Fyrir síðustu Alþingiskosningar setti Framsóknarflokkurinn á stefnuskrá sína að setja einn milljarð króna til viðbótar því sem þá var varið til baráttunnar gegn vímuefnum. Lögð var áhersla á að fjölga meðferðarúrræðum fyrir unglinga, að auka samstarf við frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðarúrræða og efla sérstaklega lögreglu og tollgæslu í baráttu gegn innflutningi, sölu og neyslu fíkniefna, svo helstu atriði séu nefnd.
Fyrir réttri viku ritaði Ásthildur Cesil Þórðardóttir grein á vefinn og vændi Framsóknarflokkinn um vanefndir á þessu fyrirheiti og gerði heldur lítið úr frammistöðu hins opinbera almennt. Segir hún að SÁÁ, Krísuvíkursamtökin og trúarsamtök hafi borðið hita og þunga af þeirri uppbyggingu sem átt hefur séð stað. Staðreyndin er önnur, eins og ég gerði grein fyrir í grein sem birtist á skírdag á BB vefnum þá nema fjárveitingar liðlega 1700 milljónum króna til þessara verkefna. Framsóknarflokkurinn hefur að fullu staðið við gefin fyrirheit og ásakanir Ásthildar hafa verið hraktar lið fyrir lið.
Félagasamtök styrkt myndarlega
Ríkið kom að þeirri uppbyggingu með myndarlegum hætti sem Ásthildur viðurkennir að hafi átt sér stað. Til félagasamtaka hefur verið varið í viðbótarfjárveitingum um 620 mkr. og þar af til unglingadeilar SÁÁ 260 mkr. til reksturs og byggingar og samkvæmt mínum upplýsingum er ekki biðlisti inn á þá deild í dag.
Viðbótarfjárveitingar frá Félagsmálaráðuneytinu voru um 550 mkr. og þar sem Ásthildur óskar eftir sundurliðun á þeirri fjárhæð hef ég aflað mér upplýsinga um hana: 310 mkr. fóru til þess að koma upp bráðamóttöku fyrir 8-10 unglinga með geðraskanir og hegðunarvandkvæði, svo sem vímuefnaneyslu og afbrotahneigð. Af þeirri fjárhæð fóru 120 mkr. til BUGL og annað til Barnaverndarstofu. Á fjáraukalögum 1999 var 10 mkr. bætt við fjárveitingar til þess að koma á fót langtímameðferð fyrir unglinga sem glíma við vímuefnafíkn (Skjöldólfsstaðir) og síðan árlega 30 mkr eða samtals um 130 mkr. Til þjónustusamnings við Götusmiðjuna (Árvellir) fóru 20 mkr. árlega eða samtals 80 mkr. 40 mkr. var varið til að styrkja starfsemi Krossgatna, endurhæfingarheimilis og 20 mkr. til að styrkja starfsemi Byrgisins, en það eru fjárveitingar til viðbótar því sem Byrgið fékk af fjárveitingum Heilbrigðisráðuneytisins.
Ómaklegar og ósannar ásakanir
Mér þykir það miður að Ásthildur neitar að draga til baka ómaklegar ásakanir á störf þeirra sem unnið hafa að málum Byrgisins. Um það fólk segir hún að “í raun og veru er enginn vilji til þess að vinna vel og heiðarlega að þessum málum”. Margir hafa komið þar að verki, m.a. ráðherrar og starfsmenn í þremur ráðuneytum. Athyglisvert er að Ásthildur kemur að málinu sem stjórnmálamaður því hún talar fyrir hönd Frjálslynda flokksins og tilkynnir að hún muni persónulega sjá til þess ef sá flokkur komist til áhrifa í næstu ríkisstjórn að þá verði þessi mál öll endurskoðuð og lagfærð. Þar með eru þessar ásakanir bornar fram í nafni Frjálslynda flokksins m.a. á embættismenn ríkisins “að þeir vilji ekki vinna vel og heiðarlega” Ég efa það að frambjóðandi Frjálslynda flokksins, Matthías Bjarnason fyrrv. heilbrigðisráðherra, taki undir þessar aðdróttanir í garð starfsmanna.
Hvað er svo lélegt?
Ásthildur segist verða að gefa Framsóknarflokknum frekar lága einkunn fyrir “það sem kom út úr einum komma sex milljörðum króna á kjörtímabilinu” og gefur í skyn að peningarnir hafi ekki farið þar sem þörfin var mest og von var í mestum árangri. Af þessu tilefni spyr ég: hvað var svona lélegt ? að verja 260 mkr. til þess að koma upp og reka unglingadeild SÁÁ ? Að setja ríflega 220 mkr til félagasamtakanna Virkisins, Byrgisins, Krossgatna, Krísuvíkurskóla og SÁÁ ? að setja liðlega 4 mkr. til Gamla apóteksins á Ísafirði, Vímulausrar æsku og TÚNs á Húsavík? að setja 280 mkr. sérstaklega til geðheilbrigðismála? Að setja 350 mkr. til þess að styrkja fíkniefnalöggæslu m.a. í Keflavík ? Mér er spurn eru engin takmörk fyrir því hvað talsmaður Frjálslynda flokksins leyfir sér í málflutningi ? Er þetta hægt Matthías ?
Byrgið
Mestum hluta af svargrein sinni ver Ásthildur í málefni Byrgisins og fer þar um víðan völl, ýmist gefur starfsmönnum Byrgisins orðið eða kemur fram sem talsmaður þess. Ekki er ljóst hvort starfmenn Byrgisins eru að svara Ásthildi eða mér og ekki koma fram spurningarnar sem lagðar voru fyrir þá. Ég er ekki aðili að viðræðum ríkisins og Byrgisins og mér er ekki kunnugt um að Ásthildur sé fulltrúi þeirra í þeim viðræðum og því ættu umræður þar um að takmarkast af þeirri staðreynd. Ég fæ ekki séð að það sé í verkahring Ásthildar að gefa út yfirlýsingar fyrir hönd fulltrúa Byrgisins um eitt og annað, það verða þeir sjálfir að gera. Ég vil víkja að fáum atriðum sem ég nefndi í fyrri grein minni.
Kaup ríkisins á Efri Brú voru ákveðið eftir skoðunarferð þar sem fulltrúar Byrgisins lýstu yfir mikilli ánægju með húsnæðið. Fulltrúar Byrgisins í viðræðum við ríkið hafa verið Guðmundur Jónsson, Hilmar Baldursson og Ólafur Ólafsson fyrrv. landlæknir.
Landsskil bandaríska hersins fara eftir reglum sem um það gildir og getur Ásthildur aflað sér upplýsinga um það hjá Utanríkisráðuneytinu. Að lokum ítreka ég að íslenska ríkið hefur keypt húsnæði undir starfsemi Byrgisins og mun einnig gera samning við samtökin um reksturinn. Hvort tveggja er nýmæli og ber að hrósa ríkisstjórninni fyrir það. Að Byrginu standa frjáls félagasamtök. Þau hafa lagt áherslu á að starfa á eigin vegum og ekki viljað atbeina ríkisins. Aðferðirnar eru umdeildar og t.d. er mér ekki kunnugt um að neinn heilbrigðisstarfsmaður vinni við meðferðina utan þess að fyrrv. landlæknir lítur til þeirra. Nú stendur vilji þeirra til þess að komast á fjárlög ríkisins og fyrir atbeina Framsóknarflokksins verður það að veruleika. Þess vegna á Ásthildur að fagna en ekki ráðast að okkur framsóknarmönnum.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir