Fjölmiðlar í fjötrum ?

Greinar
Share

Hratt flýgur stund varð mér að orði þegar ég var minntur á að senn væru 20 ár síðan Bæjarins besta hóf göngu sína. Vikulega hefur blaðið komið til mín og orðið með tímanum hluti af umhverfinu sem er hendi næst. Er bara alltaf til staðar, kemur út, flytur fréttir og umræðu. Er löngu orðið samgróið daglegu lífi, er einhvern vegin án upphafs. Því hrökk ég aðeins við þegar mér varð ljóst að heil tuttugu ár eru liðin frá því að fyrstu blöðin fóru í gegnum vélarnar í Suðurtanganum. Sennilega vegna þess að mér fannst að árin hefðu liðið hjá býsna hratt. Það er í minningunni svo stutt síðan þeir Halldór og Sigurjón lögðu af stað í útgáfuna. Blaðið er löngu orðið ómissandi þáttur í lífi Vestfirðinga, heima og heiman, og með vefnum bb.is er það daglegur vettvangur og fréttamiðill. Einn áhrifamesti miðill landsins í fréttaflutningi og virkasti umræðuvettvangur í þjóðfélagsumræðunni. Það er ekki lítill árangur tveggja Ísfirðinga í bæjarfélagi sem er fremur afskekkt á landsvísu og í fámennum landshluta. Þeir geta verið stoltir af árangrinum.
***
Bæjarins besta ásamt vefútgáfu sinni er ekki aðeins fyrir Vestfirðinga heldur fyrir landsmenn alla. Blaðið er hluti af fjölmiðlaflóru landsmanna. Við búum við lýðræðisskipulag og það grundvallast á því að hver maður sé frjáls að skoðun sinni og sannfæringu og svo ekki síður að hann eigi rétt á því að láta þær hugsanir sínar í ljós. Til þess að tryggja þennan rétt er hann festur í stjórnarskrá lýðveldisins. Svo menn geti nýtt sér þessi réttindi að fullu er í stjórnarskránni bannað að leiða í lög ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi. Fyrir 20 árum þurfti ekki að ræða þessa hluti, skilningur manna var eindreginn, skýr og ótvíræður. Menn virtu ákvæði stjórnarskrárinnar og um þau var ekki deilt. Ég hélt að þessi mál væru afgreidd, við höfðum ákveðið að búa í lýðræðisríki og um grundvöllinn voru allir sammála og það þurfti ekki að ræða frekar um ókomna framtíð.
***
En ekkert virðist vera varanlegt. Hugmyndir og viðhorf breytast smám saman og skyndilega getur maður staðið frammi fyrir því að skilningur sem lengi var óumdeildur er það ekki og hefur jafnvel tekið róttækum breytingum. Fyrir 20 árum var það óumdeilt að frelsi fjölmiðlanna er nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Fjölmiðlarnir eru tækið sem flytur fréttirnar og gerir einstökum skoðunum skil, þar fer gagnrýnin fram og krafist svara við spurningum. Að vega að frelsi og sjálfstæði fjölmiðlanna jafngildir því að vega að sjálfum grundvelli lýðræðisins. Fyrir tuttugu árum hvarflaði það ekki að mér að menn myndi nokkurn tíma fara inn á þessi helgu svið sem stjórnarskráin á að vernda.
En það gerðist nú samt. Á árinu lagði ríkisstjórnin fram svonefnt fjölmiðlafrumvarp og fékk það lögfest. Lögin var sett einu fjölmiðlafyrirtæki til höfuðs. Fjárhagslegur bakhjarl hins skuldsetta fyrirtækis mátti ekki vera eigandi lengur og auk þess varð fyrirtækið að selja dagblaðsrekstur sinn. Forspilið hafði staðið yfir í tæpt ár og einkenndist af árásum valdamikilla manna á tilgreinda fjölmiðla og fréttaflutningur þeirra gagnrýndur. Fyrrverandi forsætisráðherra fór fremstur og sakaði ítrekað Fréttablaðið og fréttastofu Stöðvar 2 um að vinna gegn sér og ganga erinda eigenda sinna. Í kjölfarið sigldu fleiri ráðherrar og bættu um betur. Ráðherrar úr báðum stjórnarflokkum veifuðu einu morgunblaðinu í ræðustól Alþingis, bentu þar tilgreindar fréttir, sem þeim mislíkaði, til þess að rökstyðja lagasetninguna. Löggjöfinni var sem sé ætlað að breyta fréttaflutningi fjölmiðlanna um þá sem stóðu að lagasetningunni. Þetta er ekkert annað en ritskoðun og þarna var vegið að 73. grein stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsið. Það sér hver maður að vegið er að grundvelli lýðræðisþjóðfélagsins ef stjórnmálamennirnir komast upp með það að setja lög gegn fjölmiðlum, sem gera þeim ókleift að starfa bara vegna þess að ráðamönnunum finnst að fjölmiðlarnir séu þeim óvinveittir. Þess vegna var brugðist hart við og segja má með sanni að þjóðin tók í taumana og knúði ríkisstjórnina til þess að afturkalla löggjöfina. Það var fullnaðarsigur í málinu enda dugði ekkert annað. Það er ekki hægt að standa að því að gera málamiðlun um sjálfan grundvöllinn í lýðræðinu. Annaðhvort er lýðræði eða ekki. Sérhver alþingismaður vinnur drengskaparheit að stjórnarskránni og trúnaður við hana á að vera framar öðrum trúnaði.
***
Í fjölmiðlamálinu barst leikurinn út um víðan völl. En alltaf barst leikurinn að stjórnarskránni. Fyrst var haldið fram að ákvæði 26. greinarinnar væru ómark, forsetinn gæti ekki vísað máli til þjóðarinnar. Þegar búið var að hrekja þá bábilju kom að hann væri vanhæfur. Þegar það gekk ekki var því haldið fram að meiningin hefði verið að málskotsréttinn ætti ekki að nota við þessar aðstæður heldur einhverjar aðrar. Þegar öll sund voru lokið í þessari lönguvitleysu og ekki undan því komist að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla kom enn ný viðbára. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga væri ójafn réttur þegnanna eftir skoðun á málinu. Þeir sem væru sammála ríkisstjórninni hefur mikla meira vægi en hinir sem væru henni ósammála. Í fullri alvöru datt ráðherrum það í hug að nóg væri að ¼ kjósenda væri þeim sammála þá réði þeirra vilji, þótt ¾ kjósenda væru andvígir í þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlamálið.
Það er mikið að þegar reyndir stjórnmálamenn halda því fram í alvöru að hægt sé að sveigja og beygja grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar að eigin geðþótta. Og það er verulegt áfall að þessir atburðir hafi orðið. Þjóðin verður að geta treyst alþingismönnum til þess að fara eftir þeim leikreglum sem settar eru í stjórnarskránni. Það traust hefur beðið hnekki. Nú er mjög í tísku að tala um að menn eigi að spila í liðinu og þeir sem ekki gera það missi trúnað félaga sinna eins og ég hef fengið að heyra. Um það tal allt má hafa mörg orð, en því má ekki gleyma að liðið á að spila eftir leikreglum lýðræðisins , það verður að spila eftir stjórnarskránni en ekki spila með stjórnarskrána.
Það er ástæða fyrir því að í stjórnarskránni segir að alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neina reglur frá kjósendum sínum. Þeir eru til á Alþingi sem ég tel að þurfi að lesa stjórnarskrána bæði kvölds og morgna.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir