Mávagrátur

Pistlar
Share

Hann tekur enn flugið, Mávurinn að norðan, helsti fulltrúi sérhagsmunanna og grætur sem aldrei fyrr. Barlómurinn er sá sami og áður, þrír þingmenn frá Vestfjörðum halda sjávarútveginum í heljargreipum og standa fyrir lagasetningu sem færa veiðiheimildir frá fyrirtæki hans, Samherja til útgerðarmanna, sem beinlínis geri út á stjórnmálamenn. Þarna er Þorsteinn Már Baldvinsson að gagnrýna löggjöf um línuívilnun og kvótasetningu svonefndra dagabáta inn í krókaflamark. Viðhorf hans er að stjórnmálamenn eigi ekki að taka ákvarðanir sem varða úthlutun kvóta. Þar er hann sammála frænda sínum Þorsteini Vilhelmssyni, sem fyrir þremur árum,í viðtali við Morgunblaðið, bað Guð að hjálpa sér, ef stjórnmálamenn ætluðu að úthluta kvóta. Það gætu þeir ekki nema með skít og skömm.

Þeim var mikið gefið
Fyrir 20 árum voru þeir frændur að hefja útgerð og stóðu illa að vígi í upphafi kvótakerfisins, þar sem veiðireynsla skipanna var af skornum skammti. Má vera að þeir hafi beðið æðri máttarvöld að hjálpa sér, en þeir ákváðu að nauðsynlegt væri, svona til öryggis, að leita víðar fanga. Og hvar báru þeir niður annars staðar en hjá stjórnmálamönnunum ? Og fengu ríkulega uppskeru. Á fáum árum fengu 3 skip fyrirtækisins mikinn kvóta umfram veiðireynslu þeirra með sérstökum ákvörðunum sjávarútvegsráðuneytisins sem hver um sig náði til fárra útgerðarmanna. Mér telst til að þessi meðgjöf stjórnmálamannanna til fyrirtækisins sé um 6000 tonn af botnfiski, sem síðar varð varanlegur og framseljanlegur kvóti. Kvóti sem ekki þurfti að greiða fyrir og var sannarlega frá einhverjum tekinn. Fyrir vikið fékk fyrirtækið rekstrargrundvöll og varð svo verðmætt að þegar Þorsteinn Vilhelmsson gafst upp á samstarfinu við frænda sinn og seldi sinn hlut fékk hann rúma þrjá milljarða króna í sinn hlut. Það voru blessaðir stjórnmálamennirnir sem gerðu þá frændur ríka.

84% vilja breyta kerfinu
Ástæða þess að stjórnmálamennirnir eru enn að setja lög sem hafa áhrif á úthlutun veiðiheimilda er einföld. Það er almenn óánægja með kvótakerfið eins og skýrt kemur fram í nýlegri Gallup könnun. Áttatíu og fjögur prósent vilja breyta kerfinu eða leggja það niður en aðeins 16% vilja halda því óbreyttu. Stuðningsmenn kerfisins eru í minnihluta í öllum stjórnmálaflokkum og meðal stjórnarflokkanna er aðeins 1 stuðningsmaður óbreytts kerfis á móti hverjum 2 sem vill breyta því eða leggja það niður. Af könnuninni má ráða að óánægjan beinist að samþjöppun veiðiheimilda, áhrifum framsalsins á einstök byggðarlög og því að einstaklingar geti auðgast með því að selja veiðiheimildir. Kerfið er lokað og nýir menn geta ekki haslað sér völl í greininni nema með því að greiða þeim sem fyrir eru háar fjárhæðir. Þetta ættu þeir Samherjamenn að hugleiða því að þeir bera mikla ábyrgð á því að er kerfið svo óvinsælt sem raun ber vitni.

Geta sjálfum sér um kennt
Þeir sviku gefin loforð og fluttu kvóta og útgerð Guðbjargar ÍS frá Ísafirði, Þeir fluttu kvóta og útgerð tveggja togara frá Hafnarfirði þrátt fyrir ákvæði í kaupsamningi um annað og þeir hafa leikið svipaðan leik á Norður- og Austurlandi. Þeir sem áður voru aufúsugestir eru nú orðnir andvaragestir. Þeim er ekki lengur fagnað heldur eru þeir grunaðir um græsku og keyptir út ef mögulegt er. Þeir ganga svo langt að beita sér gegn mönnum sem ekki tala þeirra tungu varðandi kvótakerfið og vísa ég þar til þess þegar Árna Steinari Jóhannssyni var bolað frá því að flytja ræðu sjómannadagsins á Akureyri fyrir 2-3 árum og í staðinn fenginn annar þeim þóknanlegur og í sumar var við sama tækifæri málpípa þeirra fengin til þess að úthúða Guðmundi Halldórssyni, formanni Eldingar á Vestfjörðum. Vandinn í sjávarútvegi eru heljartök þessarra útgerðarmanna og annarra þeim líkum. Þeir eru vanir að ráða því sem þeir vilja og treysta, sem fyrr, á áhrif sín meðal stjórnmálamanna. Enn er kallað og krafist aðgerða gagnvart þremur þingmönnum. Það verður grannt fylgst með því hverju Mávagráturinn skilar að þessu sinni. Stóra spurningin er hversu lengi tekst fulltrúum sérhagsmunanna í andstöðu við almenning að tefja nauðsynlegar og óhjákvæmilegar breytingar á kvótakerfinu? Um það snúast átökin sem fyrr.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir