ef frávik á að vera þá verði aukinn meirihluti að fallast á slíkt.

Það má líka gera með því að draga úr áhrifavaldi ráðherra á nefndarmenn eða a.m.k. nefndarformenn. Ein leið til þess að er ráðherra sitji ekki á Alþingi. Önnur að nefndarformennska ráðist af styrkleika flokkanna á Alþingi, en ekki því hverjir sitji saman í ríkisstjórn. Þá fengju allir eða flestir flokkar formennsku í nefnd og bæru ábyrgð á þinghaldinu.

Ein hugmynd hefur stundum skotið upp kollinum, sem mér finnst áhugaverð í því skyni að auka sjálfstæði Alþingis og hún er að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðunnar. Einhvern tímann kom fram að svona væri þetta í Noregi og hafi gefist vel.

Margt fleira má nefna en ég vil að lokum nefna starfstíma Alþingis. Hann er of stuttur og ég tel óhjákvæmilegt að lengja þinghaldið. Einkum og sér í lagi starf þingnefndanna. Þær þurfa að hafa fleiri reglulega fundi í viku hverri og í fleiri vikur ár hvert en nú er. Málafjöldinn sem hleðst upp í mörgum nefndum er til marks um þá þörf. Því til viðbótar á hver þingnefnd að mínu mati að kynna sér þá málaflokka, sem nefndin fer með, að eigin frumkvæði. Það er forsenda að árangursríku starfi að þingmenn kynni sér vel málin.

Athugasemdir