Bráðabirgðaákvæðið burt
Í gildi hafa verið í tæp þrjátíu ár sérstök lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Forsaga þeirrar lagasetningar er svo kunn að óþarfi að rifja hana upp. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga þar sem lagt er til að gildissvið laganna verði þrengt og nái ekki lengur til alls Skútustaðahrepps heldur taki til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 metra breiðum bakka meðfram vatninu öllu og ánni báðum megin og auk þess votlendissvæða sem nánar eru tilgreind í frumvarpinu. Þessi breyting er einkum gerð til þess að mæta óskum heimamanna.
Aðalatriði málsins er hins vegar óbreytt, óheimilar verða áfram breytingar á hæð vatnsyfirborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna nema til verndunar og ræktunar þeirra og þá þarf til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Um þetta getur orðið víðtæk samstaða og engin vandkvæði sjáanleg á því að lögfesta frumvarpið.
Sérstök löggjöf um verndun Mývatns og Laxár endurspeglar það viðhorf að um málefni allrar þjóðarinnar er að ræða, en ekki sérmál virkjunaraðila og landeiganda. Svo hefur verið í þrjá áratugi og ekki er lögð til breyting á því.
En hækka samt
Með frumvarpinu slæðist samt ákvæði til bráðabirgða III sem gengur í berhögg við megintilgang frumvarpsins og gildandi laga, að vatnsyfirborð verði ekki hækkað. Þar er lagt til að í tæp 11 ár verði mögulegt að heimila hækkun á stíflu við inntak Laxárstöðva I og III í Laxárgljúfri. Engin mörk eru tilgreind á því hve mikil hækkunin geti orðið samtals og unnt verður að heimila hækkun stíflunnar oftar en einu sinni á gildistíma ákvæðisins. Engar upplýsingar eru gefnar um þau áform sem að baki liggja og áhrif af þeim á landssvæðið, en þeim mun betur skýrð sjónarmið eiganda virkjunarinnar. Þetta finnst mér óskiljanleg tillaga og algerlega óaðgengileg og leggst gegn bráðabirgðaákvæðinu og gerði grein fyrir þeirri afstöðu minni í umræðu um málið á Alþingi.
Þjóðarmál
Verndun svæðisins er þjóðarmál og það getur ekki gengið að Alþingi afsali sér því að ákvarða hvort og þá hvaða undanþágur verða samþykktar. Það er ekki nægilegt að Landsvirkjun og Landeigendafélagið komi sér saman um framkvæmdir sem leiða til hækkunar vatnsyfirborðsins. Eftir sem áður er það hlutverk Alþingis að ákveða hverju sinni hvort beri að heimila framkvæmdir. Ég tel bráðabirgðaákvæðið varasamt og rétt er að fella brott úr frumvarpinu. Náist góð samstaða milli Landsvirkjunar og heimamanna um athugun á einhverri hækkun stíflunnar , sem mér finnst eðli málsins samkvæmt hljóti að vera snúið, er eðlilegt að meta umhverfisáhrifin og leggja síðan málið fyrir þingið til ákvörðunar. Alþingi er í þessu máli eini aðilinn sem getur tekið ákvörðun í nafni þjóðarinnar. Landeigendur hafa nú svarað mjög skýrt og vilja ekki ljá máls á viðræðum við Landsvirkjun nema undir óbreyttum lögum.
Allar forsendur þekktar
Framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar skýrir sjónarmið Landsvirkjunar í grein í Mbl. þann 26. febrúar sl. Bendir hann á að Laxárstöðvar séu hlutfallslega dýrastar í rekstri af stöðvum Landsvirkjunar, stöðvarnar séu farnar að eldast og fjárfesta þurfi fyrir miklar fjárhæðir í búnaði til þess að viðhalda framleiðslugetunni. Ennfremur skýrir hann þann vanda að vatnsinntak stöðvarinnar hafi verið sniðið að hárri stíflu sem aldrei var reist og standi af þeim sökum upp úr vatni og grjót og sandur fari óhindrað inn í vélar stöðvarinnar. Hækka þurfi stífluna um 10-12 metra til þess að losna við þessi vandamál.
Segir hann að nauðsynlegt sé að fá niðurstöðu um þau skilyrði sem rekstri stöðvarinnar verða búin á næstu árum og áratugum áður en ákvörðun um fjárfestingu er tekin.
Um þennan málflutning er það eitt að segja að allar forsendur liggja fyrir og hefur svo verið í þrjátíu ár. Gildandi lög eru skýr og Landsvirkjun þarf ekkert að spyrja frekar um hvað fyrir löggjafanum vakir. Eigendur stöðvarinnar hafa þekkt þau og ákveðið að reka stöðina þennan tíma. Þeir hafa vitað allan tímann að hverju þeir gengu og geta tekið allar ákvarðanir um framtíð stöðvarinnar sem þeir kjósa. Það er fyrirsláttur hjá Landsvirkjun að spyrja þurfi um skilyrðin sem rekstrinum eru búin. Það sem Landsvirkjun er í raun að spyrja um er hvort Alþingi er ekki tilbúið að breyta skilyrðunum þeim í hag. Þeir vilja fá fram, að hluta til a.m.k., þau áform sem fyrir lágu um 1970. Það er kjarni málsins. Um það er deilt. Það er umhverfisvernd svæðisins sem er aðalatriðið en ekki virkjun vatnsaflsins. Það er engin leið að fallast á að breyta því.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir