Flokkinn að veði

Pistlar
Share

Það kom í hlut formanns Framsóknarflokksins að mæla fyrir nýju fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku. Þar mæltist honum svo að með því mætti segja að ríkisstjórnin legði líf sitt að veði þar sem alþingiskosningar yrðu áður en ný lög tækju gildi. Nánar tiltekið sagði hann:"Í því felst einmitt sú hugsun að þjóðinni gefist kostur á að lýsa viðhorfi sínu til þess meirihluta sem að baki breytingunum stendur og getur þá eftir atvikum losað sig við hann ef henni hugnast þær ekki. Þannig er ríkisstjórnin í raun reiðubúin að ganga lengra en leiða mundi af þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarpið eitt og sér. Með þessu má segja að hún leggi líf sitt að veði, enda gefst þjóðinni þá um leið kostur á að velja sér annan meirihluti."

60% framsóknarmanna á móti
Nýleg Gallup könnum leiðir í ljós að 2/3 hluti kjósenda sem afstöðu taka sé andvígur fjölmiðlalögunum og um 60% þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn. Ekki er ástæða til að ætla að þessi afstaða hafi breyst svo nokkru nema við nýju útgáfuna og bendir könnum Fréttablaðsins til að það sé raunin. Andstaðan virðist ekki hafa minnkað. Flokksmenn hafa mikið haft samband við mig undanfarnar vikur og ekki legið á þeirri skoðun sinni að þeir eru algerlega andvígir málatilbúnaðinum og vilja ekki þessi lög í gildi, heldur setja málið í athugun í nefnd að nýju og stefna þar að breiðri samstöðu um löggjöf ef á annað borð verður talin þörf á henni. Ólgan og reiðin hefur farið vaxandi eftir því á hefur liðið. Mér er til efs að ólgan hafi verið meiri í áratugi og fjölmiðlamálið hefur vakið hana , þótt ég telji að fleira komi til. Því má ekki gleyma að Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur.

Á ekki að fylgja leikreglum lýðræðisins?
Menn skilja ekki hvers vegna er ekki hægt að fylgja skýrum fyrirmælum í stjórnarskrá, svo sem varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hvers vegna þurfi að mismuna mönnun í slíkri atkvæðagreiðslu þannig að þeir sem styðja formann Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra fái meira atkvæðavægi en hinir sem eru honum ósammála, hvers vegna er verið að véfengja stöðu og valdsvið forseta Íslands,senda honum stöðug ónot og jafnvel sýna honum fjandskap, hvers vegna forsætisráðherra ræðst að lögfræðingum með fúkyrðum sem ekki eru sammála ríkisstjórninni og hvers vegna vegið er að Eiríki Tómassyni sem ætíð hefur verið talinn vel marktækur, og sérstaklega innan Framsóknarflokksins. Loks eiga menn erfitt að sjá hvaða óefni eru uppi á íslenskum fjölmiðamarkaði sem kallar á þessu hörðu viðbrögð ríkisstjórnarinnar og margir telja raunar að Bónus hafi gert vel fyrir íslenska alþýðu með því að stuðla að lækkun á matvælaverði.

Velja annan meirihluta ?
Við þessar aðstæður er ekki aðeins verið að leggja líf ríkisstjórnarinnar að veði í næstu alþingiskosningum heldur einnig Framsóknarflokkinn. Hvers vegna er verið aðstilla stuðningsmönnum flokksins, sem eru að meirihluta til á móti málinu, upp við vegg við næstu Alþingiskosningar og segja þeim að þeir geti losað sig við ríkisstjórnina og valið sér annan meirihluta ? Það er verið að setja flokkinn að veði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og lýsa því yfir Framsóknarflokkurinn ætli aðeins að starfa með honum bæði nú og eftir næstu Alþingiskosningar. Ég er algerlega ósammála þessu og spyr hvenær var þetta ákveðið ? Það er mikið lagt undir og áður en það er gert væri ekki rétt að gera það sem enn er ógert, að ræða fjölmiðamálið í æðstu stofnunum flokksins, miðstjórn og flokksþingi og móta þar stefnuna ?

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir