Síðastliðinn sunnudag gerði Morgunblaðið grein fyrir skrifum Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, á heimasíðu sinni um þá ákvörðun þingflokks Framsóknarmanna að ég sitji ekki í nefndum innan þings og utan fyrir þingflokkinn. Skýring hennar er sú að stefna mín hafi verið á skjön við meginstefnu flokksins í mikilsverðum málaflokkum. Því er ég ósammála og mun rökstyðja það síðar, en þarna staðfestir Valgerður þá skýringu, sem ég hef talið að væri líklegust, að aðgerð hennar og fleiri, væri hefnd fyrir afstöðu mína í málum eins og fjölmiðlamálinu og Íraksmálinu.
Fyrir einu ári var ég kosinn í 4 nefndir og hef verið formaður í einni og varaformaður í þremur. Ákvörðunin nú hlýtur að tengjast einhverju sem gerst hefur síðan þá og þessi tvö mál standa upp úr síðastliðið ár. En iðnaðarráðherra segir ennfremur í pistli sínum að ég hafi með vinnubrögðum og framkomu glutrað niður þessum ábyrgðarstöðum. Það gefur tilefni til þess að athuga hvernig störfum mínum var háttað síðastliðinn vetur í þeim nefndum sem fengu til meðferðar mál frá Iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Öll mál afgreidd
Til iðnaðarnefndar, þar sem ég var formaður, var vísað 12 stjórnarfrumvörpum. Beðið var um að eitt frumvarpið yrði látið liggja óafgreitt en öll hin 11 frumvörpin voru afgreidd frá iðnaðarnefnd og urðu að lögum. Það sem meira er að aðeins eitt álit kom frá nefndinni í sérhverju þessara 11 mála. Fullkomin samstaða allra nefndarmanna nema að í einu þeirra stóð einn nefndarmanna ekki að álitinu, en hann skilaði ekki séráliti. Mér er ekki kunnugt um að nokkur nefndarformaður iðnaðarnefndar hafi náð betri árangri og þá ber að hafa í huga að nefndin glímdi við stór mál eins og markaðsvæðingu raforkukerfisins. Öll mál afgreidd og nánast í fullri einingu nefndarmanna. Ég vil þó taka fram að Vinstri grænir áttu ekki fulltrúa í nefndinni en þeir stóðu engu að síður að flestum málum en fluttu breytingartillögur við líklega 3 mál. Þessi árangur er ekki tilviljun heldur ásetningur. Það var ásetningur minn að starfa þannig að sem mest samstaða næðist um málin. Það er einfaldlega í samræmi við störf mín á Alþingi og annars staðar. Með því að sýna vilja til þess að taka tillit til sjónarmiða annarra stjórnmálaflokka og miðla málum þá næst þessi árangur. Helsti vandi minn var sá að iðnaðarráðherra lagði frumvörpin seint fram og nefndinni gafst ekki mikill tími til sinna starfa. Raforkulagafrumvörpin voru afgreidd gegnum Iðnaðarnefnd á tæplega tveimur mánuðum og það er býsna skammur tími. Sérstaklega þegar horft er til þess að undirbúningur málsins í ráðuneytinu stóð yfir árum saman.
Tveir dagar
Sem viðskiptaráðherra flutti Valgerður Sverrisdóttir 7 stjórnarfrumvörp sem vísað var til efnahags- og viðskiptanefndar, en þar var ég varaformaður. Formaður nefndarinnar, Pétur Blöndal, hafði veg og vanda af starfi nefndarinnar og víst er að þau tvö eiga gott samstarf og mikla málefnalega samstöðu. Í einu málinu, svonefndu SPRON máli, kom það þó upp að formaðurinn var andsnúinn ríkisstjórninni og þá kom það í minn hlut að stýra meirihluta nefndarinnar. Það mál var afgreitt frá nefndinni á tveimur dögum og allir 8 nefndarmenn aðrir en formaðurinn náðu samkomulagi um efni málsins og stóðu saman að nefndaráliti. Fulltrúar allra flokka á Alþingi urðu sammála gegn formanni nefndarinnar Er von að spurt sé: er hægt að gera of vel ? Vildi iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa meiri ágreining um afgreiðslu mála síðastliðinn vetur ? Brast trúnaðurinn vegna skorts á ágreiningi?
Ráðherraræði
Eða er eitthvað annað sem veldur? Það tel ég að geti verið. Ég var nefnileg ekki sammála öllu því sem ráðherrann vildi og stóð gegn því. Tvennt vil ég nefna. Ráðherrann gerði kröfu til þess að hafa fulltrúa sína inn á fundum iðnaðarnefndar við meðferð raforkulagafrumvarpanna. Því hafnaði ég. Ég tel að meginreglan eigi að vera að umsagnaraðilar eigi að geta flutt mál sitt fyrir þingnefnd án viðveru eða afskipta fulltrúa ráðherrans. Þingnefnd er ekki hluti af ráðuneytinu, heldur á þar að fara fram sjálfstæð athugun á frumvörpum framkvæmdavaldsins. Hins vegar fékk ráðherrann allar skriflegar umsagnir sendar og gat komið sínum svörum og athugasemdum á framfæri á síðari fundum nefndarinnar gegnum fulltrúa ráðuneytisins. Annað atvik tengdist afgreiðslu SPRON málsins í efnahags- og iðnaðarnefnd. Meirihluti nefndarinnar fékk til aðstoðar starfsmenn ráðneytisins, enda mikill hraði á málinu gegnum þingið. Þegar meirihlutinn hafði athugað málið og komið sér saman um breytingartillögur var þeim falið að útbúa þingskjalið. Þegar starfsmennirnir höfðu lokið sinni vinnu og skjalið lesið yfir kom í ljós að ein tillagan hefði tekið verulegum breytingum. Kom í ljós að ráðherrann hafði haft samband við starfsmenn sína og fyrirskipað þeim að breyta tillögunni og gerði það að mér forspurðum. Að sjálfsögðu undi ég ekki þessum afskiptum ráðherrans. Svona á ekki að vinna, vilji ráðherrann ná fram breytingum þá verður hann að ná samkomulagi um það. Mér líkar ekki fyrirmælapólitík ráðherrans og gerði honum það ljóst. Hver erum við komin með stöðu Alþingis gagnvart ráðherrum ef þingmenn telja að þeir megi svo sem hafa skoðun en hún skiptir engu máli, þeir eigi skilyrðislaust að hlýða fyrirmælum ráðherra ? Slíkt ástand má með sanni kalla ráðherraræði.
Athugasemdir