Reglur um samræmda upplýsingagjöf þingmanna Framsóknarflokksins

Pistlar
Share

Hér birtast reglurnar sem þingmenn Framsóknarflokksins sammæltust um. Þær eru í samræmi við það sem fram kom á Alþingi og í fjölmiðlum í síðustu viku. Í Morgunblaðinu sl. fimmtudag 21. apríl segir m.a. :

"að þingmenn flokksins hyggðust taka saman og birta upplýsingar um fjárhag og eignir sínar og eftir atvikum eignarhlut sinn, maka og náinna ættingja í félögum í atvinnurekstri. Einngi upplýsingar um önnur launuð störf,aðild að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir og boðsferðir."
Í Fréttablaðinu saman dag er nánar greint frá innihaldi væntanlegra reglna og þar nefnd til að auki séreignir þingmanna aðrar en hús, íbúðir eða sumarhús sem þeir nota. Þá er áréttað að reglurnar verði að ná til maka þingmanna.

Reglur um samræmda upplýsingagjöf þingmanna Framsóknarflokksins

Til að stuðla að auknu gagnsæi í íslenskum stjórnmálum og upplýsa um leið um þau tengsl sem hugsanlega geta haft áhrif á störf þingmanna hafa þingmenn Framsóknar-flokksins samþykkt að setja sér eftirfarandi samræmdar reglur um birtingu upplýsinga um fjárhag, eignir, hagsmuni og tengsl þingmanna flokksins og varaþingmanna sem taka sæti á Alþingi.

1. Hlutabréfaeign í innlendum og erlendum félögum. Með því er átt við hlutabréfaeign hvort sem er í skráðum eða óskráðum félögum og nafnverð eignarhlutarins. Gefa skal upp hlutabréfaeign sem er í séreign þingmanns og einnig þá sem er sameign þingmanns og maka hans.
2. Stofnsjóðsinneignir hjá samvinnufélögum, stofnfjárbréf í sparisjóðum og stofnfjáreignir í sameignarfélögum. Gefa skal upp eignina sem er í séreign þingmanns sem og sameign þingmanns og maka hans.
3. Fasteignir. Með því er átt við aðrar fasteignir en fasteignir í eigu þingmanns og maka hans til eigin nota/búsetu. Sumarhús eru einnig undanskilin. Gefa skal upp fasteignir sem eru í séreign þingmanns og einnig þær sem eru sameign þingmanns og maka hans.
4. Sjálfstæða atvinnustarfsemi sem og hverskonar atvinnurekstur (samrekstur) sem þingmaður eða maki á eða á aðild að.
5. Aukastörf utan þings hvort sem er um að ræða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila. Með því er átt við öll launuð og ólaunuð aukastörf s.s. setu í nefndum, ráðum og stjórnum hverskonar eða önnur störf sem ekki tengjast þingsetu beint.
6. Boðsferðir og gjafir. Með því er átt við allar ferðir sem fer í og ekki eru greiddar af opinberum aðilum, Framsóknarflokknum eða þingmanni sjálfum. Átt er við allar gjafir, hlunnindi, styrki eða aðstöðu sem þingmanni og maka er látin í té frá og með 1. janúar 2005 og koma frá öðrum en opinberum aðilum, Framsóknar-flokknum eða fjölskyldu þingmanns. Í tilviki maka er miðað við gæði sem látin eru í té og tengjast ekki starfi makans. Miðað er við gjafir, hlunnindi, styrki eða aðstöðu sem metin verða til peningaverðs að fjárhæð kr. 20.000 krónur. Þó ber að gefa upp, gjafir, hlunnindi, styrki eða annað frá sama gefanda sem er meiri en 20.000 króna virði á ári hverju þótt hver og ein nái ekki því verðmæti. Við mat á verðmæti umræddra gæða skal miða við gangverð eða markaðsverð á hverjum tíma eða skattmat ríkisskattstjóra þegar það á við.
7. Annað sem þingmaður vill gefa upp.

Í apríl 2005 verða þessar upplýsingar gefnar upp fyrir þingmenn Framsóknarflokksins miðað við núverandi stöðu. Miðað er við að upplýsingarnar verði uppfærðar jafnóðum og tilefni gefst til og í síðasta lagi miðað við 1. apríl ár hvert.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa jafnframt sent bréf til forsætisnefndar Alþingis þar sem farið er fram á að forsætisnefnd setji reglur um upplýsingagjöf um hagsmunatengsl þingmanna. Forsætisnefnd verði eftirlátið að ákveða hvort reglurnar verði valkvæðar eða skyldubundnar. Verði af því að forsætisnefnd setji þingmönnum slíkar reglur verða þessar aðlagaðar þeim, ef og þegar að því kemur.

Athugasemdir