Benn, brauðið og hryðjuverkamaðurinn.

Pistlar
Share

Að þessu sinni eyddi ég 1. maí á Trafalgar torgi í London ásamt Elsu eiginkonu minni. Á þessu ári eru 200 ár síðan orustan við Trafalgar var háð, mig minnir að hún hafi verið í október. Þar sigraði breski flotinn þann franska og eftir það slokknuðu allar vonir Napóleons um innrás í Bretland. Nelson flotaforingi féll og geysistórt minnismerki um hann er á torginu.

Fjölmenni var á torginu og fylgdist með baráttufundi, sem þar var haldinn. Kjörorð fundarins var love music, hate war og leyndi sér ekki andúð fundarmanna á stríðsrekstri ýmiss konar, en sérstaklega á stríðinu í Írak. Einn ungur ræðumaður minnti á að um þriðjungur mannkyns byggi við hörmuleg kjör og að árlega létust um 20 milljónir barna úr hungri. Eina stríðið sem hann taldi réttlætanlegt að heyja er stríð gegn hungri og fátækt.

Á torguni mátti sjá fána kommúnistaflokks Írans, félaga í kommúnistaflokki Bretlands og menn sem gengu um með rauða fána þar sem gamli Marx var í forgrunni. Á fánana var prentað : það þarf enn að breyta heiminum. Mikið til í því eins og fram kom í máli unga mannsins sem ég vitnaði í að ofan. Þarna gengu um margir og seldu barmmerki gegn I.D. – identification cards -, sem eru persónuskilríki með fingraförum hvers manns sem breska ríkisstjórnin vill taka upp í tengslum við aðgerðir gegn hryðjuverkum, en þau áform mæta mikilli mótspyrnu meðal annars í Verkamannaflokknum.

Allt fór friðsamlega fram sem sjá mátti á lögreglunni. Til taks voru sveitar lögreglumanna í bílum við torgið, en þeir létu ekkert á sér kræla. Sumir dottuðu í hitanum en aðrir lásu blöðin. Fjölmiðlar voru þarna og tóku viðtöl við gamla baráttujaxla, sem örugglega muna tímana tvenna.

Aðalræðumaður fundarins var fagnað geysilega. Þar var kominn Antony Wedgewood Benn, Tony Benn, sem var þingmaður Verkamannaflokksins í fjöldamörg ár. Aðalsmaður, sem afsalaði sér aðalstigninni, og var allan sinn pólitíska feril einægur baráttumaður alþýðumannsins. Var vinstra megin í Verkamannaflokknum. einn af forystumönnum flokksins og einn af þeim sem ekki líkaði við stefnu Blairs. Benn var mjög áberandi í breskri pólitík þegar ég var að byrja í pólitíkinni fyrir rúmum nærri aldrafjórðungi. Hann er nú um áttrætt og virðist engu hafa gleymt þótt nokkuð sé síðan hann dró sig í hlé.

Benn flutti stutta en áhrifamikla ræðu. Hann minntist þess að fyrir fjörtíu árum stóð hann í sömu sporum og nú og flutti ræðu á 1. maí á Trafalgar torginu. Í máli sínu varði hann hryðjuverkamann nokkurn sem sat í fangelsi og átti eftir að vera það í áratugi. Löngu síðar hitti Benn þennan umdeilda mann, sem stjórnvöld dæmdu sem hryðjuverkamann, og þá var hann forseti lands síns og friðarverðlaunahafi Nobels. Þetta var enginn annar en Nelson Mandela.

Þessi dæmisaga Benn segir okkur að ekki fer alltaf saman dómur stjórnvalda og dómur sögunnar. Núverandi stjórnvöld í Bretlandi geta nokkuð lært af sögu Benn, þegar Blair og félagar eiga í vök að verjast vegna blekkinga sem þau beittu í aðdraganda Íraksstríðsins til þess að fá fram samþykki fyrir strísðrekstrinum.

Ræðu sinni lauk gamla kempan með því að segja að ef menn ættu brauð þá hefðu menn þrjá kosti. Fyrsti kosturinn væri að selja það og stinga gróðanum í vasann. Honum fannst ýmsir stjórnmálamenn nútímans uppteknir af þeim kosti. Annar kostur væri að lúra á brauðinu til eigin nota. Það fannst Benn ekki stórmannlegt. Þriðji kosturinn, sem Benn mælti með, var að deila brauðinu með þeim, sem ekkert ættu. Einföld saga, sem undirstrikar siferðilegan boðskap Benns. Af fagnaðarlátunum á torginu að dæma við ræðunni voru menn sammála Benn um það hvaða kost á að velja.

Athugasemdir