Vertíðarlok á Alþingi.

Pistlar
Share

Í gær lauk störfum Alþingis að sinni. Fundum Alþingis var frestað með formlegri þingsályktun seint í gærkvöldi og við það falla niður öll fundarhöld í nefndum þingsins svo og þingfundir. Ekki er gert ráð fyrir að öllu óbreyttu frekari störfum á þeim vettvangi fyrr en í haust með nýju þingi sem hefst 1. október. Þangað til eru 143 dagar. Um 100 mál sem þingmenn hafa lagt fram komust ekki til umræðu og að auki er aragrúi mála í þingnefndunum sem ekki hlutu afgreiðslu og flest fremur litla umfjöllun. Mál er að Alþingi breyti starfsháttum sínum. Meira um það seinna.

Eins og venjulega undir lok þinghalds voru mörg mál til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu. Það skemmtilega við þingið er að oftast nær gerist eitthvað óvænt eða óvenjulegt. Í gærkvöldi skipti sessunautur minn um flokk á milli atkvæðagreiðsla. Það kom flatt upp á flesta sýndist mér. En svona er þetta, pólitíkin er óútreiknanleg.

Annað sem kom á óvart var afgreiðsla forseta Alþingis á breytingartillögum Gunnars Birgissonar við samgönguáætlun. Eftir að hafa borið upp tillögu um fjárveitingar til almennra verkefna ( sem var sama tillaga og frá meirihluta samgöngunefndar) í svonefndu grunnneti í vegakerfinu, sem var felld, úrskurðaði forseti að aðrar tillögur væru sjálffallnar, þar sem tillaga um heildarfjárveitingar til grunnnetsins hefðu verið bornar upp samtímis fjárveitingum til almennra verkefna og hefðu þá verið felldar líka í sömu atkvæðagreiðslu.

Þetta finnst mér undarlegt. Sérstaklega í ljósi þess að óskað hafði verið eftir því að greiða atkvæði sérstaklega um fjárveitingar til höfuðborgarsvæðisins, en með þessum úrskurði forseta fór sú atkvæðagreiðsla aldrei fram. Á sama hátt var einnig komið í veg fyrir atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Gunnars um jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta í stað ganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Það fór því aldrei fram atkvæðagreiðsla milli þeirra kosta.

Mér sýnist nokkuð ljóst að með lagakrókum var verið að forðast atkvæðagreiðslur um umdeildar tillögur. Ég lít svo á að hlutverk forseta sé að aðstoða þingmenn við framlagningu mála svo tillögur sem þeir vilja bera fram geti komið til atkvæða. Forseta var fullkunnugt um vilja þingmannsins, sem flutti breytingartillögurnar. Honum bar auðvitað að gera þingmanninum viðvart um meinta meinbugi á breytingartillögunum og gefa honum kost á því að lagfæra tillögurnar. Það gerði forseti ekki. En líklega var það markmiðið að forðast atkvæðagreiðslurnar. Það segir mikla sögu sem ekki verður misskilin.

Eins og gengur voru nokkur umdeild mál til afgreiðslu í gær. Breytingar á fjarskiptalögum var þar á meðal. Í því frumvarpi voru að ganga aftur tillögur um heimildir til lögreglu til að fylgjast með borgunum án dómsúrskurðar. Þar á ég þar við frumvarpið sem lagt var fram í fyrra um meðferð opinberra mála og ætlað var að heimila lögreglu hlerum síma án dómsúrskurðar. Því var breytt sem betur fer eins og menn muna. Nú snýst málið um upplýsingar um tölvu- og símanúmar sem lögregla á að hafa aðgang að og skyldu fjarskiptafyrirtækja til víðtækra upplýsingasöfnunar og geymslu þeirra. Afstaða mín var sú sama nú og í fyrra og ég greiddi atkvæði gegn 9. greininni umdeildu. Nú fór ekki eins vel og í fyrra og heimild lögreglunnar var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 27.

Þá voru ný samkeppnislög samþykkt. Ég vísa til ræðu minnar við málið í 2. umræðu, en ég tel 27. gr. laganna ganga gegn stjórnarskránni og greiddi atkvæði gegn þeim. Með lagagreininni er dómsvald framselt úr landi til Eftirlitsstofnunar EFTA í ákveðnum tilvikum. Óumdeilt er að lengra er gengið í framsali valds en áður eru dæmi um og við þessu er alvarlega varað m.a. í umsögn Réttarfarsnefndar. Þá hef ég efasemdir um breytingar á skipulagi stofnunarinnar sem lúta að stöðu forstjóra og auknu valdsviði stjórnar.

Allmörg mál voru afgreidd frá þeim nefndum sem ég sit í, sjávarútvegsnefnd og umhverfisnefnd, og sum þeirra mjög stór eins og mat á umhverfisáhrifum. Góð samstaða tókst um þau allflest og það skilaði sér greinilega að leggja vinnu í nefndunum í það að samræma sjónarmið nefndarmanna. Nefndarformennirnir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Guðjón Hjörleifsson, hafa staðið sig vel að mínu mati, þann tíma sem við störfuðum saman í vetur.

Athugasemdir